Stærsti matarviðburður á Íslandi, Götubitahátíðin 2024, verður haldin í Hljómskálagarðinum í hjarta borgarinnar dagana 19.-21. júlí næstkomandi. Á hátíðinni verða um 30 söluaðilar í matarvögnum og sölubásum. Á hátíðinni fer einnig fram keppnin um „Besta götubita Íslands 2024” og mun sigurvegarinn keppa fyrir Íslands hönd á stærstu götubitakeppni í heimi, European Street Food Awards, sem haldin verður í Þýskalandi í lok september, þar sem 18 aðrar þjóðir keppa um Besta götubitann í Evrópu.“
Í fyrra vann Sigvaldi Jóhannesson, betur þekktur sem Silli kokkur, verðlaun fyrir Besta götubitann árið 2023 á Íslandi og var það fjórða árið í röð sem hann ber sigur úr býtum. Hann gerði sér líka lítið fyrir og vann titilinn Besti hamborgarinn á stærstu götubitakeppni í heimi í fyrra sem haldin var í Þýskalandi og verður aftur í ár eins og fram hefur komið. Það verður því fróðlegt að fylgjast með hvort Silli nær að halda titlinum í ár.
Hljómskálagarðurinn mun iða af lífi, tónlist mun óma og leiktæki og hoppukastalar verða til staðar fyrir yngri kynslóðina. Einnig verður Bjórbíllinn og Búbblu-vagninn frægi á svæðinu fyrir þá þyrstu. Götubitahátíð 2024 – European Street Food Awards er haldin í samstarfi við Reykjavíkurborg, Coke og Víking.
Götubitahátíðin verður á eftirfarandi tímum:
Vert er að geta þess að það er enginn aðgangseyrir inn á hátíðina. Hægt er að kynna sér Götubitahátíðina nánar hér.