Hefur þú prófað að þeyta ostakubb?

Guðdómlega girnilegur grillaður kjúklingur með þeyttum ostakubbi sem gleður bragðlaukana.
Guðdómlega girnilegur grillaður kjúklingur með þeyttum ostakubbi sem gleður bragðlaukana. Ljósmynd/Thelma Þorbergsdóttir

Telma Þorbergsdóttir matarbloggari á heiðurinn af þessari guðdómlegu uppskrift þar sem þeyttur ostakubbur leikur aðalhlutverkið með dásamlegri útkomu. Hér er á ferðinni kjúklingur grillaður á gríska vísu með þeyttum ostakubbi. Með réttinum er gott að bera fram hrísgrjón og ferskt og gott salat. Hægt er að nota þeyttan ostakubb með hvaða kjöti sem er í stað sósu og kemur afar skemmtilega út. Hann er líka snilld með sem ídýfa með góðu frönsku baguette brauði, frækexi eða jafnvel fersku grænmeti.

Grískur kjúklingur með þeyttum ostakubb

  • Grillaður kjúklingur, sjá uppskrift að neðan
  • Þeyttur ostakubbur, sjá uppskrift að neðan
  • Litlir tómatar eftir smekk, fyrir samsetninguna
  • Sítróna eftir smekk, fyrir samsetninguna
  • Ferskur kóríander eftir smekk, fyrir samsetninguna
  • Ferskur graslaukur eftir smekk, fyrir samsetninguna

Grillaður kjúklingur á gríska vísu

  • 1 kg úrbeinuð kjúklingalæri
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 100 ml ólífuolía
  • Börkur af einni sítrónu, rifinn
  • Safi úr einni sítrónu
  • 1 msk. dijon sinnep
  • 2 msk. hunang
  • 1 ½ tsk. sjávarsalt
  • ½ tsk. svartur pipar
  • ½ tsk. óreganó
  • ½ tsk. chilliflögur
  • Þeyttur ostakubbur, sjá uppskrift að neðan

Aðferð:

  1. Setjið kjúklinginn í skál og setjið til hliðar.
  2. Blandið öllu saman fyrir mariíneringuna í skál þar til allt hefur blandast vel saman og hellið henni yfir kjúklinginn.
  3. Hrærið öllu vel saman þannig maríneringin fari vel yfir allan kjúklinginn.
  4. Látið liggja í maríneringu í 2 klukkustundir.
  5. Gott er að taka kjúklinginn út 20 mínútum áður en á að grilla hann.
  6. Grillið kjúklinginn þar til hann er orðinn fulleldaður.
  7. Smyrjið þeytta ostakubbinum á fat og leggið grillaðan kjúklinginn yfir hann.
  8. Skerið niður litla tómata og raðið með fram kjúklingnum ásamt sítrónusneiðum.
  9. Gott er að hella smá ólífuolíu yfir allt saman og krydda með ferskum kóríander og graslauk.
  10. Berið fram og njótið.

Þeyttur ostakubbur

  • 250 g ostakubbur frá MS
  • 60 g rjómaostur
  • 2 msk. ólífuolía
  • Börkur af hálfri sítrónu
  • Safi af hálfri sítrónu
  • ½ tsk. sjávarsalt
  • ½ tsk. svartur pipar

Aðferð:

  1. Skerið ostakubbinn í litla bita og setjið í skál ásamt rjómaosti, ólífuolíu, sítrónu og sítrónuberki, salti og pipar.
  2. Maukið allt saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til ostablandan verður orðin mjúk og slétt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert