Hildur býður upp á grænt salat með ristuðum hnetum og sesamdressingu

Hildur Ómarsdóttir býður upp á súrkálssalat dagsins sem er bæði …
Hildur Ómarsdóttir býður upp á súrkálssalat dagsins sem er bæði matarmikið og fallegt að sjá. Samsett mynd

Miðvikudagar eru súrkálssalatdagar og nú er komið að næsta salati sem inniheldur súrkál. Hér erum við komin með matarmikið og bragðgott salat úr smiðju Hildar Ómarsdóttur matarbloggara með meiru sem er þekkt fyrir að gera litrík og góð salöt sem gleðja bæði augu og bragðlauka. Hildi finnst mikið atriði að salat innihaldi hráefni með ólíka áferð, sé saðsamt og að jafnvægi sé á súru, söltu og fersku bragði og í þessu salati er hún með klassískt súrkál með kúmeni. Súrkálið góða sem súrkálsdrottningin okkar á heiðurinn af. Hún er líka meðvituð um það að við borðum líka með augunum og það skemmir ekki þegar salatið er fallegt fyrir augað. Loks segir Hildur að bragðmikil dressingin setji punktinn yfir i-ið.

Girnilegt salatið hennar Hildar.
Girnilegt salatið hennar Hildar. Ljósmynd/Hildur Ómarsdóttir

Salatið hennar Hildar

Salatið

  • ¼ rauðlaukur
  • 1 lítil rauðrófa
  • 2 lífræn epli
  • 50 g heslihnetur
  • 100 g pekanhnetur
  • 1 gúrka
  • 2 avókadó
  • u.þ.b. 125 g salatblanda frá VAXA 
  • Klassískt súrkál með kúmeni

Dressing

  1. ½ dl sesamolia
  2. ½ dl ólífuolía
  3. ¼ dl sojasósa glútenlaus
  4. 2 msk. safi úr lífrænni sítrónu
  5. Vænn engiferbiti, eins og þykkur þumall
  6. ½ kúluhvítlaukur (geiralaus hvítlaukur)

Aðferð:

  1. Ristið hneturnar á lágum hita á þurri pönnu í um það bil 1-2 mínútur.
  2. Skerið avókadó, epli, gúrku og rauðlauk í þunnar sneiðar.
  3. Skrælið rauðrófuna og rífið niður með rifjárni (það er einnig hægt að nota grænmetisyddara eða svipaða græju til að rífa niður rauðrófuna og gúrkuna í spagettíslöngur).
  4. Útbúið dressinguna með því að mixa öllu saman með t.d. töfrasprota eða litlum blandara.
  5. Berið fram á salatbeði. Þetta er toppað með avókadó, gúrku, eplaskífum, rauðlauki, rifinni rauðrófu, ristuðum hnetum, sesamdressingu og súrkáli.
  6. Njótið með ykkar besta fólki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert