BBQ Taquitos með ranch sósu og ferskum maís fyrir þig

Skemmtileg framsetning á þessum rétti.
Skemmtileg framsetning á þessum rétti. Ljósmynd/Hildur Rut Ingimarsdóttir

Hér eru á ferðinni stökkar taquitos fylltar með rifnum kjúklingi í BBQ sósu og rifnum osti, bornar fram með heimagerðri ranch sósu og ferskum maís. Þetta er rosaleg gott og sósan er bragðbomba, kryddin gera svo skemmtilegt bragð saman. Það er mjög gott að nota þurrkað krydd í stað fersku kryddjurtanna en bæði gott og þið getið sleppt þeim kryddum sem hentar ykkur ekki. Hildur Rut Ingimarsdóttir matarbloggari á heiðurinn af uppskriftinni og birtist hún á uppskriftavefnum Gerum daginn girnilegan. En þar er að finna fjölmargar girnilegar uppskriftir sem vert er að prófa.

BBQ Taquitos með ranch sósu og ferskum maís

Kjúklingurinn í BBQ Taquitos

  • ½ stk. kjúklingur rifinn (upplagt kaupa tilbúinn heilan grillaðan kjúkling)
  •  2 dl Hunt´s BBQ Honey Mustard sósa
  • Salt og pipar eftir smekk
  •  Litlar tortillur
  •  Philadelphia rjómaostur
  •  Rifinn cheddar ostur

Meðlæti

  • Ranch sósa, sjá uppskrift fyrir neðan
  • Maísblanda, sjá uppskrift fyrir neðan

Aðferð:

  1. Rífið kjúklinginn smátt, setjið í skál og blandið BBQ sósu, salti og pipar saman við.
  2. Smyrjið tortillurnar með rjómaosti.
  3. Dreifið cheddar ostinum yfir, setjið 2-3 msk. af kjúklingnum á tortillurnar og rúllið þeim upp.
  4. Blandið saman í sósuna.
  5. Steikið tortillurnar upp úr ólífuolíu þar til þær verða stökkar og gylltar. Það er einnig mjög gott að dreifa þeim á bökunarplötu klæddri bökunarpappír, pensla þær með ólífuolíu og baka í ofni við 190°C í 6-8 mínútur eða þar til þær eru orðnar stökkar.
  6. Berið fram með ranch sósu og ferskum maís og njótið.

Ranch sósa

  •  1 dl Heinz majónes
  •  1 dl sýrður rjómi
  •  1 msk. límónusafi
  •  1 msk. smátt skorin jalapeno úr krukku
  •  1 msk. dill (ferskt eða þurrkað)
  •  1 msk. steinselja (fersk eða þurrkuð)
  •  1 msk. kóríander (ferskur eða þurrkaður)
  •  1 tsk. salt
  •  ¼ tsk. pipar
  •  1 tsk. laukduft
  •  ½ tsk. hvítlauksduft

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman majónes, sýrðan rjóma og límónusafa í skál.
  2. Bætið síðan við restinni að hráefninu og blandið vel saman.
  3. Geymið sósuna í kæli þar til hún er borin fram.

Maísbland

  •  2 stk. ferskir maískólfar
  •  1 dl stappaður fetaostur
  •  2 msk. Heinz majónes
  •  1 tsk. cayenne pipar
  •  2 msk. ferskur kóríander, smátt skorinn

Aðferð:

  1. Pakkið maískólfunum í álpappír og bakið í 30 mínútur við 190°C.
  2. Skerið maískornin af og blandið saman við stappaðan fetaost, majónes, cayenne pipar og ferskan kóríander.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert