Ómótstæðilegir smash-borgarar með geitaosti og chili-hunangi

Matthías Ingi Sævarsson hefur mikinn áhuga á smáréttum og finnst …
Matthías Ingi Sævarsson hefur mikinn áhuga á smáréttum og finnst skemmtilegast að matreiða smáborgara. mbl.is/Árni Sæberg

Matthías Ingi Sævarsson, yfirmatreiðslumeistari á veitingastöðunum Hjá Jóni á Iceland Parliament hóteli og Konsúlat Wine Room á Reykjavík Konsúlat hóteli, sviptir hulunni af uppskriftinni að uppáhaldshamborgurum móður sinnar sem eru bornir fram með geitaosti, chili-hunangi og fleira góðgæti.

Sumarið er búið að vera annasamt hjá Matthíasi en hann sér um að þróa og hanna matseðlana á báðum veitingastöðunum. „Á veitingastaðnum Hjá Jóni er íslensk matarmenning í hávegum höfð en á Konsúlat Wine Room er áherslan lögð á ljúffenga smárétti sem parast við sérvalin vín. Þessa stundina bjóðum við upp á vín frá Ítalíu og matseðillinn er í takt við þau, þ.e. smáréttirnir eru með ítölsku ívafi,“ segir Matthías.

Matthías elskar að þróa og prófa sig áfram í smárétta …
Matthías elskar að þróa og prófa sig áfram í smárétta gerð og nýtur þess að nostra við matargerðina. mbl.is/Árni Sæberg

Skemmtilegasta að matreiða smáborgara

Þegar kemur að matargerðinni þá hefur Matthías mikla ástríðu fyrir starfinu sínu og elskar fátt meira en að þróa nýja rétti. „Ég hef mikinn áhuga á smáréttum. Að mínu mati eru skemmtilegustu matarboðin þegar boðið er upp á úrval af litlum réttum. Þegar kemur að hamborgurum þá finnst mér skemmtilegast að matreiða smáborgara þar sem ætlast er til að hver og einn gestur fái sér 2-3 borgara. Auðvitað er hægt að útfæra þennan hamborgara bæði sem smáborgara og í stærri útgáfu sem ég ætla að gefa ykkur uppskriftina að. Þessi hamborgari er í miklu uppáhaldi hjá mömmu minni og hef ég lagt mitt fingrafar á hann og gert hann að mínum. Um er að ræða smash-hamborgara með geitaosti, rauðlauks- og rauðrófusultu, stökku beikoni og chili-hunangi. Mér finnst best að nota kartöflubrauð þegar verið er að gera smash-borgara. Gott er að steikja brauðið á sömu pönnu og hamborgararnir voru steiktir á. Vert er að hafa í huga að við val á hakki fyrir smash-borgara er best að nota fituríkt hakk, tilvalið að miða við milli 15-20% fitu,“ segir Matthías og sviptir hér hulunni af uppskriftinni sinni að sínum uppáhalds. Best er að gera fyrst chili-hunangið og rauðlauks- og rauðrófusultuna, matreiða svo hamborgarana og setja þá saman.

Ómótstæðilegir smash-hamborgarar að hætti Matthíasar.
Ómótstæðilegir smash-hamborgarar að hætti Matthíasar. mbl.is/Árni Sæberg

Smash-borgarar með geitaosti og chili-hunangi að hætti Matthíasar

Smash-borgarnir

  • 3 hamborgarar
  • 240 g nautahakk að eigin vali, í 6 buff
  • 6x40 g
  • 3 hamborgarabrauð
  • 6 sneiðar geitaostur, stífur
  • Chili-hunang eftir smekk, uppskrift fyrir neðan
  • Rauðlauks- og rauðrófusulta eftir smekk, uppskrift fyrir neðan
  • Stökkt þykkt beikon í bitum, sjá leiðbeiningar fyrir neðan

Eldunarleiðbeiningar fyrir smash-borgarana

  1. Byrjaðu á því að vigta hakkið í 40 g skammta og rúllaðu upp í kúlur.
  2. Settu kúlu á pönnuna og pressaðu með spaða eða litlum potti til að fletja hana út. Þaðan kemur nafnið „smash“.
  3. Leyfðu buffinu að brúnast.
  4. Best er að láta það alveg vera á meðan.
  5. Saltaðu borgarann vel áður en þú snýrð honum við.
  6. Snúðu borgaranum við og settu geitaost ofan á.
  7. Settu lokið á pönnuna til að léttbræða ostinn.
  8. Síðan er að setja hamborgarana saman.

Chili-hunang

  • 200 g hunang
  • 3 msk. þurrkað chili (chili flögur)
  • 1 tsk. reykt paprika
  • ½ tsk. cayenne-pipar (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjaðu á því að setja hunang í pott og hitaðu að suðu.
  2. Bættu kryddunum saman við og slökktu undir hitanum.
  3. Láttu standa í um það bil 30 mínútur.
  4. Sigtaðu hunangið og geymdu í krukku.

Rauðlauks- og rauðrófusulta

  • 2 rauðlaukar
  • ½ rauðrófa
  • 50 g sykur
  • 75 g púðursykur
  • 250 ml rauðvínsedik
  • 1 stk. kanilstöng
  • 1 stk. stjörnuanís

Aðferð:

  1. Byrjaðu á því að skera rauðlaukinn í þunnar sneiðar og steiktu þær
  2. í potti á miðlungshita þar til laukurinn er orðinn mjúkur.
  3. Bættu sykri og ediki saman við laukinn og láttu sjóða.
  4. Gott er að hræra annað slagið í til að koma í veg fyrir að sykurinn brenni við.
  5. Skrældu rauðrófuna, rífðu niður með rifjárni og bættu saman við laukinn.
  6. Láttu suðuna koma upp og lækkaðu svo hitann undir pottinum.
  7. Bættu kanilstöng og stjörnuanís við.
  8. Leyfðu sultunni að malla þar til hún er orðin þykk.
  9. Gott er að geyma sultuna í lokaðri krukku inni í ísskáp.

Stökkt beikon

  • 200 g þykkt beikon
  • Olía eftir þörfum

Aðferð:

  1. Skerðu beikonið í smáa bita og steiktu á miðlungsheitri pönnu með
  2. örlitlu magni af olíu þar til það er orðið vel stökkt þarf ekki mikið af
  3. olíu þar sem beikonið er fituríkt og kastar frá sér fitunni þegar það hitnar.
  4. Dreifðu beikoninu á eldhúspappír og láttu þorna.

Samsetning á smash-borgaranum

  1. Steiktu hamborgarabrauð á pönnunni ef vill.
  2. Settu síðan rauðlauks- og rauðrófusultuna og klettasalat á botnbrauðið.
  3. Ofan á það fara tvö buff af smash-borgurum með léttbræddum geitaosti.
  4. Stráðu loks stökku beikoni og chili-hunangi yfir geitaostinn og lokaðu borgurunum.
  5. Berðu fram á fallegu viðarbretti eða disk sem laðar að.
Þegar þú gerir smash-borgara settur þú kúlu á pönnuna og …
Þegar þú gerir smash-borgara settur þú kúlu á pönnuna og pressar með spaða eða litlum potti til að fletja hana út. Þess vegna eru þessir kallaðir „smash“ borgarar. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka