Magdalenur í tilefni þjóðhátíðardags Frakka

Ljúffengar og fallegar Magdalenur eða Madeleines til að hafa með …
Ljúffengar og fallegar Magdalenur eða Madeleines til að hafa með kaffinu á þjóðhátíðardegi Frakka í dag, Bastilludeginum. Ljósmynd/Unsplash

Í dag, 14. júlí er þjóðhátíðardagur Frakka, Bastilludagurinn frægi. Til að fagna þjóðhátíðardeginum með Frökkum er upplagt að baka ekta franskar Magdalenur eða Madeleines sem og þær heita á frönsku. Þær eru einfaldar og góðar, passa vel, til að mynda, með kampavíni og líka með rjúkandi heitu kaffi. Vert er að byrja strax að baka ef þið viljið bjóða upp á þessar með sunnudagskaffinu eða í eftirrétt með kvöldverðinum, því deigið þarf að kæla í að minnsta kosti tvær klukkustundir fyrir bakstur. Síðan þarf auðvitað að eiga rétta formið fyrir þessar kökur eða Magdalenuform en þessar kökur eru litlar skeljalaga kökur og bakaðar í frönskum skeljalaga formum.

Magdalenur eða Madeleines eins og þær heita á frönsku

  • 2 stór egg
  • 0,75 dl sykur
  • 1,25 dl hveiti
  • Hnífsoddur að salti
  • ¾ tsk. lyftiduft
  • 6 ½ msk. smjör, við stofuhita
  • 1 tsk. hunang
  • ½ tsk. rifinn sítrónubörkur af lífrænni sítrónu
  • ½ tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að brjóta eggin og setja saman í stóra skál.
  2. Bætið síðan við sykrinum og hrærið saman við.
  3. Takið aðra skál og hrærið saman hveiti, salt og lyftiduft.
  4. Blandið saman þurrefnunum við eggin þar til deigið verður jafnt.
  5. Hrærið loks hunanginu saman við brædd smjörið.
  6. Hrærið hunangsblöndunni ásamt vanilludropunum og sítrónuberkinum saman við deigið.
  7. Kælið deigið í tvær klukkustundir eða lengst yfir nótt.
  8. Hitið ofninn í 175°C.
  9. Takið til Magdalenu smákökuformið og spreyið með olíu.
  10. Hellið deiginu í formin að ¾ hluta.
  11. Setjið inn í ofn og bakið í um það bil 6 mínútur.
  12. Leyfið kökunum að kólna í forminu í nokkrar mínútur og takið þær svo úr forminu og leyfið að kólna á kökugrind.
  13. Berið síðan Magdalenurnar fram á fallegan hátt og skreytið jafnvel með einhverju frönsku. Sumir strá flórsykri yfir kökurnar þegar þær eru bornar fram og það þykir líka mjög fallegt og gott.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka