„Spicy“ Akureyringurinn á eftir að slá í gegn

Ísak Aron Jóhannsson fyrirliðið íslenska kokkalandsliðsins býður upp á „Spicy“ …
Ísak Aron Jóhannsson fyrirliðið íslenska kokkalandsliðsins býður upp á „Spicy“ Akureyringinn sem á eftir að slá í gegn. Samsett mynd

Ísak Aron Jóhannsson fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og eigandi ZAK veitingaþjónustunnar nýtur þess að grilla á sumrin og gerir mikið af því. Landsliðskokkarnir í íslenska kokkalandsliðinu eiga allir sína uppáhaldsútgáfu af hamborgara og margir þeirra eru búnir að deila með lesendum Matarvefsins uppskriftinni af sínum uppáhalds. Nú er komið að Ísaki að svipta hulunni af sínum uppáhaldshamborgara þessa dagana. Þessi borgari er rosalegur, samsetningin er framúrskarandi og það er erfitt að toppa þennan. Hann á eftir að slá í gegn í næstu grillveislu.

„Þessi burger er tileinkaður Akureyringum en hann er samansettur af Chuck grillborgurum frá Norðlensku, með bræddum piparosti, rauðlauksultu, steiktum sveppum, chili-bernaise, kartöfluhamborgarabrauði og síðast en ekki síst með frönskum kartöflum á milli,“ segir Ísak.

Hvað varðar magn á hamborgurum er ykkar að velja hvort þið viljið grilla tvo, fjóra eða sex. Þá miðið þið meðlætið ofan á hamborgarana sem og fjölda hamborgarabrauða eftir því. Uppskriftirnar að rauðslaukssultunni og chili-bernaise sósunni duga vel á nokkrar borgara.

Ísak vill hafa sína hamborgara grillaða medium. Sjáið franskarnar á …
Ísak vill hafa sína hamborgara grillaða medium. Sjáið franskarnar á milli, syndsamlegt að njóta. Ljósmynd/Ísak Aron Jóhannsson

Spicy“ Akureyringurinn – grillborgari með bræddum piparosti, rauðlaukssultu, steiktum sveppum, chili-bernaise sósu, frönskum karöflum í kartöfluhamborgarabrauði

Steiktir sveppir

  • Flúðasveppir eftir smekk
  • Salt eftir smekk
  • Olía

Aðferð:

  1. Skerið sveppina í sneiðar og hitið pönnu þar til hún byrjar að reykja,
  2. Skellið þá olíu á pönnuna og bætið við sveppum ásamt salti.
  3. Steikið þar til þeir verða gullinbrúnir.

Rauðlauksulta

  • 2 stk. rauðlaukur
  • 150 g sykur
  • 50 ml balsamik edik

Aðferð:

  1. Skerið lauk á móti rótinni í strimla og steikið á miðlungshita þar til laukurinn byrjar að karamellíserast.
  2. Bætið við balsamik ediki og sykri, leyfið að sjóða saman í u.þ.b. 5 mínútur.

Chili-bernaise sósa

  • 400 g smjör
  • 4 stk. eggjarauður
  • Bernaise edik
  • Þurrkað fáfnisgras
  • Sriracha

Aðferð:

  1. Bræðið smjör og hafið eggjarauður tilbúnar í skál ásamt dass af bernaise ediki og fáfnisgrasi.
  2. Hellið smjöri í eggjarauðurnar á meðan því er pískað saman, þegar allt smjörið hefur farið í bernaise-sósuna er hún smökkuð til með salti, sriracha sósu og ediki eins og þörf er á.

Chuck grillborgari frá Norðlenska

  1. Þessir einstaklega góðu borgarar innihalda mikla fitu og er nauðsynlegt að salta þá vel áður en þeir eru grillaðir til að auka bragðið.
  2. Skellið borgurunum á funheitt grillið og skerið piparost í þunnar sneiðar á meðan þeir grillast. Ég grilla hamborgarana mína medium en hver sér um sig hvernig þeir eiga að vera eldaðir.
  3. Þegar borgararnir eru 1 mínútu frá því að vera tilbúnir skellið þá piparostasneiðum á þá og leyfið ostinum að bráðna.

Franskar að eigin vali

  • Franskar eftir smekk

Aðferð:

  1. Bakið eða djúpsteikið eftir leiðbeiningum.
  2. Ég nota djúpsteikingarpott til að steikja mínar franskar heima en ofnsteiktar eru alltaf hollari.

Samsetning á hamborgaranum:

  1. Byrjið á því að grilla brauðið, næst „drisslið“ þið chili-bernaise sósu á brauðið og eftir því kemur rauðlauksulta, steiktir sveppir og kál.
  2. Nýgrillaðir borgarar koma næst með bræddum piparosti ásamt meiri chilli bernaise.
  3. Toppið síðan efsta hlutann eins og alvöru Akureyringur gerir með frönskum á borgarann og skellið meiri chili-bernaise á.
  4. Næst setjið þið lokið á borgarann og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert