Súkkulaðikakan hennar Elenoru Rós sem rifjar upp æskuminningar

Elenora Rós Georgsdóttir bakari kann að gleðja sína með gómsætum …
Elenora Rós Georgsdóttir bakari kann að gleðja sína með gómsætum súkkulaðikökum sem rifja upp góðar minningar. Samsett mynd

Elenora Rós Georgsdóttir bakari kann svo sannarlega að heilla fylgjendur sínar með girnilegum kræsingum. Hún löngu orðin landsmönnum vel kunn fyrir hæfileika sína í bakstri og hefur líka heillað þjóðina með sinni einlægu og hlýju framkomu. Hún geislar ávallt við baksturinn og ástríða hennar fyrir því sem hún gerir leynir sér ekki. Á dögunum bakaði hún þessa dásamlegu súkkulaðiköku sem hún segir að minni hana á æskuminningarnar í eldhúsinu. Síðan er hún líka svo fallega skreytt.

Dýrðleg súkkulaðikaka.
Dýrðleg súkkulaðikaka. Ljósmynd/Elenora Rós Georgsdóttir

Silkimjúk, bragðgóð og djúsí

„Við munum flest ef ekki öll eftir því að hafa verið í æsku eldhúsinu okkar að baka súkkulaðiköku og sleikja sleifina og enda með munninn út ataðan af deigi og kremi. Þessi kaka minnir fullkomnlega á það. Sú allra besta fyrir öll tilefni, silkimjúk, bragðgóð, virkilega djúsí og síðast en ekki síst ótrúlega auðveld. Hún gjörsamlega bráðnar upp í manni. Leynihráefnið í allar mýkstu og bestu kökurnar er sýrður rjómi en besta hráefnið í öllum góðum súkkulaðikremum er gæða suðusúkkulaði en Freyju suðusúkkulaðið gerir einmitt allt betra að mér finnst. Þessi geymist mjúk vel og lengi og er fullkomin með ísköldu mjólkurglasi og tilvalin fyrir næsta afmæli, sunnudagskaffi eða jafnvel útileguna,“ segir Elenora Rós með bros á vör.

Þú verður hreinlega að prófa þessa, hún mun pottþétta gleðja matarhjarta þitt og sál.

View this post on Instagram

A post shared by Elenora Rós (@bakaranora)

Súkkulaðikakan hennar Elenoru Rós

  • 270 g hveiti
  • 400 g sykur
  • 100 g kakó
  • 10 g lyftiduft
  • 5 g matarsódi
  • 5 g salt
  • 300 g sýrður rjómi
  • 240 ml vatn
  • 120 ml olía
  • 2 stk. egg

Aðferð:

  1. Byrjið á að stilla ofninn á 170°C og undirbúa þrjú eins kökuform með því að smyrja hliðarnar og setja smjörpappír í botninn á forminu.
  2. Hrærið saman hveiti, kakó, salt, lyftiduft, sykur og matarsóda og setjið til hliðar.
  3. Í annarri skál er sýrðum rjóma, olíu, vatni og eggjum hrært saman.
  4. Blandið nú blautefnunum og þurrefnunum saman og hrærið þar til allt er komið vel saman.
  5. Skiptið deiginu jafnt milli formanna og bakið í u.þ.b 25-30 mínútur.
  6. Á meðan kökubotnarnir kólna er kremið búið til, sjá uppskrift fyrir neðan.

Krem

  • 400 g smjör við stofuhita
  • 120 g kakó
  • 450 g flórsykur
  • 2 msk. uppáhellt kaffi (kælt)
  • 200 g rjómi við stofuhita
  • 100 g Freyju suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Byrjið á að bræða súkkulaðið og setja til hliðar.
  2. Þeytið næst smjörið þar til það verður létt og ljóst.
  3. Bætið kakóinu saman við og þeytið áfram í 2-3 mínútur.
  4. Að lokum er flórsykrinum, súkkulaðinu, rjómanum og kaffinu bætt saman við og  þeytt áfram þar til þið eruð komin með létt og silkimjúkt krem.
  5. Smyrjið næst kreminu jafnt á milli allra botnanna og staflið kökunni saman.
  6. Að lokum er kakan skreytt fallega eins og ykkur langar að hafa hana.
  7. Elenora skreytti kökuna með kirsuberjum, jarðarberjum og rósablöðum.
  8. Njótið vel.
Langar þig ekki í sneið?
Langar þig ekki í sneið? Ljósmynd/Elenora Rós Georgsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert