Endurreisnarmálverk Eirnýjar töfraði gestina upp úr skónum

Eirný Ósk Sigurðardóttir ostadrottning Íslands töfraði fram glæsilegt ostahlaðborð þar …
Eirný Ósk Sigurðardóttir ostadrottning Íslands töfraði fram glæsilegt ostahlaðborð þar matarmálverkið Renaissance var fyrirmyndin. Samsett mynd

Eins og fram kom á Matarvefnum í gær bauð Guillaume Bazard sendiherra Frakklands, eiginkona hans og starfsfólk sendiráðsins tilefni af þjóðhátíðardegi Frakka, Bastilludagsins. Móttakan var haldin í Eddu, hús íslenskra fræða og boðið var upp á glæsilegar franskar guðaveigar og kræsingar.

Ostadrottningin með yfir 30 ára reynslu

Hið stórfenglega ostahlaðboð Eirnýjar Óskar Sigurðardóttur, ostadrottningu Íslands, töfraði gestina upp úr skónum. Eirný er ostasérfræðingur með yfir 30 ára reynslu. Hún hefur meðal annars skrifað í „The Oxford Concise Guide to Cheese“, sem er eitt ítarlegasta ostafræðirit sem hefur verið gefið út. Eirný hefur einnig unnið sem ostadómari bæði hér heima og erlendis. Eirný rak einnig ostabúðina Búrið í 10 ár, þar sem hún rak Ostaskóla um margra ára skeið svo fátt sé nefnt. Þessa dagana er hún iðin að standa fyrir viðburðum með Áslaugu Snorradóttur ljósmyndara og matarstílista sem hafa slegið í gegn.

Kræsingarnar fönguðu bæði augu og munn gesta. Ég fékk að njóta þess að bera þetta gullfallega ostahlaðborð augum og spjallaði við Eirnýju um tilurð þess og hvaðan hún fékk innblásturinn fyrir þessa dýrð.

Franska sendiráðið á Íslandi hafði samband við mig til að sjá um hluta veitinga fyrir móttöku franska sendiráðsins í tilefni Bastilludagsins, þjóðhátíðardag Frakka sem var þann 14. júlí síðastliðinn. Við svona hátíðlegt tækifæri þarf að blása í alla lúðra og mæta með læti,“ segir Eirný og þá hafi hún lagt höfuðið í bleyti og hugsað sig vel um hvað væri gaman að bjóða upp á.

Gullfalleg framsetning.
Gullfalleg framsetning. Ljósmynd/Sjöfn

Fyrirmyndin Renaissance matarmálverk

„Mig langaði til að setja upp gullfallegt borð sem minnti á Renaissance matarmálverk sem og ég gerði. Til þess að láta það verða að veruleika fékk ég hjálp frá keramik listamanninum Bjarna Sigurðssyni en hann er með dásamlega verslun við Skólavörðustíg 41. Það kom ekkert annað til greina en að hafa franska osta, baguette frá Sandholt bakarí en aðstandendur bakarísins styrktu viðburðinn og síðan var ýmislegt gæða meðlæti frá mér sem gladdi bragðlaukana. Það má því segja að fyrirmyndin að ostahlaðborðinu hafi verið matarmálverkið.“

Létt sýra í ávöxtunum virkar vel til að lyfta bragði …
Létt sýra í ávöxtunum virkar vel til að lyfta bragði af ostunum án þess að yfirgnæfa, og einnig er gott að hafa smá sýru þegar ostar eru mjög munnþekjandi. Ljósmynd/Sjöfn

Eirný bauð upp á fjölbreytt úrval osta og ekkert var til sparað þegar kom að því að velja ostana. „Reblochon, Chevre, Comte, Brie, Bleu des Causses og Beaufort D'Alpage voru á boðstólum og vakti ekki annað en hrifningu þar sem þetta kláraðist á augabragði. Brie og Chevre voru paraðir með ferskum apríkósum frá Frakklandi, kirsuberjum og plómum. L Reblochon, sem er bragðmikill rauðkíttisostur frá Haut-Savoie, hefur brögð sem minna á reykt kjöt, sveppi og hnetur. Því er yndislegt að para hann með góðu sinnepi, sýrum gúrkum og þurrverkuðum kjötvörum,“ segir Eirný.

Ein stjarna kvöldsins var Bleu des Causses

Bleu des Causses er franskur blámygluostur gerður úr hrámjólk. Hann er náinn ættingi Roquefort, og þessi glæsilegi ostur er framleiddur í hjarta Les Causses, svæði sem einkennist af hrjúfu kalksteinslandslagi. Notkun á fitu ríkri mjólk úr Laguiole-kúm gefur ostinum einstaklega mjúka áferð. Þetta er ostur með mikla sögu sem er frekar illa fáanlegur í dag. Árið 1949 fékk hann upprunavottun og vernd, en fyrir þann tíma var hann nefndur Bleu de L’Aveyron þar sem hann er framleiddur í Aveyron. Bleu des Causses þroskast í kalksteinshellum í 3 til 6 mánuði, sem hefur áhrif á bragð og þroskun ostsins sem einkennist af sætu, kryddi, pipar og bragði af villisveppum. Þótt að oftast vil ég bara fá ostinn minn einn og sér, þá paraði ég þennan yndislega gráðost með ferskum fíkjum, perum og pekanhnetum. Einnig hafði ég mallað „allt úr skápnum“ sultu kvöldið áður, sem innihélt þurrkaðar apríkósur, rúsínur og fíkjur ásamt ferskum perum og vínberjum, smá sykur og skvettu af rommi,“ segir Eirný dreymin á svip.

Tveir virðulegir ostahöfðingjar

„Að lokum voru tveir virðulegir ostahöfðingjar á borðinu. Ungur Comte, þroskaður í 4 mánuði, var grösugur, léttur og með dásamlega smjörkennda áferð, ávaxtabragðeinkenni og vott af heslihnetu. Svo vorum við heppin að vera með dásamlegan Beaufort Chalet d'Alpage á boðstólum. Beaufort er framleiddur í dölunum Beaufortain, Val d'Arly, Tarentaise og Maurienne í Savoie. Eingöngu má framleiða úr ógerilsneyddri mjólk frá Tarine eða Abondance kúm. Beaufort er framleiddur allt árið um kring, en að mínu mati eru bestu hjólin gerð úr sumarmjólk. Þessi sumarhjól, þekkt sem Beaufort Chalet d'Alpage, eru fáanleg einu sinni á ári þar sem þau eru framleidd í litlu magni, hvert af einum ostagerðarmanni. Þessi eftirsóttu hjól eru síðan þroskuð í 16-18 mánuði. Ostarnir eru allt frá 50 til 70 kg að stærð og þarf 11 lítra af mjólk fyrir hvert kíló. Beaufort d'Alpage bókstaflega bráðnar í munni og minnir á hey, bakaðar kartöflur, bökuðum lauk, brennt smjör og rjómakaramellu, en á sama tíma er vottur af nautasoði. Margslunginn dásemd sem sló í gegn,“ bætir Eirný við og er í skýjunum með hversu vel gestirnir nutu þess að bragða á þessum ostum.

„Það var virkilega gaman að sjá hversu vel var mætt en fullt var út úr dyrum, þetta voru bæði Frakkar og Íslendingar sem fjölmenntu á viðburðinn. Gestirnir fengu innsýn í heim franskra osta hjá mér og Stefán Elí hjá Vínekrunni bauð upp á kampavínssmökkun frá kampavínshúsinu Drappier sem er fullkomið til að para með ostum,“ segir Eirný að lokum.

Hægt er að fylgjast með Eirnýju á Instagram-síðunni hennar hér. Einnig heldur hún úti Instagram-síðunni Icelandpicnic með Áslaugu Snorradóttur þar sem hægt að fylgjast með ævintýralegum matarupplifunum þeirra svo fátt sé nefnt. 

Kræsingarnar fönguðu svo sannarlega augu og munn.
Kræsingarnar fönguðu svo sannarlega augu og munn. Ljósmynd/Sjöfn
Góður einn og sér eða með tómötum.
Góður einn og sér eða með tómötum. Ljósmynd/Sjöfn
Franskir ostar eru hreint sælgæti að njóta.
Franskir ostar eru hreint sælgæti að njóta. Ljósmynd/Sjöfn
Kampavín parast afar vel með ostum, það vita Frakkar.
Kampavín parast afar vel með ostum, það vita Frakkar. Ljósmynd/Sjöfn
Góður með fíkjum.
Góður með fíkjum. Ljósmynd/Sjöfn
Töfrar að njóta.
Töfrar að njóta. Ljósmynd/Sjöfn
Ljósmynd/Sjöfn
Ljúft kampavín.
Ljúft kampavín. Ljósmynd/Sjöfn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert