Hanna Thordarson keramiker og matgæðingur með meiru elskar fátt meira en að töfra fram girnilegar kræsingar. Ástríða hennar leynir sér ekki þegar hún er í eldhúsinu og þegar ítölsk matargerð er annars vegar blómstrar hún hreinlega í eldhúsinu. Hér er á ferðinni uppskrift að heimagerðu ravioli sem kemur bragðlaukunum á flug og er í raun skylda að prófa ef þú elskar ítalskan mat.
Eins og að vera staddur á litlum ítölskum veitingastað
„Eitt af því skemmtilegra sem ég geri er að búa til mismunandi útgáfur af fyllingum í heimatilbúið pasta. Það er hægt að gera mismunandi útgátur af ravioli en þessi er í uppáhaldi og er það tvennt sem stendur upp úr, annars vegar hversu skemmtileg vinnslan er og svo hins vegar hvað bragðlaukarnir hafa gaman af. Tilfinningin er smá eins og að vera staddur á góðum, litlum ítölskum veitingastað. Ég bý sjálf til pastað og ricottaostinn en það má líka alveg sleppa því og kaupa tilbúið en ef maður er í stuði þá er sáraeinfalt að búa til hvort tveggja.
Salvíusmjörið gerir mikið og sama má segja ef notað er aðeins af pestói. Rifni sítrónubörkurinn setur punktinn klárlega yfir i-ið. Rétturinn er bæði góður sem aðalréttur eða forréttur,“ segir Hanna sposk. Hanna heldur úti sinni eigin uppskriftasíðu hér þar sem er að finna fullt af girnilegum uppskriftum sem hreinlega kveðja í bragðlaukunum.
Ómótstæðilega girnilegt ravioli með spínatfyllingu.
Ljósmynd/Hanna Thordarson
Ravioli með spínatfyllingu að hætti Hönnu
- Rúmlega 200 g ferskt pasta. tvöföld uppskrift af heimagerðu pasta, sjá uppskrift hér
- 200 g hveiti
- 2 egg
- Aðeins af olíu
Aðferð:
- Pasta
- Hnoðið í 10 mínútur (sjá uppskrift hér)
- Látið jafna sig í 30 mínútur í kæli.
- Fletjið síðan út.
Fylling
- 60 g ferskt íslenskt spínat, tilkar teknir af
- 90 – 100 g ricotta
- 30 g parmesanostur
- 1 stk. eggjarauða
- Rifið múskat, má sleppa
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Takið stilkana af spínatinu og setjið blöðin í sjóðandi vatn, sjóðið í 30 sekúndur.
- Hellið vatninu hellt frá og kreistið blöðin til að ná öllum vökvanum úr, saxið smátt.
- Blandið öllu hráefninu saman í skál.
Ravioli
- Ef til er ravioliform leggið þá lengju af fersku pasta í formið og myndið holur til að koma fyllingunni fyrir.
- Setjið fylling í hverja holu (rétt rúmlega 1 tsk.).
- Leggið pastalengju ofan á og rennið kökukefli yfir til að móta bitana.
- Snúið forminu við og takið hvern bita úr.
- Ef ekki er til form leggið þá pastalengjuna á borð, gott að sigta aðeins af hveiti áður til að lengjan loði síður við borðið).
- Setið síðan tvær fyllingar hlið við hlið með góðu millibili (rétt rúmlega 1 tsk. af fyllingu) – leggið síðan pastalengju ofan á og þrýstið með fingrum á öllum hliðum til að loka svo að fyllingin haldist.
- Notið hníf (rúllujárn) til að skera ravioli niður.
- Þegar ravioli er tilbúið og geymt er gott að sigta smá hveiti yfir þannig að bitarnir loði síður við borðið/fatið.
- Ef ekki á að sjóða þá strax er gott að setja plastfilmu yfir en þá er bara að varast að plastið snerti ravioli-ið (gott að barmarnir á disknum séu hærri eins og t.d. á djúpri ofnskúffu).
- Hitið vatn að suðu og hafið það saltað.
- Setjið ravioli ofan í sjóðandi vatnið og sjóðið í 4 mínútur.
Fyrir samsetningu og framreiðslu
- Góð olía
- Aðeins af pestói eins og klettasalatspestó eða prima pestó
- Brennd salvía og smjör
- Lífræn sítróna, börkur rifinn fínt
- Salt og piparkorn eftir smekk
- Parmesanostur, rifinn
Samsetning og framreiðsla
Brennd salvía og smjör
- Setjið smjör á litla pönnu eða í pott og bræðið á frekar háum hita.
- Bætið laufi af ferskri salvíu við.
- Þegar smjörið er bráðnað á að krauma í því og það myndast hálfgerðir kristallar á yfirborðinu og síðan froða.
- Á þeim tímapunkti fer að myndast litur í botninum og salvían dökknar þá takið þið pönnuna/pottinn af hellunni.
- Setjið síðan pestó á disk og nokkur blöð af klettasalati eða öðru fallega grænu.
- Leggið ravioli ofan á og setjið brennda salvíu ofan á hér og þar.
- Rifið sítrónubörk yfir ásamt parmesanosti og nokkrum saltflögum eftir smekk.