Gabríel býður í veislu á Spáni

Gabríel Kristinn Bjarnason landsliðskokkur bauð til veislu á Spáni og …
Gabríel Kristinn Bjarnason landsliðskokkur bauð til veislu á Spáni og galdraði fram þennan dýrðlega forrétt - Smálúðu-Crudo. Samsett mynd

Gabrí­el Krist­inn Bjarna­son mat­reiðslumaður og landsliðskokk­ur hefur farið á kostum í sumarfríinu sínu á Spáni þar sem hann hefur verið að töfra fram syndsamlega ljúffenga rétti sem er mjög einfalt að útbúa að hans sögn. Ástríðan hans er einmitt að einfalda matargerðina og sýna fólki að hægt er að halda matarveislu án þess að það sé of flókið.

Á dögunum bauð hann fjölskyldu og vinum í matarveislu í fríinu á Spáni og galdraði fram þennan ómótstæðilega góða forrétt sem á sér fáa líka, smálúðu-crudo með ljúffengri dressingu.

Vinsæll forréttur

„Þetta er með einfaldari réttum sem hægt er að útbúa fyrir fjölskyldu eða vini í fríinu. „Crudo“ þýðir hrátt á ítölsku og er vinsæll forréttur sem er oftast borðaður á sumrin í sólinni með góðu hvítvíni og samanstendur af ferskasta fiskinum sem völ er á  að hverju sinni og árstíðabundnu hráefni og oftast borinn fram með góðri ólífuolíu,“ segir Gabríel sem hefur svo sannarlega notið þess að bjóða upp á ljúffenga rétti í sumarfríinu.

„Ég ákvað að nota það ferskasta sem ég fann á markaðinum hér á Spáni sem var nýveidd smálúða og kirsuber.“

Sjáið hvernig Gabríel fer að.

Smálúðu-Crudo

  • Smálúðuflök
  • Crudo-dressing, sjá uppskrift fyrir neðan
  • Kirsuber
  • Fersk steinselja
  • Ferskt timian

Smálúðan

  • 4 stk. lúðuflök
  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hreinsa og roðfletta lúðuna.
  2. Skerið lúðuna síðan í þunna „shasimi“ bita eins og er á nigiri sushi og raðið á fallegan disk sem á vel við tilefnið.
  3. Kryddið til með salti og sett inn í kæli á meðan dressingin og meðlæti er undirbúið.

Crudo-dressing

  • 3 msk. góð extra virgin ólífuolía
  • 1 msk. sesamolía
  • 2 msk. sojasósa
  • 1 tsk. sykur
  • 1 msk. hrísgrjónaedik eða hvítvínsedik
  • 1 msk. smátt saxaður skalotlaukur
  • 1 tsk. hvítlaukur smátt saxaður
  • 1 msk. smátt söxuð fersk steinselja
  • Safi úr límónu eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að saxa grænmetið og setja til hliðar.
  2. Takið næst til skál og setjið olíurnar, sojasósuna og edikið saman í skálina ásamt sykrinum.
  3. Leyfið síðan sykrinum að leysast upp áður en grænmetinu er bætt við.
  4. Kreistið síðan smá safa úr límónu í dressinguna.
  5. Þegar þetta er allt komið saman er dressingin tilbúin.
  6. Dreifið síðan dressingunni jafnt yfiir smálúðubitana á disknum.

Ferskt meðlæti á toppinn

  • Fersk kirsuber
  • Ferskir steinselju toppar
  • Ferskt timian

Aðferð:

  1. Skerið kirsuberin í fjórðunga og setjið ofan á hvern lúðubita, svo allir fái kirsuber í hverjum bita.
  2. Skreytið síðan með steinseljutoppum og fersku timian.
  3. Berið fram með góðu hvítvíni ef vill og njótið í góðum félagsskap.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert