Guð minn góður, hvað er að gerast uppi í mér?

Hverarúgbrauðið á Laugarvatni Fontana nýtur miklla vinsælda og Sigurður Rafn …
Hverarúgbrauðið á Laugarvatni Fontana nýtur miklla vinsælda og Sigurður Rafn Hilmarsson hefur bakað ófá rúgbrauðin undir kraumandi hveravatninu. Samsett mynd

Á Laugarvatni Fontana er hægt að fá eitt besta hverarúgbrauð sem undirrituð hefur smakkað og aðferðinni við baksturinn og bragðið eru hreinir töfrar. Brauðið er bakað ofan í heitum náttúruhver sem er tær auðlind. Svo eru það náttúruböðin og náttúrulega gufubaðið sem heillar ásamt náttúrufegurðinni sem þarna er að finna.

Best þykir hverarúgbrauðið með smjöri og reyktri bleikju.
Best þykir hverarúgbrauðið með smjöri og reyktri bleikju. Ljósmynd/Fontana

Ég ákvað einn góðviðrisdag að gera mér ferð yfir Lyngdalsheiðina úr höfuðborginni og heimsækja Laugarvatn Fontana en þetta er einstakur staður til að stoppa við þegar þið eruð á ferðalagið um Suðurland. Laugarvatn Fontana býður upp á dásamlega upplifun í náttúruböðum og hina einstöku upplifun að fara í gufu sem er beint yfir náttúrulegum gufuhverum. Svo er það hverarúgbrauðið sem laðar líka að, en ég veit fátt betra en að fá góðar veitingar þegar ég er á ferðinni um landið og kynnast sérstöðu heimamanna á hverjum stað.

Ég heimsótti Sigurð Rafn Hilmarsson matreiðslumeistara en hann hefur starfað sem lengst af sem slíkur bæði hér heima og erlendis. Hann rekur heilsulindina Laugarvatn Fontana og er uppalinn á Laugarvatni. Hann er giftur Áslaugu Jónsdóttur og eiga þau saman þrjú börn og hafa þau fylgst að í verkefnunum sem hann hefur tekið að sér. Hann hefur hlúð að þessu svæði á Laugarvatni um árabil og hefur sterkar tilfinningar til þess.

Heyrist oft í hvernum þegar hann kraumar undir gestunum

Segðu okkur aðeins frá heilsulindinni og og sögunni bak við hverana, hvernig varð Fontana að raunveruleika?

„Laugarvatn Fontana var opnað í júní árið 2011. Baðstaðurinn er byggður á gömlum grunni en hér var um árabil rekið gufubað. Ég starfaði oft í gömlu gufunni þegar hún var rekinn af Lionsklúbbnum hér í Laugardal. Sérstaðan við þetta gufubað er sú að húsið er reist ofan á hvernum og einu hitastýringarnar eru hurðin og glugginn, við getum ýmist haft alveg lokað eða opið með smá rifum til að tempra hitann. Hitinn og gufan kemur beint upp úr gólfinu og oft heyrist vel í hvernum þar sem hann kraumar undir gestunum. Við erum einnig með 4 baðlaugar, 1 sánuklefi og svo er afar vinsælt að fara og kæla sig í Laugarvatni,“ segir Sigurður og bætir við að það njóti mikilla vinsælda meðal gesta að geta farið út í vatnið.

Sigurður ákvað að bjóða baðgestum upp á hverabrauð í veitingasölunni og síðan að bjóða upp á leiðsögn í bakstri. Gefa fólki innsýn í hvernig hverabrauðið verður til.

Segðu okkur aðeins frá tilurð þess að þið ákváðu að bjóða upp á leiðsögn í bakstri á Hverabrauðið á Fontana ?

„Við hjónin rákum hér um árabil Hótel Eddu í menntaskólanum. Þar buðum við stundum upp á svona ferðir og var reynslan af þeim mjög jákvæð og alveg ljóst að gestunum þótti þetta mjög merkilegt. Við prófuðum síðan að gera þetta hér líka og þannig bara fór þetta af stað. Það er löng hefð fyrir því hér í Laugardal að baka í hvernum og hefur þessi hefð gengið milli kynslóða hér um árabil.

Brauðið bakað í sjóðandi holum við Stóra hverinn

Hverirnir eru mikil auðlind fyrir svæðið og eru sögulegir. „Það eru þrír hverir hér á svæðinu sem við tölum mest um. Fyrst ber nefna þann sögulegasta  sem er Vígðalaugin, síðan er það hverinn yfir baðstaðnum og að lokum líklega sá mikilvægasti eða Stóri hverinn eins og við köllum hann oftast en hann er notaður til upphitunar á húsum í þorpinu, sveitabæjum í nærumhverfinu, sumarhúsum, sundlauginni, gangstéttum svo eitthvað sé nefnt. Á nokkrum stöðum við stóra hverinn þar sem síðan eru sjóðandi holur þar sem við erum að baka brauðið.“

Hvernig er hverarúgbrauðið bakað og hvað tekur langan tíma að baka hverabrauð?

„Við skellum í skál, rúgmjöli, hveiti, sykri, mjólk, salti og lyftidufti og hrærum vel. Blandan fer síðan í stálpott sem við lokum með plastfilmu til þess að hveravatnið rati nú ekki ofan í pottinn. Síðan gröfum um það bil eitt fet niður í sandinn þar sem allt kraumar undir og komum pottinum fyrir þar. Þá er bara eftir að moka vel yfir yfir pottinn, merkja sandhólinn sem myndast með grjóti eða einhverju og bíða í 24 klukkustundir eða þar til brauðið er full bakað.“

Hráefnið sem þarf í baksturinn á hverarúgbrauðinu.
Hráefnið sem þarf í baksturinn á hverarúgbrauðinu. Ljósmynd/Fontana

Algjört sælgæti fyrir unga sem aldna

Er þetta brauð ekki miklu betra heldur en venjulegt rúgbrauð?

„Ég verð nú bara að segja það jú, beint úr hvernum með reyktri bleikju og smjöri, þá er þetta einfaldlega algjört sælgæti, fyrir unga sem aldna.“

Hverjir eru töfrarnir í bragðinu og áferð?

„Ég er nú töluvert búinn að spá í það, því það eru engin krydd eða aðrir einkennandi bragðgjafar í þessum klassísku íslensku rúgbrauðum. Það er því fyrst og fremst rúgmjölið og sykurinn sem gefa þetta dásamlega bragð sem verður til á þessum langa tíma í hveraholunni.“

Brauðin eru ófá sem Sigurður hefur bakað.
Brauðin eru ófá sem Sigurður hefur bakað. Ljósmynd/Fontana

Hvað er að gerast uppi í mér?

Er mikil aðsókn í baksturinn hjá ykkur?

„Þetta er mjög vinsælt. Að koma og upplifa þetta með eigin augum og ég verð að segja það, að það er alltaf jafn gaman að sýna fólki þetta og segja frá þessu. Fólki finnst almennt alveg magnað að það sé hægt að grafa holu og baka í henni brauð. Gaman líka að sjá hvað fólki finnst þetta gott. Hér kom einu sinni Bandaríkjamaður og fékk nýbakað rúgbrauð með maríneraðri síld. Hann fékk sér bita, ranghvolfdi augunum og hrópaði síðan „Guð minn góður, hvað er að gerast uppi í mér, þetta er algjör snilld.“ Þá hafði hann aldrei smakkað á síld áður og var vissulega að fá þetta rúgbrauð í fyrsta skipti líka,“ segir Sigurður og bættir við að þetta séu einmitt augnablikin sem gefa svo mikið að upplifa.

Bjóðið þið upp á hverarúgbrauð í veitingasölunni í Fontana?

„Já, við bjóðum alltaf upp á hverarúgbrauð með reyktri bleikju og eggi,“ segir Sigurður að lokum.

Undirrituð getur tekið undir hvert orð Sigurðar, upplifunin að sjá hverarúgbrauðið verða að veruleika, fá að bragða það ylvolgt með villtri bleikju og eggjum er himnesk matarupplifun sem þú gleymir aldrei. Ég get vel mælt með heimsókn í Fontana að njóta allra þeirra lystisemda sem þar er að finna, hvort sem það er að fara í náttúruböðin, gufuna og hlusta á hverinn krauma undir þér, dýfa tánni ofan í vatnið og enda förin á smakki á hverarúgbrauði toppar upplifunina.

Sigurður hellir deiginu yfir í pottinn.
Sigurður hellir deiginu yfir í pottinn. Ljósmynd/Fontana
Þegar búið er að blanda öllu hráefninu saman í stálpott …
Þegar búið er að blanda öllu hráefninu saman í stálpott með höldum er potturinn tilbúinn til að fara ofan í holu þar sem brauðið mun bakast eftir að búið verður að verja deigið með plastfilmu. Ljósmynd/Fontana
Potturinn grafinn niður.
Potturinn grafinn niður. Ljósmynd/Fontana
Svæðið merkt með steinum, hólar með steinum.
Svæðið merkt með steinum, hólar með steinum. Ljósmynd/Fontana
Hverarúgbrauðið tilbúið.
Hverarúgbrauðið tilbúið. Ljósmynd/Fontana
Brauðið rennur úr pottinum.
Brauðið rennur úr pottinum. Ljósmynd/Fontana
Hverarúgbrauðið sneidd, smurt með smjöri og reykt bleikja sett ofan …
Hverarúgbrauðið sneidd, smurt með smjöri og reykt bleikja sett ofan á. Ljósmynd/Fontana
Syndsamlega gott.
Syndsamlega gott. Ljósmynd/Fontana
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert