Stærsti matarviðburður á Íslandi hefst í dag klukkan 17:00 í Hljómskálagarðinum í hjarta borgarinnar og stendur fram á sunnudag. Mikið verður um dýrðir og keppt verður um titilinn Besti götubiti Íslands 2024. Alls verða um 30 matarvagnar sem taka þátt og bjóða upp á fjölbreytt úrval af kræsingum. Hljómskálagarðurinn mun því lokka að sér matgæðinga sem munu renna á ilminn.
Meðal þeirra sem taka þátt ár eru frændurnir Haukur Már Hauksson, bestur þekktur sem Haukur Chef eða Haukur á Yuzu, og Sigurður Haraldsson kjötiðnaðarmaður, betur þekktur sem pylsumeistarinn. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir pylsurnar sínar og á og rekur kjötiðnaðarverslunina Pylsumeistarinn. Sigurður er bróðir afa Hauks og ljóst að mataráhuginn er víða í fjölskyldunni. Haukur kallar frænda sinn alla jafna Didda og hlakkar mikið til að vera með pylsurnar hans á Götubitahátíðinni.
Segið okkur aðeins frá þátttöku ykkar í Götubitahátíðinni er þetta í fyrsta skiptið sem þið eruð með?
„Þetta er okkar fyrsta Pop-up og verður í tjaldi, tjaldið heitir einfaldlega Pylsumeistarinn. Mig hefur lengi langað að vinna með Didda frænda, pylsumeistaranum sjálfum. En ég man eftir honum vinnandi í kjötvinnslunni sinni frá því að ég var lítill strákur og hef alltaf litið mikið upp til hans,“ segir Haukur.
„Síðastliðinn vetur sagði hann mér að hann langaði að taka þátt í Götubitahátíðinni, en það væri ávallt svo ótrúlega mikið að gera hjá honum að hann hefði hreinlega ekki tíma til að taka þátt. Enda vinnur hann alla daga í kjötvinnslunni og fer svo yfir í búðina að selja sínar frábæru vörur. Ég hugsaði að þarna værir frábært tækifæri fyrir mig til að fá loksins að vinna með honum og sagði honum að ég myndi bara sjá um þetta, ef hann græjaði pylsurnar. Ég er matreiðslumaður sem selur hamborgara svo ég hlýt að geta græjað pylsur líka,“ segir Haukur sposkur.
Hvar geta þeir sem langar að smakka þessar frægu pylsur fundið ykkur?
„Grilluðu tilbúnu pylsurnar verður bara hægt að fá á Götubitahátíðinni í Hljómskálagarðinum en pylsurnar er alltaf hægt að fá hjá Pylsumeistaranum við Laugalæk þar sem Diddi frændi er með verslunina sína og í nokkrum vel völdum verslunum.“
Segðu okkur aðeins frá sérstöðunni, í pylsunum og meðlætinu sem þið munu bjóða upp á?
„Við verðum sem sagt með þrjár týpur af grilluðum pylsum, þetta eru þrjár vinsælustu pylsur Pylsumeistarans, Steikarpylsa, Ostapylsa og sú vinsælasta er pylsa með chilli, papaya og ananas. Svo ætla ég að útbúa kartöflusalat og það verður dijon sinnep til hliðar á disknum. Hægt verður að versla eina, tvær eða þrjár pylsur. En þetta er ekki þessi týpiska pylsa í brauði, það verður ekkert brauð, en það verður diskur,“ segir Haukur.
Átt þú heiðurinn af uppskriftinni að pylsunum og samsetningunni?
„Pylsumeistarinn á allan heiðurinn af pylsunum og svo fæ ég að blanda í kartöflusalatið, Dijon sinnepið kemur beint frá Frakklandi.“
Njóta pylsurnar hjá Pylsumeistaranum ávallt jafnmikilla vinsælda?
„Pylsurnar hafa slegið í gegn og verið vinsælar í mörg ár, enda hágæða vara. En markmið Pylsumeistarans er að framleiða gæðavörur sem eru lausar við öll óþörf auka- og íblöndunarefni og innihalda eingöngu íslenskt kjöt, krydd og salt,“ segir Haukur og bætir við að hann hlakka til að taka móti öllum um helgina sem langar að fá sér smakk á hágæða og alvöru pylsum úr smiðju frænda síns.