Ljúffengar skonsur í lautarferðina

Skonsurnar eru fullkomnar með heimagerðri jarðarberjasultu og þeyttum rjóma. Heilla …
Skonsurnar eru fullkomnar með heimagerðri jarðarberjasultu og þeyttum rjóma. Heilla bæði augu og munn. Ljósmynd/Bent Marinósson

Anna Marín Bentsdóttir er 21 árs gömul og hefur bakað frá því að hún man eftir sér. Hún er mikill ástríðubakari og sér um nýja kaffihúsið hjá Kokku á Laugaveginum. Hún elskar að útbúa og bjóða í fallegan sumardögurð á sólardögum og finnst líka afar gaman að baka kræsingar til að taka með í lautarferð.

Hún bakaði þessar ljúffengu skonsur og gerði jarðarberjasultu fyrir fjölskylduna sína á dögunum. Skonsurnar slógu í gegn og allir viðstaddir voru fljótir að leggja inn pöntun fyrir næsta boð og pöntuðu líka bongóblíðu svo hægt væri að halda garðveislu eða hreinlega fara í huggulega lautarferð.

Anna Marín Bentsdóttir hefur bakað frá því hún man eftir …
Anna Marín Bentsdóttir hefur bakað frá því hún man eftir sér. Hún elskar að töfra fram ljúffengan og fallegan dögurð fyrir fjölskylduna. Ljósmynd/Bent Marinósson

„Þessar ljúffengu skonsur eru með smá sítrus og mér fannst tilvalið að bera þær fram með jarðarberjasultu. Þær lukkuðust ekkert smá vel og allir voru í skýjunum með kræsingarnar. Ég ætla að nýta hvert tækifæri þegar sólin skín og ég á frí til að bjóða í lautarferð, þó að það verði bara í garðinum heima,“ segir Anna Marín með bros á vör.
Aðspurð segir Anna Marín að best sé að bera skonsurnar fram volgar úr ofninum með heimagerðu jarðarberjasultunni og nýþeyttum rjóma. Hins vegar sé líka í góðu lagi að taka þær með í nesti fyrir lautarferð og njóta. Þá er líka hægt að njóta þeirra með þeyttu smjöri og lemon curd fyrir þá sem vilja.

Girnilegar hjá Önnu Marín og skemmtileg framsetning.
Girnilegar hjá Önnu Marín og skemmtileg framsetning. Ljósmynd/Bent Marinósson

Ljúffengar skonsur með smá sítrus og heimagerðri jarðarberjasultu

Skonsur

  • 420 g hveiti
  • 1 kúpt msk. lyftiduft
  • 1 tsk. salt
  • 1-2 msk. sykur
  • Börkur af ½ appelsínu
  • 100 g kalt smjör (skorið í bita)
  • 220 g súrmjólk
  • 1 egg
  • Smá mjólk til að pensla með
  • Smá hrásykur til að strá yfir

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 200°C.
  2. Finnið til miðlungsstóra skál og setjið sykur og appelsínubörkinn í skálina.
  3. Nuddið saman þar til sykurinn hefur tekið smá appelsínugulan lit og leggið til hliðar.
  4. Setjið hveiti, lyftiduft, smjör og salt í matvinnsluvél. Kveikið á vélinni og brytjið smjörið í minni bita þar til að blandan líkist sandi, með nokkrum aðeins stærri bitum af smjöri.
  5. Það er líka hægt að gera þetta með höndunum og nudda smjörinu við hveitið ef vill.
  6. Bætið síðan hveiti/smjörblöndunni saman við sykurblönduna og blandið vel saman.
  7. Hellið síðan súrmjólkinni út í og bætið egginu saman við og hrærið svo með sleikju þar til að allt kemur nokkurn veginn saman, passið samt að hræra ekki of mikið.
  8. Setjið deigið út á borð og hnoðið allt varlega saman í stóra sjúskaða kúlu.
  9. Fletjið út í u.þ.b. 3 cm þykkt deig og stimplið út skonsur með 6-8 cm hringlaga formi.
  10. Raðið á bökunarplötu og penslið með mjólk og stráið smá hrásykri ofan á.
  11. Bakið við 210°C í 12 mínútur.

Jarðarberjasulta

  • 600 g jarðarber (fersk eða frosin)
  • 200 g sykur
  • Safi úr ½ -1 sítrónu

Aðferð:

  1. Ef það eru notuð fersk jarðarber í sultuna þá er gott að skera þau í minni bita.
  2. Setjið annars allt saman í miðlungsstóran pott og hitið saman við miðlungshita.
  3. Hrærið allt vel saman og vaktið pottinn vel, um leið og sykurinn hefur bráðnað hrærið þá stöðugt í blöndunni og látið koma upp smá suðu.
  4. Látið allt malla á vægum hita í u.þ.b. 10 mínútur.
  5. Hrærið stöðugt.
  6. Þegar blandan er orðin aðeins þykkari er gott að taka smá af sultunni með kaldri skeið eða setja á kaldan disk og láta standa í smástund til að sjá áferðina á sultunni þegar hún kólnar.
  7. Þá sjáið þið hvort það þarf að elda hana lengur til að gera hana þykkari eður ei.
  8. Þegar blandan er orðin eins þykk og þið viljið hafa hana er gott að færa hana yfir í annað ílát sem þolir hita og leyfa að kólna við stofuhita, geymið síðan inni í ísskáp þar til skonsurnar verða bornar fram.
  9. Hægt er að gera sultuna fyrir fram og eiga hana til í ísskápnum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert