Birgir með BBQ og Buffalo kjúklingavængi á Götubitahátíðinni

Birgir Rúnar og matarvagninn hans Wingman þar sem boðið verður …
Birgir Rúnar og matarvagninn hans Wingman þar sem boðið verður upp á ómóstæðilega góða og sterka kjúklingavængi sem rífa í. mbl.is/Arnþór Birkisson

Um helgina fer fram stærsti mat­ar­viðburður á Íslandi en hann hófst í gær, föstudag í Hljóm­skálag­arðinum í hjarta borg­ar­inn­ar og stend­ur fram á sunnu­dag. Mikið er um dýrðir og keppt verður um titil­inn Besti götu­biti Íslands 2024. Alls eru um 30 mat­ar­vagn­ar sem taka þátt og bjóða upp á fjöl­breytt úr­val af kræs­ing­um og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Birgir Rúnar er með matarvagninn The Wingman er þekktur fyrir að bjóða upp á syndsamlega góða kjúklingavængi sem bragð er af. Þetta eru annars vegar BBQ vængir og hins vegar Buffalo vængir sem bornir eru fram með annaðhvort hvítlauks- eða gráðostasósu. Birgir er búinn að eiga og reka Wingman í sjö ár.

Birgir lærði Viðskiptafræði í HR eftir menntaskóla. „Með og eftir skóla vann ég á Hamborgarafabrikku Íslands og sem dyravörður í miðbæ Reykjavíkur. Í dag vinn ég hjá Öryggismiðstöð Íslands og ennþá sem dyravörður niðri í bæ, þess á milli flakka ég á milli einkaviðburða og stórhátíða með The Wingman og geri góða viðburði enn betri,“ segir Birgir og brosir.

Hjólhýsið fyrsta vanhugsaða ákvörðunin

Hver er sagan bak tilurð matarvagnarins The Wingman?

„Sagan hófst þegar við fjórir félagar úr HR vorum með allskonar hugmyndir og  ákvarðanatöku sem voru misgóðar. Sem maður lærir af og gerir betur næst. Fyrst var keypt hjólhýsi sem átti að innrétta sem matarvagn, það kom fljótt í ljós að það var fyrsta vanhugsaða ákvörðunin. Eftir að hafa gefist upp á hjólhýsinu var pantaður vagn frá Kína. Sá vagn var notaður í sirkað þrjú ár sem síðan var seldur  og bíll keyptur. Bíllinn var tómur og þannig að hægt að hanna út frá því hvernig þægilegast væri að vinna í honum og hafa skipulagið gott. Málin hafa þróast yfir í það ég er einni eigandinn í dag og hentar mér ágætlega,“ segir Birgir.

Hversu lengi hefur þú átt vagninn?

„Þetta hófst allt árið 2016 en lúgan opnaði árið 2017 á Secret Solstice. Þá rukku vængirnir út eins og heitar lummur og þá vissi ég að þetta var eitthvað sem hitti í mark. Á matseðlinum eru kjúklingavængir, bæði Buffalo og BBQ, með frönskum til hliðar. Hvítlauks- eða gráðostasósa fylgir með til að dýfa vængjunum í. Einnig eru brokkolís- og blómkálsbollur í boði fyrir þá sem vilja.“

Vængjamenning á Íslandi hefur aukist gríðarlega

Átt þú heiðurinn af uppskriftinni að þessum dressingu sem vængirnir eru maríneraðir og steiktir í?

„Það er ekki verið að flækja uppskriftina en hún er með örfáum innihaldsefnum og hefur virkað hingað til og hef ég allavegana ekki enn fengið leið.“

Njóta vængirnir mikilla vinsælda?

Til að byrja með þá var ekki mikil vængjamenning á Íslandi en hún hefur aukist gríðarlega seinustu ár og hafa framleiðendur ekki undan að selja vængi, svarið er því já.“

The Wingman fer víða og það eru ófáar hátíðirnar sem Birgir mættir á svæðið og býður svöngum hátíðargestum upp á kjúklingavængi sem koma bragðlaukunum á flug. Ef The Wingman er staddur á einhverri hátíð eða viðburði þá er það tilkynnt á Instagram-síðunni hér eða Facebook.

Það skemmtilega við matarvagna er að þeir eru færanlegir og geta farið hvert á land sem er og The Wingman er til að mynda hægt að leigja í veislur eða hvað eina sem fólki dettur hug. „Eins og máltækið segir: „Matur er mannsins megin“ og þegar viðburðir eða veislur eru annars vegar er gott að geta boðið upp á góðar kræsingar,“ segir Birgir að lokum þakklátur fyrir áhugann á þessu litla ævintýri sem The Wingman hefur verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert