Lárus og Andri sjá saman um helgarbaksturinn

Feðgarnir Andri Jón og Lárus Sigurður Lárusson bjóða upp á …
Feðgarnir Andri Jón og Lárus Sigurður Lárusson bjóða upp á helgarbaksturinn að þessu sinni, dýrindis Banana- og karamelluböku frá Boston. mbl.is/Eyþór

Lárus Sigurður Lárusson, Sævar Þór Jónsson og Andri Jón sjá um helgarbaksturinn að þessu sinni sem er fastur liður á Matarvefnum og nýtur mikilla vinsælda. Fjölskyldan býður lesendum upp á ómótstæðilega ljúffenga böku með bönunum og karamellu sem bráðnar í munni sem enginn á eftir að verða svikinn af. Það má samt segja að Lárus og Andri hafi séð saman um baksturinn en Sævar hafi séð um smakkið.

Gullfalleg baka hjá þeim feðgum og fagurlega skreytt.
Gullfalleg baka hjá þeim feðgum og fagurlega skreytt. mbl.is/Eyþór

Eldhúsið á sér sterkan sess í lífi fjölskyldunnar

Lárus, Sævar Þór og sonur þeirra Andri Jón, búa á Langholtsvegi 97 í húsi sem hefur verið tengt fjölskyldu Sævars í yfir 50 ár. Hjónin reka lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners en Sævar er hæstaréttarlögmaður. Hjónin hafa verið áberandi undanfarið í störfum sínum sem lögmenn og í stjórnum en Lárus er fyrrverandi stjórnarformaður Menntasjóðs námsmanna. Hjónin hafa ástríðu fyrir mörgum hlutum en það er augljóst að heimilið er þeirra griðastaður. „Eldhúsið er einn af þeim stöðum sem á sér sterkan sess í lífi fjölskyldunnar en eldhúsið er á jarðhæð hússins í breskum og frönskum stíl en það tíðkast í eldri, virðulegum húsum líkt og í Bretlandi að eldhúsin séu neðri hæð húsanna. En í þessu húsi gefur það eldhúsinu ákveðinn sjarma því það er útgengt út um tvöfalda glerhurð út í blómlegan og fallegan garð sem hægt er að nota í góðviðrisdögum,“ segir Lárus. Hjónin hafa unað á eldamennsku og þá sérstaklega Lárus sem segir það vera sína hugleiðslu. „Það hefur einnig smitast yfir á son okkar sem hefur gaman af því að baka,“ segir Lárus.

Þegar ég heimsótti þá feðga voru þeir að baka sumarlega böku sem átti að færa á skrifstofu þeirra feðga daginn eftir og deildu þeir uppskriftinni með mér handa lesendum fyrir helgarbaksturinn.

Eru ekki mikil forréttindi að vera með eldhús sem er með útgengni beint út í garð?

„Svo sannarlega og er óspart notað. Það er hægt er eitthvað sem Sævar gerir mikið af, hann byrjar alla morgna á að lesa og fer stundum berfættur út í grasið með kaffið og stundar hugleiðslu, þetta er gamall, rótgróinn garður sem Sævar hefur nostrað við í gegnum árin og þar er að finna plöntur sem hafa verið gróðursettar af kynslóðum þeim sem hafa búið í húsinu. Sævar notar garðinn mjög mikið. Ég elska að geta horft á fuglalífið fyrir framan eldhúsið en hinir ýmsu gestir af skordýra-, fugla- og spendýraætt koma í heimsókn við eldhúsið,“ segir Lárus leyndardómsfullur á svipinn.

Sævar segir að það að geta átt stað í borg og þá sérstaklega á heimili sínu þar sem maður er umlukinn rótgrónum gróðri og trjám séu ekki sjálfsögð forréttindi, það að eiga augnablik í slíkum umhverfi er dýrmæt stund. „Ég viðurkenni að það er mikið álagsstarf að vera lögmaður og ég hef þurft að takast á við miklar áskoranir síðastliðið ár. Það hefur hjálpað mér mikið að eiga góðan griðastað á heimilinu,“ segir Sævar og undir það tekur Lárus.

Fjölskyldan saman að njóta úti í náttúrunni.
Fjölskyldan saman að njóta úti í náttúrunni. Ljósmynd/Lárus Sigurður

Eins konar jóga fyrir mig

Hafið þið mikla ástríðu fyrir matargerð og bakstri og vera saman í eldhúsinu?

„Ég hef lengi haft gaman af matargerð og aðallega fyrir það að prófa nýja hluti og sjá hversu mikið er hægt að gera úr mat og uppskriftum. Það er eins konar jóga fyrir mig að hlusta á klassíska tónlist og gleyma mér í matargerð. Sævar er fyrir einfaldari hluti en hann er mikið í líkamsrækt og sonur okkar Andri hefur smitast af því líka þannig kröfur þeirra er próteinrík og einföld fæða, en það er líka hægt að gera svo margt hollt og gott þó hráefnið sé einfalt. Sævar er meira fyrir að hita upp matinn en getur þó gert margt í eldhúsinu neyðist hann til þess,“ segir Lárus og hlær. Sævar tekur undir þetta og  segir að hann geti ekki toppað Lárus þegar kemur að eldamennskunni.

Feðgar saman í ræktinni.
Feðgar saman í ræktinni. Ljósmynd/Sævar Þór

„Að elda saman eða baka sem fjölskylda er góð leið til að tengjast og fara yfir mál sem þarf að ræða, hlusta á tónlist og skemmta sér, oft skiptumst við á að velja tónlist eða lög en oft dettum við í Eurovision gír og þá eru rifjuð upp lög síðustu ára. Í þessum hraða nútíma og tíma síma og spjaldtölva er gott að geta gert eitthvað með höndunum eins og að elda og baka, það þarf enginn að vera góður í að baka eða elda, það er hægt að finna hverjum og einum eitthvað hlutverk en aðalatriðið er að vera allir saman,“ segir Lárus einlægur.

Saman finnst þeim allra best að vera.
Saman finnst þeim allra best að vera. Ljósmynd/Sævar Þór

Einn og einn lax endar á grillinu

Breytist matargerðin og baksturinn yfir sumartímann?

Í reynd breytist hún ekki það mikið en auðvitað er grillað meira á sumrin. Við erum líka mikið í laxveiði en það eru okkar sameiginlega ástríða og þá endar einn og einn lax á grillinu. Það eru mikil forréttindi að hafa aðgang að lúxus eins og ferskum Atlantshafslaxi. Það sem endar ekki á grillinu er svo reykt fyrir veturinn,“ segir Lárus.

Aðspurður segir Lárus baksturinn taki meira mið af árstíðum, sérstaklega hvað jól og aðventu varðar. „Þá er alltaf bakað miklu meira en venjulega. Ég gerir til að mynda alltaf Panna cotta í eftirrétt á aðfangadag og svo „Boston Banoffee Pie “á jóladag. Svo er oftast prufað eitthvað nýtt í eftirrétt á gamlárskvöld, en síðast var það „Creme caramel“. Svo er auðvitað smákökubakstur á aðventunni.“

Hvað finnst ykkur skemmtilegasta baka?

„Andri fékk bókina Börnin baka í jólagjöf fyrir nokkrum árum og við höfum baka mikið saman upp úr henni. Annars finnst Andra gaman að gera marenstoppa og þá getur hann valið alls konar nammi til að setja í þá. Oreotoppar eru mjög vinsælir og þeir eru alltaf bakaðir um jólin ásamt fleiri smákökum. Ég er ávallt spenntur fyrir því að prófa einhverja nýja sort eða uppskrift. Mér finnst skemmtilegast að prófa nýjar uppskriftir og læra að gera nýja hluti. Ég baka líka alls konar kökur og tegundir. Sumt er nú bara bakað einu sinni á meðan annað nær meiri vinsældum,“ segir Lárus og brosir.

Er eitthvað sem er meiri áskorun en annað að baka?

„Það er nú svo margt sem maður er búinn að prófa að baka," segir Lárus. „Mesta áskorunin er alltaf að vita hvenær maður á að taka kökuna út úr ofninum þannig að hún er alveg hárrétt bökuð, ekki of mikið bökuð en nógu mikið samt. Það lærist með tímanum. Svo eru svo endalausir möguleikar í skreytingum og framsetningu, maður á langt í land þar. Annars þarf ég að æfa mig meira í að sjóða marens (poached marengue) til dæmis fyrir eftirréttinn Iles flottantes.“

Banana- og karamellubaka frá Boston sem er í miklu uppáhaldi

Segðu okkur aðeins frá uppskriftinni fyrir helgarbaksturinn sem þið ætlið að deila með lesendum, á hún sér sögu?

„Kakan heitir „Boston Banoffe Pie“ eða Banana- og karamellubaka frá Boston. Það er mikið haldið upp á þessa köku á heimilinu og hún er helst bökuð á tyllidögum eða við sérstakt tilefni. Strákarnir mínir biðja alltaf um þessa köku. Ég fletti oft í gegnum matreiðslubækur og sanka að mér uppskriftum sem mér líst á, svo breyti ég þeim eftir eftir því sem reynslan býður og mér hentar. Eins og þessi kaka, uppskriftina fann ég upphaflega í enskri eftirréttabók en svo hef ég breytt hlutföllum eftir því sem mér finnst ganga betur upp. Svo er auðvitað alltaf hægt að leika sér með skreytingar og það sem sett er ofan á bökuna. Hvað svo sem því líður þá er uppskriftin um það bil svona eins og fram kemur hér fyrir neðan.“

Það veitir þeim feðgum mikla hugarró að baka saman og …
Það veitir þeim feðgum mikla hugarró að baka saman og nostra við hlutina í eldhúsinu. mbl.is/Eyþór

Banana- og karamellubaka frá Boston

Skelin

  • 150 g hveiti
  • 120 g smjör
  • 50 g sykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 160°C hita.
  2. Sigtið hveiti í skál og setjið smjörið saman við, klípið saman með fingurgómunum þar til deigið fer að líkjast brauðmylsnu.
  3. Bætið þá sykrinum út í og nuddið saman þar til deigið verðu að einni sléttri kúlu.
  4. Þrýstið deiginu í bökuform, Lárus notar alltaf tin-form með lausum botn því honum finnst fallegra að taka kökuna úr forminu og láta hana standa sjálfa.
  5. Deigið er þannig að það er erfitt að fletja það út með kökukefli en það er eins og leir og þess vegna hægt að klípa það í sundur og þrýsta því aftur saman í forminu.
  6. Skipti deiginu í tvo helminga, fletjið annan út með fingrunum í botninn á forminu en takið svo klípu og klípu af hinum helmingnum og setjið í hliðarnar og þrýstið saman.
  7. Þegar deigið er komið í formið pikkið þá í botninn með gaffli áður en þið setjið smjörpappír yfir og fylli skelina af bökunarbaunum.
  8. Setjið skelin inn í ofni og bakið í um það bil 30 mínútur við 160°C hita, undir og yfir hita.
  9. Takið síðan skelin út og látið hana kólna.
  10. Gerið fyllinguna á meðan hún kólnar.

Fyllingin

  • 120 g smjör
  • 2 msk. síróp (Lárus notar sírópið í grænu dósunum)
  • 120 g púðursykur
  • 1 dós niðursoðinni sætri mjólk, u.þ.b. 400 g (stundum nota Lárus aðeins meira en 1 dós til að fá meiri fyllingu)

Til skreytinga

  • 2 bananar
  • Sítróna, safi kreistur úr yfir bananasneiðarnar fyrir skreytingu
  • Þeyttur rjómi eftir smekk
  • Saxað súkkulaði að eigin vali ef vill
  • Fersk ber að eigin vali ef vill
  • Ætisblóm ef vill

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin í þykkbotna pott og hrærið saman.
  2. Hitið á meðalhita að suðu, lækkið þá hitann svo fyllingin brenni ekki en leyfið henni að malla í 7 mínútur og hrærið í henni allan tímann, ef það fara að birtast dökkar rákir þá er hún farin að brenna og þá þarf að lækka meira og hræra vel í.
  3. Lárus stendur yfir pottinum allan tímann og hrærir stanslaust í honum.
  4. Þegar fyllingin er tilbúin hellið henni þá í skelina og setjið inn í ísskáp í 3 klukkustundir.
  5. Eftir það notið þá lítinn beitan hníf, eins og grænmetishníf, til þess að losa tin-formið af botninum og setjið kökuna á fallegan kökudisk.
  6. Skerið næst tvo banana í þunnar sneiðar og setjið á lítinn disk og kreistið sítrónu yfir til að varna því að bananarnir verði brúnir.
  7. Raðið síðan banananum þétt í hring um miðja kökuna og fyllið miðjuna af þeyttum rjóma.
  8. Síðan er lag að leika sér með að setja skraut eða súkkulaði eða jafnvel ber yfir.
  9. Oftast saxa Lárus og Andri eitthvað gott súkkulaði eins og hreint Milka eða bara suðusúkkulaði og sáldrið yfir.
  10. Síðan er náttúrulega æðislegt að geta týnt smárósir og blóm í garðinum til að skreyta diskinn, það gerir þetta svo sumarlegt og fallegt.
  11. Það var gerðu Sigurður og Andri eins og sjá má á myndinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert