Margrét setur smá skvettu af tequila út í guacamole-ið sitt 

Gleðigjafinn Margrét Erla Maack á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu …
Gleðigjafinn Margrét Erla Maack á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Lífskúnstnerinn og gleðigjafinn Margrét Erla Maack býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. Hann er svo sannarlega í hennar anda og hún þorir að fara sínar eigin leiðir í matargerðinni eins og í öllu öðru sem hún tekur sér fyrir hendur. Margrét er til að mynda nýr skemmtanastjóri Hinseg­in skemmti­staðarins Kiki á Klapp­ar­stíg sem opnaði á ný á dögunum. Hún fer um víðan völl að gleðja fólk og er líka með sundballet í Vesturbæjarlauginni svo fátt sé nefnt. Það er alla vega engin lognmolla kringum Margréti.

Kiki datt í kjöltu mína í miðju leikskólafríi

„Þetta sumarfrí sem átti að vera sumarfrí fór forgörðum þegar skemmtistaðurinn Kiki datt í kjöltu mína, og það í miðju leikskólafríi. Vikurnar mínar eru tvískiptar, ég er annars vegar með dóttur mína fallegu og svo ekki, og þá fæ ég útrás í að borða það sem hún vill helst ekki borða, eða er of sterkt,“ Margrét og hlær.

„Matur sem ég sæki í á sumrin er ferskur, litríkur og léttur, ég er mikil salat-kona og svo er ég alveg sjúk í alls konar mat, sushi, carpaccio og tartar er í miklu uppáhaldi. Oft geri ég salatdressingar og borða svo salat í hádegismat þrjá daga í röð. Sömuleiðis er ekkert leiðinlegra en að elda fyrir eina, svo ef ég skelli í til dæmis indverskan þá geri ég alveg fullt og frysti svo. Mér finnst ég alltaf vera á hlaupum svo það að fá tíma til að elda er algjör lúxus og er mín hugleiðsla. Ég sýni fólki að ég elski það með mat og býst við því sama,“ segir Margrét einlæg á svip.

„Í þessari viku er ég með dóttur mína fyrri hluta vikunnar, fer í nafnaveislu á miðvikudegi og svo tekur við helgin með öllum sínum ævintýrum en ég er búin að gera vikumatseðilinn og vona að hann gangi eftir.“ 

Mánudagur - Sumarlegir hamborgarar 

„Þá daga sem ég er með dóttur mína dett ég mikið í rétti sem er auðvelt að fullorðna upp fyrir mig. Við erum miklar hamborgarakonur, hún fær sér ennþá beran í brauði með tómatsósu en ég er meira í því að dúlla minn upp. Hér er til dæmis mjög góð hugmynd að slíkum. Pikklaður rauðlaukur er góður á allt næstum því og því svo gott að hafa hann í ísskápnum fyrir tacos, salöt og pitsur.“

Þriðjudagur – Sítrónupasta að hætti Sophiu Loren 

„Ég og amma mín og nafna, Margrét Erla, eigum það sameiginlegt að finnast sítrónur gera allt betra. Sítrónur eru sólskin og þetta pasta hér er æðislega sumarlegt. Ég mæli með að búa til parmesan-kurl með því að hita parmesan með smjöri og ólífuolíu, láta bráðna og svo þorna og kólna og mylja síðan út á fyrir extra-parmesan upplifun.“

Miðvikudagur – Túnfisksalatið besta

„Á miðvikudaginn er litla frænka mín að fá nafnið sitt og ætli mamma skelli ekki í túnfisksalatið sitt þá. Það er einhver leyniuppskrift sem enginn má fá en hér er túnfisksalat fyrir þau sem vilja vera með í túnfisksalat-gleðinni.“ 

Fimmtudagur – Grænt salat með ristuðum hnetum

„Nú er Gússa mín farin til föður síns og þá verður aldeilis smellt í salat-dressingu sem verður étin næstu daga í hádeginu. Þessi sesamdressing er bæði góð á þessu salati, sem ídýfa og líka á kjúklingasamloku. Salat í mig og svo beinustu leið á karókí á Kiki.“

Föstudagur – Guacamole

„Hér er ég að vona mjög mikið að það verði gott veður. Þá er ekkert betra en bjór og nachos. Nachos í kvöldmat er hápunktur. Ég má gera það sem ég vil og er líka frábær leið til að nýta afganga. Og þá er lykilatriði að búa til gott guacamole. Ef það á að vera extra fullorðins mæli ég með að skvetta smá tequila út í guacamole-ið.“

Laugardagur – Lúxus grillspjót með chimichurri

„Í dag er ég að kenna í milljón gæsapartíum og fer svo að DJa í brúðkaupi. Hér þarf ég eitthvað gott til að jarðtengja mig eftir daginn og best er að borða gott kjöt með chimichurri í algjörri þögn.

Sunnudagur – Tikka Masala kjúklingur

„Ég er þreytt í dag og opna frystinn og hvað sé ég? Fortíðar-Margrét hefur gert Tikka Masala og sett í frystinn fyrir nokkrum vikum. Þessi uppskrift er nokkuð nálægt því sem ég geri, en mín uppskrift tekur að minnsta kosti sólarhring í maríneringu og ef þið hafið tíma mæli ég með því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert