Götubitinn, sem er ein stærsta matarhátíð landsins, fór fram í Hljómskálagarðinum í Reykjavík helgina 19.-21. júlí. Síðustu ár hefur svokölluð Götubitakeppni verið ómissandi hluti af hátíðinni.
Sigurður Gunnlaugsson, betur þekktur sem Siggi Chef, sigraði í Götubitakeppninni í ár þegar dómnefndin kaus nauta-brisket hans sem besta götubitann árið 2024.
Sigurður hefur nú tryggt sér þátttökurétt á evrópsku götubitakeppninni, European Street Food Awards, sem fer fram í Saarbucken í Þýskalandi 4.-6. október næstkomandi. Keppnin er ein sú stærsta í heiminum en 15 Evrópulönd munu spreyta sig þar og bera fram sína allra bestu götubita.
Róbert Aron Magnússon, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir Götubitahátíðina hafa heppnast einstaklega vel og er áætlað að um 80 þúsund manns hafi gert sér ferð á hátíðina.
„Stemningin var rosaleg, við vorum á þessu nýja svæði í Hljómskálagarðinum sem var verið að taka í gegn. Garðurinn var geggjaður og það er gaman hvað Reykjavíkurborg hefur stillt þessu vel upp. Hátíðin var algjörlega til fyrirmyndar,“ segir Róbert í samtali við mbl.is.
„Við fimmfölduðum fjölda borða og stóla frá því í fyrra og það mátti bara ekkert minna vera. Það var þrefalt fleira fólk núna en á síðasta ári, þannig að við erum gríðarlega ánægð með þann árangur. Við hvöttum líka forsvarsfólk matarvagnanna til að útbúa sérstaka rétti fyrir hátíðina, sem vakti gríðarlega lukku meðal hátíðargesta. Við vildum leggja áherslu á að fólk gæti aðeins fengið þessa rétti á þessari hátíð sem gerir þetta sérstakt,“ bætir hann við.
Dómnefndina skipuðu veitingamaðurinn Ólafur Örn Ólafsson, skemmtikrafturinn Margét Erla Maack, meistarakokkurinn Fanney Dóra Sigurjónsdóttir og matargagnrýnandinn Adam Karl Helgason. Þar að auki var í fyrsta sinn kosinn götubiti ungu kynslóðarinnar og sátu þeir Hrafnkell Tumi Ólafsson og Andreas Halldór Ingason í þeirri dómnefnd. Það var Pop Up Pizza Truck þeirra Páls Ágústs Aðalheiðarsonar og Gabríels Daða Vignissonar sem varð fyrir valinu sem besti götubiti unga fólksins 2024.
Róbert segir dómnefndina hafa verið sammála um að gæðin á réttum keppninnar hafa aldrei verið meiri en í ár.
„Þvílíkur munur á gæðum og metnaði sem lagður er í keppnina, gæðin hafa bara aukist ár frá ári. Keppnin hefur aldrei verið jafn hörð og núna en það var mjög erfitt að velja hver yrði sigurvegari. Ég hef aldrei séð annað eins, fólk var að fullkomna rétti dag og nótt,“ segir Róbert og þakkar öllum þeim sem tóku þátt í Götubitahátíðinni kærlega fyrir viðtökurnar og komuna.
„Við erum hrikalega spennt fyrir næstu götubitahátíð eftir ár en við erum alltaf að finna leiðir til að gera hátíðina ennþá betri,“ segir Róbert.