Ákvað að stofna veitingastað í fæðingarorlofinu

Selja í fjallgöngu með fjölskyldunni. Hún segir margar skemmtilegar gönguleiðir …
Selja í fjallgöngu með fjölskyldunni. Hún segir margar skemmtilegar gönguleiðir í nágrenni Vopnafjarðar Ljósmynd/Aðsend

Selja Janthong hefur rekið veitingastaðinn Uss Bistro og Bar á Vopnafirði í tæp tvö ár. Selja hefur búið í 12 ár á Vopnafirði en hún settist þar að þegar hún kynntist sambýlismanni sínum.

„Ég ætlaði ekki að búa svona lengi hérna en hér er ég ennþá,“ segir Selja sem er taílensk að uppruna en flutti sex ára til Íslands. „Þetta er út úr leið en Vopnafjörður er við sjóinn og mér líður vel við sjóinn. Ég er frá Breiðdalsvík og ólst þar upp.“

Selja hefur með tímanum lært að meta Vopnafjörð. „Mér líður vel í sveitinni, ég er ekki fyrir stress og hraða. Þetta er fallegt bæjarstæði, náttúran er falleg, það er mikið af stöðum sem þú getur farið að skoða.“

Eldar taílenskan mat

Hvernig fer maður út í það að opna veitingastað?

„Það var ein geggjun, ég trúi ekki enn að ég hafi gert það. Ég var í fæðingarorlofi og var að hugsa næstu skref. Mig langaði ekki aftur í gömlu vinnuna. Áður en ég eignaðist strákinn var ég að reyna að finna mér matarvagn og ætlaði að fara í það,“ segir Selja. Þá vildi hins vegar svo til að veitingarými í Kaupvangi losnaði. Hún segir að það hafi verið gengið á hana og hún ákvað að slá til.

Uss Bistro og Bar býður upp á asískan mat. „Ég einbeiti mér að Taílandi af því ég er frá Taílandi. En þetta er blandað. Þetta er lítill seðill en fyrir alla. Ég lærði af mömmu en svo er ég dugleg að fylgjast með matreiðsluþáttum. Ég hef búið til marga rétti sjálf. Ég reyni að nota eins fersk krydd og ég get í matinn af því það er það sem skiptir mestu máli.“

Hvernig leggst veitingastaðurinn í fólk?

„Mjög vel, ég er alveg rosalega hissa hvað mér hefur gengið vel miðað við að vera á Vopnafirði. Það gengur sérstaklega vel á sumrin. Fólk er að koma að austan sérstaklega til að borða hjá mér af því ég hef tengingu austur. Mamma var að elda á hótelinu á Breiðdalsvík þannig að fólk þekkir hana og veit að ég er dóttir hennar. Svo byrjaði ég að hjálpa henni. Núna hjálpar hún mér þegar hún getur.“

Veitingastaðurinn Uss Bistro og Bar verður tveggja ára í sumar.
Veitingastaðurinn Uss Bistro og Bar verður tveggja ára í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Fer í sumarfrí á veturna

Selja finnur líka fyrir ferðamönnunum sem eiga leið hjá. Hún segir erlendu ferðamennina duglega að hringja og bóka borð. Íslendingar koma þó líka við. „Það var áberandi mikið af Íslendingum í fyrra.“

Selja fer ekki í hefðbundið sumarfrí eins og ferðamennirnir sem eiga leið hjá. Hún fer í sumarfríið sitt á veturna og heimsækir þá stundum Taíland og sækir innblástur í matargerðina enda leggur hún sig alla fram við matreiðsluna. „Mér finnst rosalega gaman að fara út að borða. Mig langar að fólk úti á landi fái góðan mat. Ég sjálf verð þreytt á þessum sama mat sem er alltaf í boði. Þegar þú borðar hamborgara og pitsur verður þér illt í maganum. Taílenskur matur er heimilismatur. Hann er fyllandi, það er mikið grænmeti og það er ekki rjómi í matnum. Þetta er matur sem gerir þig saddan.“

Auðkýfingurinn Sir Jim Ratcliffe er með þekktari mönnum á svæðinu en hann stendur fyrir hóteluppbyggingu í tengslum við laxveiði.

Hefur hann borðað hjá þér?

„Já, hann hefur gert það og allt hans fólk hefur komið til mín. Annar sonur hans var í mat hjá mér um daginn. Hann verður örugglega meira hérna þegar hann verður búinn að byggja þetta. Hann kemur hingað til að njóta, slaka á og vera úti í náttúrunni.“

Selja býður upp á taílenskan mat.
Selja býður upp á taílenskan mat. Ljósmynd/Aðsend

Sundlaugin engri lík

Á litlum veitingastað verður eigandinn að ganga í öll störf en Selja passar sig þó að vinna ekki of mikið. „Ég ákvað að setja mér það markmið til að sinna fjölskyldunni minni. Ég hef verið mikið í þjónustustörfum og fjölskyldan fer oft í annað sætið þegar fólk er í þessu. En við erum úti á landi. Ég stend allar vaktir sjálf og ég verð að gefa mér tíma til að anda inni á milli,“ segir Selja og segist loka staðnum þegar hún er ekki í vinnunni.

Þegar Selja á frí og vill slaka á fer hún í sund. „Sundlaugin heitir Selárlaug. Hún er á frábærum stað, við hliðina á Selá, dýrustu laxveiðiá landsins. Það er rosalega fallegt útsýni úr sundlauginni. Á sumrin sérðu veiðimennina væflast um, þú heyrir í ánni. Það er rosalega friðsælt. Það eru tíu mínútur þangað út frá bænum.“

Fjölskyldan gerir meira þegar hún vill gera sér glaðan dag. „Við erum líka mjög dugleg að fara í lautarferðir. Það er lítill skógur hérna sem við löbbum oft í með bekkjum og grasflötum. Það er alveg hægt að verja mörgum klukkutímum þar.“ Svarti sandurinn er tilvalinn fjölskyldustaður. „Sandurinn er langur og svartur. Svo er smá vatn út af ánni sem krakkar leika sér í í góðu veðri,“ segir Selja og bætir við að fjöldi gönguleiða sé í nágrenninu sem og nýleg kajakleiga.

Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka