„Ég er frekar hamfarakokkur en hitt“

Bjarki Sigurjónsson og Ásthildur Hannesdóttir.
Bjarki Sigurjónsson og Ásthildur Hannesdóttir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fjölmiðlakonunni og verkefnastjóranum Ásthildi Hannesdóttur er margt til lista lagt. Hún elskar að baka og töfra fram fallegar kökur og sætmeti en segir matreiðslu hins vegar ekki vera hennar sterkasta hlið. 

„Ég er frekar hamfarakokkur en hitt og mér finnst rosalega næs að geta keypt eitthvað sem er tilbúið. Ég væri helst til í að þurfa bara að fylla á tankinn einu sinni í viku – ef ég gæti tekið eina pillu sem myndi gera mig sadda í viku þá myndi ég gera það, ég nýt þess ekki endilega að borða og nenni því stundum ekki. Ég borða eiginlega bara til að lifa.

Kannski er ég bara með frekar barnalega bragðlauka ennþá. Ég vil ekkert fá einhverja rauðvínssósu eða eitthvað vesen, ég er sátt bara með kokteilsósu,“ segir Ásthildur og hlær. 

Mánudagur - Steiktur fiskur

„Sem sjómannsfrú og nánast með ótakmarkaðan aðgang að fiskmeti þá ætti ég að vera duglegri við að fikra mig áfram í prófa að elda nýja fiskrétti. En geri ég það? Nei. Steiktur fiskur í raspi, borinn fram með soðnum kartöflum, smjöri, niðurskornum gúrkum og remúlaði stendur alltaf fyrir sínu og er hinn fullkomni mánudagsmatur ef þú spyrð mig.“

Þriðjudagur - Dömplingar

„Ég elska „dumplings“ og kaupi oft frosna, tilbúna dömplinga sem þarf aðeins að henda í eldfastmót og inn í ofn í 15-20 mínútur. Þeir eru ofsalega bragðgóðir og það skemmir ekki fyrir að geta flýtt fyrir eldamennskunni endrum og eins með því að kaupa þá tilbúna. Dömplingar bornir fram með kryddblönduðu kúskúsi og hvítlaukssósu er eitthvað sem við erum mikið að vinna með heima hjá mér.“

Miðvikudagur - Kjúklingasalat

„Nokkrir fjölskyldumeðlimir mínir hafa mært mig mikið í gegnum tíðina fyrir að gera besta kjúklingasalat sem smakkast hefur. Ég get varla eignað mér hrósið því innblástur af uppskriftinni fékk ég að láni frá einhverjum öðrum en hef leikið mér mikið með að henda hinum og þessum hráefnum við. Til þess að gera salatið örlítið matarmeira þá þykir mér ótrúlega sniðugt að henda pasta með út í það.“

Fimmtudagur - Píta

„Maðurinn minn skammar mig oft fyrir það hversu illa ég nýti matinn frá kvöldinu áður. Ég held að hann verður ánægður með mig núna. Ef afgangur verður af kjúklingasalatinu sem var í matinn deginum áður er tilvalið að nýta það í píturnar - ekkert smá sniðugt. Allir fjölskyldumeðlimir elska pítur, ungir sem aldnir, en við elskum ekkert meira en skinkupítur því hakkið er ekkert alltaf voða vinsælt. Humarpítur hef ég reyndar aldrei smakkað en það er uppskrift sem mér finnst hljóma mjög vel. Mér skilst reyndar að humar sé nánast ófáanlegur þessi dægrin og humarstofninn nánast í útrýmingarhættu. Kannski ætti ég því bara að skammast mín fyrir það að hafa þennan rétt á matseðlinum.“ 

Föstudagur - Piparosta lasagne

„Erna vinkona mín kynnti mér fyrir þessari snilld að setja pipar- og paprikuostasósu út í lasagne í stað hefðbundinnar lasagne-sósu. Bragðlaukarnir mínir komust á diskótek þegar ég smakkaði þennan rétt hjá henni. Það verða allir að prófa þessa þvílíku föstudags snilld.“

Laugardagur - Pítsa

„Þrátt fyrir að Dominos í Norðlingaholti eigi það til að græða á mér einu sinni í mánuði þá slá pítsurnar þar þeim heimabökuðu ekki við. Góð heimatilbúin pítsa með ítölsku ívafi er bragðið af góðum laugardegi.“

Sunnudagur - Grillaðar svínakótilettur

„Grillaðar hunangsgljáðar svínakótilettur með kartöflusalati og piparsósu er sunnudagssteik að mínu skapi. Dóttir mín biður iðulega um bleikt kjöt í matinn og borðar aldrei eins vel og þegar bleiku kjöti er hent á grillið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert