Kóngurinn kveður en Daddi tekur við

Saga Pizza King í Skipholti er á enda en þar …
Saga Pizza King í Skipholti er á enda en þar verður Daddi's Pizza opnuð í haust. mbl.is/Árni Sæberg

Eigendur Daddi’s Pizza í Mývatnssveit hafa fest kaup á Pizza King í Skipholti og hyggjast opna þar nýjan pitsustað með haustinu. Þuríður Helgadóttir, framkvæmdastjóri Voga ferðaþjónustu sem á og rekur Daddi’s, segir að breytingar verði gerðar á staðnum og nú sé unnið að þeim. „Við tökum okkur samt bara okkar tíma. Við erum í fullum rekstri hér fyrir norðan og nú er háannatími. Það má því búast við að við getum opnað í lok ágúst eða september,“ segir hún.

Þuríður og Þórhallur Kristjánsson maður hennar hafa rekið Daddi’s Pizza við góðan orðstír um 15 ára skeið. Staðurinn er lítill en hefur þjónað bæði heimafólki og ferðamönnum vel. Vandað er til verka og segir Þuríður að búast megi við að það handbragð fylgi þeim suður yfir heiðar.

Daddi’s verði fjölskylduvænn hverfisstaður

„Við höfum haft það á bak við eyrað hvort ekki væri hægt að gera eitthvað skemmtilegt þarna fyrir sunnan. Margir hafa einmitt spurt okkur af hverju við reynum ekki að koma okkur fyrir þar með okkar pitsur. Nú ákváðum við bara að slá til. Þetta verður skemmtileg tilraun og tilbreyting,“ segir hún.

Þuríður segir að svipað yfirbragð verði á staðnum fyrir sunnan. Þar verði vinsælustu pitsurnar á Daddi’s og ef til vill eitthvað fleira. Hún kveðst búast við því að staðurinn muni bera Daddi’s-nafnið.

Pizza King var fyrst og fremst hugsaður til að fólk staldraði stutt við eða tæki pitsurnar með heim. Annað verður uppi á teningnum hjá Daddi’s í Skipholti. „Við ákváðum að halda honum ekki bara sem take away-stað. Við viljum hafa þetta fjölskylduvænan hverfisstað þar sem fólk getur komið og sest inn.“

Rekstur Pizza King var auglýstur til sölu fyrr á þessu ári og var ásett verð 13 milljónir króna. Þuríður vill ekki upplýsa hvað þau hjónin greiddu fyrir staðinn en segir einfaldlega: „Ég borgaði það ekki.“

20 ára saga Pizza King á enda

Pizza King átti sér orðið nokkuð langa sögu í veitingaflóru borgarinnar. Fyrsti staðurinn var opnaður í Hafnarstræti 18 fyrir um tveimur áratugum og naut mikilla vinsælda hjá skemmtanaglöðum ungmennum. Þar myndaði hann ákveðinn ramma um miðbæinn með Devito’s við Hlemm en ákveðin líkindi hafa alltaf verið með stöðunum tveimur. Staðnum í Hafnarstræti var síðar lokað og það hús gert upp.

Árið 2011 var staðurinn í Skipholti opnaður. Þar gátu gestir valið úr tugum pitsa af matseðli auk samloka. Fjölbreytt tilboð þóttu afar lokkandi og mikið var lagt í pitsugerðina ef marka má gamlar Facebook-færslur Pizza King. „Fyrir okkur er það meira en bara vinna að gera pitsur með stökkri, gylltri skorpu og áleggjum sem ná alveg út á brún. Það er ástríða,“ sagði í einni slíkri.

Fréttin birtist í Morgunblaðinu 24. júlí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert