„Það er ótrúlegt hvað ég get borðað mikið af ís“

Unnur Birta kann að meta góðan ís.
Unnur Birta kann að meta góðan ís. Samsett mynd

Unnur Birta Sævarsdóttir er mikil ískona og veit hvernig búa á til góðan ís. Hún er ein af fjölmörgum starfsmönnum Ísbúðarinnar Huppu sem var stofnuð á Selfossi árið 2013 af vinkonunum Telmu Finnsdóttur og Eygló Rún Karlsdóttur og mökum þeirra, þeim Gunnari Má Þráinssyni og Sverri Rúnarssyni.

Unnur Birta starfar sem verslunarstjóri Huppu á Seltjarnarnesi samhliða námi í uppeldis-menntunarfræði við Háskóla Íslands. 

Blaðamaður matarvefjarins forvitnaðist aðeins um vinsælasta ísinn og uppáhaldsís Unnar Birtu.

Hvað er skemmtilegast við að vinna í ísbúð?

„Persónulega finnst mér skemmtilegast að útbúa alls konar íspantanir, hvort sem það eru bragðarefir eða ís í boxi. Fólk mætir oft og biður um áhugaverðar og heldur óvenjulegar blöndur í bragðarefina. 

Á kvöldin myndast líka skemmtileg stemning, þá er mikið að gera og allir á fullu að búa til ísa. Einnig er mjög gaman að taka á móti túristum sem þekkja ekki ísmenninguna hér á landi, þeir fá gjarnan smá valkvíða yfir öllu framboðinu og leyfa mér að velja eitthvað skemmtilegt. Valið slær alltaf í gegn.“

Draumarefurinn er ansi gómsætur.
Draumarefurinn er ansi gómsætur. Ljósmynd/Aðsend

Hver hefur verið vinsælasti ísinn í sumar og af hverju?

„Í sumar hefur Oreo-sjeikinn verið að slá í gegn, klárlega vinsælasti sjeikinn. Hann er góður í öllum veðrum. Ég verð einnig að nefna Draumarefinn, fólk fær ekki nóg af þeim bragðaref.“

Hver er uppáhaldsísinn þinn og af hverju?

„Ég fæ mér alltaf Huppu-ísinn. Það er ótrúlegt hvað ég get borðað mikið af ís. Uppáhaldið mitt þessa stundina er bragðarefur með Kinder-egg ídýfu, lakkrískurli og kökudeigi. Ég á líka erfitt með að standast kökudeigs-sjeikinn. Hann er svo góður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert