Þetta eru átta vinsælustu ávextir heims

Á listanum eru átta vinsælustu ávextir heims!
Á listanum eru átta vinsælustu ávextir heims! Ljósmynd/Pexels/Alleksana

Ávextir eru vinsælir um allan heim enda eru þeir ljúffengir, tilbúnir til neyslu og innihalda mikið af nauðsynlegum næringarefnum á borð við trefjar og vítamín. Hægt er að njóta ávaxta á ýmsan máta, til dæmis í þeytingum, bakstri, ís, matreiðslu og til að skreyta rétti. 

Listi yfir átta vinsælustu ávexti heims birtist á vef WorldAtlas, en það gæti komið einhverjum á óvart að sjá hvaða ávöxtur er vinsælastur á heimsvísu!

1. Tómatar

Árleg uppskera af tómötum nemur 182 milljón tonnum og eru þeir því vinsælasti ávöxtur heims. Villtir tómatar eru upprunalega frá Andesfjöllum, vesturhéröðum Bólivíu, Perú, Chile og Ekvador, en þeir voru fyrst ræktaðir um 700 e.Kr. og síðar fluttir til Evrópu af landkönnuðum.

Tómatar eru notaðir í nokkra af vinsælustu rétti heims, eins og pítsur, pasta, tómatsósu, salöt og fleira.

2. Bananar

Uppskera banana nemur rúmum 115 milljón tonnum á ári, en þeir eru næstvinsælasti ávöxtur heims. Talið er að þeir eigi uppruna sinn að rekja til Suður-Kyrrahafs eða Suðaustur-Asíu fyrir um 10.000 árum, eða í kringum 8.000 til 5.000 f.Kr.

Bananar þykja sérlega þægilegir sem snarl á ferðinni, en þeir koma pakkaðir inn í eigin hlífðarlag sem auðvelt er að afhýða og það þarf ekki að þvo þá. 

3. Vatnsmelóna

Árlega nemur uppskera á vatnsmelónum rúmum tæplega 104 milljón tonnum. Það er fátt sem toppar brakandi ferska og safaríka vatnsmelónu á heitum sumardegi, en þær eiga uppruna sinn að rekja til Egyptalands. 

Vatnsmelónur eru vinsælt snarl en eru einnig notaðar til að útbúa hina ýmsu drykki og kokteila, bæði áfenga og óáfenga.

4. Epli

Uppskera epla nemur rúmum 86 milljón tonnum á ári. Þau eru upprunin í Mið-Asíu og fundust fyrst í suðurhluta Kasakstan um 2.000 f.Kr.

Í dag koma epli í nokkrum mismunandi afbrigðum sem eru mismunandi á litinn en bjóða líka upp á ólíkan sætleika og áferð. 

5. Appelsínur

Á hverju ári nemur uppskera á appelsínum rúmum 75 milljón tonnum á heimsvísu. Appelsínur voru fyrst ræktaðar í Kína í kringum 2.500 f.Kr. og komu til Ameríku í annarri ferð Kólumbusar árið 1493.

Appelsínur eru ekki bara vinsælar til að borða heldur líka að drekka, en appelsínusafi er einn vinsælasti safi í heimi og þykir sérlega góður með morgunmat.

6. Mangó

Uppskera á mangó nemur rúmum 40 milljón tonnum á ári. Mangó hefur verið ræktað í yfir 4.000 ár og kemur fyrst frá Indó-Mjanmaríu svæðinu. Það var ekki fyrr en á 18. öld sem mangó barst til Ameríku.

Mangó þykir vera „ofurávöxtur“ sem býður upp á C-vítamín, B6-vítamín og trefjar. Þá eru mangó talin hafa jákvæð áhrif á heilsu heilans og kynhvöt.

7. Perur

Á ári hverju nemur uppskera á perum tæplega 24 milljón tonnum. Perur eiga uppruna sinn að rekja til nokkurra heimshluta, þar á meðal Evrópu, Asíu og norðurhluta Afríku. Perur hafa verið ræktaðar í Kína í að minnsta kosti 3.000 ár. 

Perur eru ekki bara þægilegt millimál til að grípa með sér heldur einnig vinsælar í bakstur og eftirrétti, í salöt og þeytinga. 

8. Lárpera

Uppskera á lárperu nemur yfir 6 milljón tonnum á hverju ári. Ávöxturinn á rætur sínar að rekja til Suður-Mexíkó í kringum 8.000 til 5.000 f.Kr.

Lárpera inniheldur góða fitu og trefjar og er vinsæl ofan á brauð, í hina ýmsu rétti, þeytinga, salöt og jafnvel eftirrétti!

Ljósmynd/Unsplash/Empreinte
Ljósmynd/Unsplash/Alexander Mills
Ljósmynd/Unsplash/Alexander Mills
Ljósmynd/Unsplash/Daiga Ellaby
Ljósmynd/Unsplash/Jaroen van Nierop
Ljósmynd/Unsplash/Alexander Mills
Ljósmynd/Pexels/Marta Dzedyshko
Ljósmynd/Pexels/Cottonbro studio
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka