Hætti í fastri vinnu og fór að elda úti

Viktor Már Snorrason matreiðslumaður hætti í fyrra í föstu starfi á fínum veitingastað og ákvað að leggjast í ævintýri um Ísland ásamt unnustu sinni, samfélagsmiðlastjörnunni Kyönu Sue Powers. Saman ferðast þau um landið og Viktor töfrar fram dýrindis máltíðir í fallegri íslenskri náttúru.

„Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri og bjó þar til 18 ára aldurs. Ég byrjaði að læra kokkinn í Verkmenntaskólanum á Akureyri en svo fékk ég ekki samning fyrir norðan. Annað hvort varð ég að hætta í kokkinum eða flytja suður. Ég var 18 ára og mamma ekkert sérstaklega ánægð með að ég ætlaði að flytja suður 18 ára en ég gerði það nú samt. Ég flutti bara einn suður og byrjaði á Fiskfélaginu í miðbænum,” segir Viktor sem vann á Fiskfélaginu með hléum þangað til hann hætti í föstu starfi í fyrra.

Viktor Már Snorrason og unnusta hans, Kyana Sue.
Viktor Már Snorrason og unnusta hans, Kyana Sue. Ljósmynd/Kyana Sue

„Við sameinuðum krafta okkar, hún gerir sitt og ég get ennþá verið að elda og gert mitt þótt auðvitað við gerum allt saman. Fólk ræður okkur i allskonar verkefni, til dæmis að koma fyrirtækjum sínum á framfæri á samfélagsmiðlunum,“ segir Viktor um starf sitt í dag. „Ég elska að elda og við náum ótrúlega góðu myndefni af mér elda í fallegri náttúrunni. Ég er ekki að grilla einhverjar pylsur ég er að gera aðeins meira. Við fengum ágætis athygli á Instagram en ég er með Instagram-reikninginn The Adventure Chef.“

Viktor töfrar fram dýrindismáltíðir úti í náttúrunni.
Viktor töfrar fram dýrindismáltíðir úti í náttúrunni. Ljósmynd/Kyana Sue

Náttúran er eldhúsið

Auk þess að búa til myndefni hefur Viktor eldað fyrir fólk í náttúrunni en hann segir ferðmenn marga halda að hann sé með einskonar pop up-veitingastað úti í náttúrunni en svo er ekki. „Ég hef alveg verið að taka einkaviðburði,“ segir Viktor sem eldaði nýlega fyrir hóp í Þakgili. Hann setti upp langborð og bjó til notalega stemningu í hellisskúta en hann segir aðstöðuna í Þakgili hafa verið sérstaklega góða. Fyrr um daginn bauð hann sama hóp upp á morgunmat við Silfru.

Hvernig er að fara úr fullkomnu eldhúsi í ótrúlega hrátt umhverfi?

„Það er mjög skrítið. Það er aðeins erfiðara að redda hlutum úti í náttúrunni, maður þarf að vera rosalega skipulagður, það má ekkert gleymast. Það er þvílíkur munur að labba úr fullkomnu eldhúsi yfir í það að náttúran er eldhúsið þitt. En andrúmsloftið er afslappað af því við vitum öll hvar við erum, við erum úti í náttúrunni en það er bara gaman.“

Það er fátt sem toppar það að elda góðan mat …
Það er fátt sem toppar það að elda góðan mat í fallegri íslenskri náttúru. Ljósmynd/Kyana Sue
Viktor leikur sér með alls kyns hráefni.
Viktor leikur sér með alls kyns hráefni. Ljósmynd/Kyana Sue

Gefur þér þetta aukin sköpunarkraft?

„Ég elska að elda og núna er ég að læra upp á nýtt. Ég byrjaður sem nemi hjá sjálfum mér. Ég er að læra hvað ég kemst upp með og hvað ég get gert í náttúrunni. Það er ótrúlega gaman. Ég var nýlega með hóp sem var allur vegan og það er auðvitað takmarkað hvað þú getur gert úti í náttúrunni. Ég væri auðvitað mest til í að geta bara grillað kjúkling eða eitthvað þæginlegt en ég er með mjög mikið af græjum og gat því aðlagað mig að þeim óskum sem hópurinn vildi. Þetta var krefjandi en ég fékk mikið út úr þessu,“ segir Viktor og bætir við að grænkerarnir hafi verið himinlifandi eftir matinn.

Viktor segist það krefjast skipulags að elda úti í náttúrunni.
Viktor segist það krefjast skipulags að elda úti í náttúrunni. Ljósmynd/Kyana Sue

Hvernig er að hætta fastri vinnu?

„Ég var búinn að segja upp vinnunni minni og ætlaði að fara í aðra vinnu. En svo kom þessi hugmynd að fara inn í fyrirtækið hjá unnustu minni. Það gengur mjög vel, það er ótrúlega gaman og ég sé ekki eftir neinu. En það er ótrúlega skrýtið að fara frá því að vera búinn að vinna í 15 ár í eldhúsi á 12 tíma vöktum, 2-2-3, yfir í það að vakna og þurfa að fara í tölvuna að vinna. Þetta er allt öðruvísi, ekki bara að fara inn í eldhús og byrja undirbúa daginn.“

Þessi hlýjar á köldum sumarkvöldum.
Þessi hlýjar á köldum sumarkvöldum. Ljósmynd/Kyana Sue

Maður sem segir já!

Viktor er ævintýragjarn að upplagi og kemur því ekki á óvart að hann og Kyana passi vel saman en hún er þekkt fyrir skemmtileg ferðamyndskeið um Ísland. „Ég elska að ferðast og ég er rosalega mikill já-maður, ég er alltaf til í allt. Ég er alltaf til í ævintýri og er búinn að ferðast um allan heim,“ segir Viktor.

Spurður út í ferðalögin erlendis segir hann að ferðalög um Suður-Kóreu, Japan og Kambódíu standa upp úr. „Menningarmunurinn er svo mikill. Mesta menningarsjokk sem ég hef fengið var á stærstu lestarstöðinni í Japan. Það eru allir að ganga á móti hvor öðrum og allir alveg eins klæddir, í svörtum buxum, með svart bindi og í hvítri skyrtu. Ég stóð í miðjunni og leið eins og ég væri í tölvuleik komandi frá Akureyri.“

Kyana Sue og Viktor eru dugleg að ferðast.
Kyana Sue og Viktor eru dugleg að ferðast. Ljósmynd/Kyana Sue

Vestmannaeyjar í uppáhaldi

Hvaða staður er í uppáhaldi hjá þér á Íslandi?

„Mér finnst Vestmannaeyjar ótrúlega skemmtilegar. Það er svo absúrd og flott að sigla að Vestmannaeyjum, sérstaklega á sumrin þegar allt er svo grænt og fallegt. Það eru náttúrulega geggjaðir veitingastaðir þarna, ég elska að fara út að borða – það er eiginlega áhugamálið mitt og draumurinn er að fara á Slippinn hjá honum Gísla Matt í sumar. Það er bara svo mikil stemming í bænum. Það er ótrúlegt að geta gengið upp á eldfjall og horft yfir bæinn. Ég fór á seinasta ári með unnustunni að bjarga pysjum, ég hef aldrei gert það áður en mér fannst það geggjað.“

Viktor segir að Kyana unnusta sín hafi kynnt hann fyrir Íslandi upp á nýtt. Hún var með öðruvísi hugmyndir um landið en hann. „Maður heyrir um um pysjurnar í Vestmannaeyjum og það er ekkert mál að fara, þetta er bara dagsferð. Það getur hver sem er farið og þetta er ótrúlega gaman. Hún sýnir mér hvað það er auðvelt að ferðast hérna og hvað þú þarft að fara stutt til að sjá fallega staði,“ segir hann.

Toppurinn á tilverunni.
Toppurinn á tilverunni. Ljósmynd/Kyana Sue

Vík í Mýrdal, Höfn í Hornafirði og Skaftafell eru líka í miklu uppáhaldi hjá Viktori. Talandi um að drífa sig af stað þá segir hann að þau skötuhjú geri sér jafnvel dagsferð alla leið frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal. Að ferðast þarf ekki að vera flókið segir Viktor.

Hið síbreytilega landslag jökla á Suð-Austurhorninu heillar Viktor einnig. „Mér finnst allt jöklasvæðið geggjað og við erum mjög dugleg að fara upp á jökla. Unnusta mín hefur tekið grunnleiðsögunám í jöklagöngu en við förum alltaf með fyrirtækjum. Við förum aldrei ein upp á jökul. Þú getur farið í nánast 45 mínútna túr upp í dagstúr en það er ótrúlega gaman að fara upp á jökul. Þeir eru hérna og það er alveg absúrd þegar maður stendur inn í bláum íshelli, þeir eru hérna rétt hjá,“ segir Viktor sem hefur meðal annars eldað á jökli.

Góður kokteill hentar hvenær sem er.
Góður kokteill hentar hvenær sem er. Ljósmynd/Kyana Sue

Hægt að grilla meira en pylsur

Hvað á fólk að borða í útilegunni í sumar ef það vill ekki grilla pylsur?

„Uppáhaldsmaturinn minn er takos. Ég kaupi ekta maís tortillur. Ég kaupi hráefnið í búð sem heitir Blóm í eggi sem er Suður-Amerísk búð og er eins og falin perla. Þetta þarf ekkert að vera flókið. Þú býrð til salsa, lárperumauk, svo er laukur og þú grillar kjúkling. Þetta er fljótlegt, þetta er mitt go-to,“ segir Viktor sem ætlar að vera á miklu flakki um landið í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert