Full vinna að sporna við matarsóun

Rósa Björg Jónsdóttir er ein þeirra sem sér um frískápinn.
Rósa Björg Jónsdóttir er ein þeirra sem sér um frískápinn. Ljósmynd/Aðsend, mbl.is/Árni Sæberg Samsett mynd

„Hugsunin á bak við frískápana sú að þú deilir mat, sem þú ætlar ekki að nota, með einhverjum sem getur notað hann, svo neysluhæfur matur lendi ekki í rusli eða landfyllingu. Þetta er ekki hjálparstarfsemi heldur mega allir setja í og taka mat úr skápnum,“ segir Rósa Björg Jónsdóttir en hún er ein af þremur konum sem er með yfirumsjón með frískápnum við Neskirkju í Vesturbænum.

Uppruna frískápanna má rekja til 2021 er Kamila Walijewska og Marco Pizzolato komu fyrir frískáp við húsnæði Andrýmis við Bergþórugötu í miðborg Reykjavíkur. Núna þremur árum síðar má finna frískápa dreifða víða um land allt.

Fyllir á tvisvar á dag

Að sjá um frískápinn er fullt starf en í júlímánuði hafði Rósa Björg eytt hátt í sex klukkustundum á dag alla virka daga í það að sækja mat til að fylla á, en mest allt af matnum þetta sumarið kemur frá Samkaupum.

„Á hverjum degi í júlímánuði hef ég farið í Nettó, stundum tvisvar. Samkaup mega eiga mikið og gott hrós því verslunin er með sjálfbærnifulltrúa sem passar upp á að neysluhæfur matur sé ekki að enda í einhverjum gámum eða rusli. Frískáparnir fengu úthlutað íbúðum sem við nálgumst mat í en auk þess lætur Bergrún lætur okkur vita þegar hægt er að sækja matinn í aðrar búðir Samkaupa. Verslunin fær gott úr þessu líka þar sem hún sparar kostnaðinn við að farga.“

Mikið af matnum sem endar í frískápnum er að nálgast síðasta neysludag. Hún segir dagsetninguna ekki endilega vera það sem skiptir mestu máli og er mikilvægt að skoða og lykta fyrst áður en mat er hent.

Mikið rennerí í skápinn

Frískápurinn hefur hlotið mikilla vinsælda í Vesturbænum. Hún segir það vera mikið rennerí á skápnum og er hann fljótur að tæmast.

„Þetta er mjög mikið notað. Sumir hópar sem koma hugsa bara um sig og taka helling. Stundum hinkra ég bara og bíð eftir að það sé komið jafnvægi á skápinn. Þá eru allir kurteisir og taka bara hámark einn poka. Um daginn komu 38 manns á rétt rúmum klukkutíma, ég held að fólk átti sig ekki á því hvað þetta er mikið rennerí.“

Fyrir utan að sækja matvörur fyrir skápinn hefur Rósa Björg eldað um þrjú þúsund lítra af súpu síðastliðinn þrjú ár fyrir frískápana. Þær eru að mestu úr „ljóta“ grænmetinu, sem enginn vill. Þannig að minnsta kosti einu sinni í viku er alltaf hægt að nálgast heimalagaðar súpur, stundum oftar.

Safnar sjálfboðastörfum

Í augnablikinu er Rósa Björg atvinnulaus að vinnu sem borgar henni en hún hefur nóg í höndunum með öllum þeim sjálfboðastörfum sem hún gegnir, en hún er einnig konsúll fyrir Ítalíu og er verkefnastjóri barnabókasafnsins Móðurmáls sem er einnig sjálfboðastarf.

„Ég safna sjálfboðaliðum en það er bara ég sem karakter. Þetta er gífurlega gefandi og mér finnst þetta mjög gaman. Auðvitað vinnur fólk sjálfboðastarf af því að það hefur gaman af því. En maður verður auðvitað stundum þreyttur þegar maður er að díla við fólk sem hugsar ekki um aðra en sjálfan sig. Það eru til fleiri heldur en þú, en upp til hópa gengur þetta mjög vel fyrir sig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert