Löðrandi salthnetuspaghettí með heimagerðu pestói

Salthnetupestó er sérlega ljúffengt og gott.
Salthnetupestó er sérlega ljúffengt og gott. Unsplash/Getty Images

Eftir Verslunarmannahelgi þar sem tíðkast að gera vel við sig í mat og drykk er gott að leita aftur í einfaldleikann. Einfaldleikinn þarf þó ekki að vera óspennandi og goslaus. Hann getur verið alveg löðrandi eins og þessi réttur sannar. Hér er á ferð spaghettí með heimagerðu salthnetupestói sem bráðnar í munni og færir þennan mánudagsþriðjudag upp á annað plan. Gott er að strá svolitlum parmesanosti yfir pestóið þegar það er komið á diskinn. 

Spaghettí með salthnetupestói bráðnar í munninum.
Spaghettí með salthnetupestói bráðnar í munninum. Unsplash/Alice Pasqual

Salthnetupestó (uppskrift fyrir 4)

  • 1/2 bolli salthnetur
  • 2 msk. ferskur sítrónusafi
  • 1 lífrænt hvítlauksrif
  • 2 bollar af ferskri basilíku
  • 1/2 bolli lífræn ólífuolía
  • 1/2 bolli niðurrifinn parmesanostur

Aðferð: 

  1. Allt sett í blandara og þeytt saman þangað til pestóið er orðið silkimjúkt. 
  2. Spaghettí soðið eftir leiðbeiningum á pakka. 
  3. Þegar spaghettíið er tilbúið er öllu blandað saman í stóra skál. Ef það er afgangur má taka restina með sér í nesti daginn eftir. Svona spaghettí er jafngott heitt og kalt. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert