Marengsterta með hunangsplómum

Marengsterta með hunangsplómum er mikið lostæti.
Marengsterta með hunangsplómum er mikið lostæti. mbl.is/Marta María

Það er fátt sem jafnast á við góðar marengstertur. Þessa köku bakaði ég á dögunum þegar sonur minn hélt upp á 15 ára afmælið sitt. Einhvern veginn er ekki hægt að halda afmælisboð nema að bjóða upp á eina marengstertu. Þessi uppskrift að botninum klikkar yfirleitt ekki nema eitthvað sé að bakaraofninum. 

Óhætt er að segja að kakan hafi slegið í gegn og var nánast borðuð upp til agna. Ég lít alltaf á það sem mikið hrós þegar kökur eru nánast kláraðar því þá hafa þær þótt góðar. Þessi litli kökubiti sem eftir varð stoppaði þó ekki lengi í ísskápnum því sjálf laumaðist ég í hann og borðaði rétt fyrir svefninn sem er svo gott. 

Galdurinn við þessa marengstertu eru hunangsplómurnar sem eru heimagerðar, líkt og kakan sjálf. Ég vona að þessi uppskrift renni jafnljúflega niður hjá lesendum og heima hjá mér.

Best er að baka kökuna að kvöldi til og láta …
Best er að baka kökuna að kvöldi til og láta hana kúra inni í ofni yfir nóttina. Kakan fer vel á diski á fæti úr marmara sem kemur frá steinsmiðjunni Fígaró. mbl.is/Marta María

Marengsterta með hunangsplómum 

  • 4 eggjahvítur
  • 3 dl sykur
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. eplaedik

Aðferð: 

  1. Hitið ofninn í 150°
  2. Setjið eggjahvítur í hrærivélaskál og stífþeytið.
  3. Bætið sykrinum út í smátt og smátt.
  4. Þegar blandan er orðin stíf og glansandi þá er lyftidufti bætt út í ásamt eplaediki.
  5. Teiknið hringlaga form á bökunarpappír og smyrjið deiginu fallega á bökunarpappírinn.
  6. Bakið kökuna í 15 mínútur við 150° þá er hitinn lækkaður niður í 100°og kakan bökuð í klukkutíma.
  7. Langbest er að baka kökuna að kvöldi til að láta hana kólna inni í bakaraofni yfir nótt. Þá verður áferðin hárrétt. 

Hunangsplómur

  • 4 plómur
  • 1-2 msk. fljótandi lífrænt hunang

Aðferð: 

  1. Skerið plómurnar í litla bita og hellið fljótandi lífrænu hunangi yfir plómurnar. Best er að láta plómurnar marinerast í hunanginu yfir nótt. Fínt er að gera þetta eftir að kakan er farin inn í ofn.
  2. Morguninn eftir að kakan tekin út úr ofninum, rjóminn þeyttur og settur á kökuna og skreyttur með hunangsplómunum. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert