Öðruvísi brieosta- og hunangssnúðar

Öðruvísi og frumlegir brieosta- og hunangssnúðar sem steinliggja.
Öðruvísi og frumlegir brieosta- og hunangssnúðar sem steinliggja. Samsett mynd

Hér erum við komin með uppskrift að frumlegum og öðruvísi snúðum eiga eftir að fara í sigurför hjá snúða- og ostaaðdáendum landsins. Heiður­inn af uppskriftinni á Guðbjörg Ósk Gunn­ars­dótt­ir, ný­út­skrifaður bak­ari. En Guðbjörg vakti mikla athygli í sumar fyrir kransakökuna sem hún gerði fyrir frú Elizu Reid fyrrverandi forsetafrú Íslands. Hún skreytti kran­sa­kök­una á þjóðleg­an máta með súkkulaði og ís­lenska fán­an­um. Elizu var færð kransakakan við hátíðlegt tækifæri þegar hún bauð til móttöku á Bessastöðum í sumar í tilefni þess að heimsmeistaramót ungra bakara var haldið hér á landi í fyrsta skipti. 

Hugmyndina að þessum dásamlegu osta- og hunangssnúðum fékk Guðbjörg á netinu og tókst svona líka vel til.

„Þegar ég var að undirbúa mig fyrir sveinspróf fyrr á árinu var ég í miklum erfiðleikum með að velja mér uppskriftir til að gera, fannst þær þurfa að vera aðeins öðruvísi til að koma dómurunum á óvart. Í þessum undirbúning sá ég myndband á netinu þar sem uppskrift af þeyttum brieosti með hunangi var í forgrunni. Ég fékk þá flugu í höfuðið að ég gæti búið til snúð með þessari fyllingu. Ég gerði það og tókst það með prýði,“ segir Guðbjörg Ósk brosandi.

Þessir snúðar eiga eftir að töfra alla sælkera upp úr …
Þessir snúðar eiga eftir að töfra alla sælkera upp úr skónum. Ljósmynd/Guðbjörg Ósk

Brieosta- og hunangssnúðar

Deig

  • 113 g vatn
  • 187 g mjólk
  • 1 stk. egg
  • 13 g þurrger
  • 45 g sykur
  • 6 g salt
  • 562 g hveiti
  • 86 g smjör

Aðferð:

  1. Byrjið á að setja öll hráefni nema smjör í hrærivélaskál og vinnið á hægum hraða í 4-5 mínútur. Eina sem þarf að huga að í þessu skrefi er að passa að þurrgerið snerti ekki saltið og sykurinn.
  2. Næst er smjörinu bætt við og deigið unnið í 8-10 mínútur á hraða 1 svo á hraða 2 í 4-5 mínútur aukalega, það er gott að stoppa af og til og skafa niður hliðarnar ef deigið er að festast við hliðarnar á skálinni en þegar deigið er tilbúið á það að losna frá hliðunum.
  3. Takið deigið svo úr skálinni og hnoðið það á borðinu þar til það er orðið að góðri kúlu og leyfið því að standa í 10-15 mínútur með plastfilmu yfir til að það þorni ekki.
  4. Sláið svo deigið niður og geymið í kæli í 3-4 klukkustundir áður en því er rúllað út. Guðbjörgu finnst best að rúlla það aðeins með kökukefli þannig það sé svipað þykkt alls staðar, setja það svo á bakka eða eitthvað flatt og setja plastfilmu yfir það. 
  5. Næsta skref er að gera fyllinguna, setja hana á og loks baka snúðana.

Fylling

  • 150 g Dalabrie-ostur
  • 150 g Camembert
  • 25 g hunang
  • 5 sjávarflögusalt
  • 40 g hveiti
  • 300 g smjör
  • 2 greinar rósmarín eða 2 tsk. þurrkað rósmarín

Aðferð:

  1. Fyrsta sem þarf að gera hér er að skera skorpuna utan af ostinum, hvort sem þú ert einungis með brie eða camembert og brie. Þetta er einfaldlega gert til þess að áferðin á fyllingunni verið betri. Það þarf svona 3 stykki af Dalabrie, hann er 150 g með skorpunni, til að ná þyngdinni sem þarf í uppskriftina.
  2. Þetta er svo allt mjög einfalt eftir þetta, öll hráefnin eru sett í hrærivél og þeytt vel upp.
  3. Geymið svo fyllinguna við stofuhita þar til hún verður notuð. Það er líka gott að skipta hunanginu út fyrir chili-hunang, hunangið kryddar aðeins meira upp í bragðinu en þeir eru líka mjög góðir með venjulegu hunangi.
  4. Þegar deigið hefur fengið að bíða í kæli nógu lengi má strá smá hveiti á borðið og taka upp kökukeflið. Rúllið deiginu síðan og fletjið út til að setja fyllinguna á það. 
  5. Smyrjið svo fyllingunni á deigið, gott er að skilja eftir smá rauf neðst á deiginu með engri fyllingu, þetta verður endinn á snúðnum og hann mun festast betur við restina af deiginu ef það er engin fylling á því.
  6. Svo þegar þú rúllar upp er mikilvægt að passa hversu þétt rúllaðir þeir eru, ekki of þétt þá mun miðjan skjótast upp úr í ofninum en ef þeir eru of lausir munu þeir detta í sundur í ofninum. 
  7. Til að láta snúðana hefast finnst Guðrúnu gott að setja þá inn í ofn á mjög lágum hita, ekki samt yfir 40°C hita, með plast filmu yfir. Þetta flýtir aðeins fyrir því að deigið hefist.
  8. Snúðarnir ættu að verða tvöfalt stærri þegar þeir eru full hefaðir. Það er líka vel hægt að hefa þá við stofuhita það mun bara taka örlítið lengri tíma.
  9. Takið síðan snúðana út og hitið ofninn upp í 190°C hita.
  10. Setjið síðan snúðana inn í ofn og bakið við 190°C hita í um um það bil 13 mínútur eða þar til það er kominn fallegur gullinbrúnn litur á þá.
  11. Það er mjög gott að rífa smá parmesanost ofan á snúðana áður en snúðarnir eru bakaðir en það má líka alveg að sleppa því. 
  12. Eftir baksturinn er einnig mjög gott að setja smá auka hunang ofan á, það fer algjörlega eftir smekk hvers og eins.
  13. Guðbjörgu finnst gott að nota smá chili-hunang til að gera þá aðeins bragðsterkari.
  14. Berið fram og njótið í góðum félagsskap.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert