Pylsur með bjórsoðnum lauk og chilisalsa fyrir sælkerann

Grilluð pylsa borin fram með góðgæti sem kemur bragðlauknum á …
Grilluð pylsa borin fram með góðgæti sem kemur bragðlauknum á flug er ávallt kærkomin á góðum degi. Ljósmynd/Anna Björk Eðvarðsdóttir

Grillaða pylsur njóta mikilla vinsælda á sumrin og gleðja marga svanga munna. Það er hægt að leika sér með pylsur og bera þær fram á margvíslegan og spennandi hátt. Anna Björk Eðvarðsdóttir matarbloggari og formaður Hringsins, sem heldur úti uppskriftavefnum Anna Björk, hefur mikið dálæti af pylsum og gera þær hafa sælkeramáltíð. Hér er spennandi útfærsla úr hennar smiðju þar sem hún ber pylsurnar fram með bjórsoðnum, sætum lauk og chilisalsa sem kemur bragðlaukunum á flug.

„Góð pylsa kætir okkur fjölskylduna alltaf. Það sem setur þessar pylsur í 1. sæti hjá fjölskyldunni er auðvitað frábær pylsa og síðan meðlætið, samspilið milli sæta lauksins, hitans og kryddinu úr chilisalsanu. Svo toppar maður dýrðina með sterku sinnepi. Einn jökulkaldur með er ekki slæmt,“ segir Anna Björk og brosir.

Hún mælir með að hver og einn velji sér pylsu við hæfi en það eru til fjölmargar tegundir af pylsum í dag sem skemmtilegt er að grilla og leika sér með þegar kemur að meðlæti.

Anna Björk Eðvarðsdóttir er formaður Hringsins og heldur einnig úti …
Anna Björk Eðvarðsdóttir er formaður Hringsins og heldur einnig úti matarbloggi á sinni eigin heimasíðu. Hún hefur mikla ástríðu fyrir matargerð og bakstri. mbl.is/Árni Sæberg

Pylsur með bjórsoðnum, sætum lauk og chilisalsa

Fyrir 4

  • Pylsur að eigin vali sem og magn
  • Brioch pylsubrauð
  • Mjúkt smjör
  • Sterkt sinnep
  • Bjórsoðinn, sætur laukur, sjá uppskrift fyrir neðan
  • Chilisalsa, sjá uppskrift fyrir neðan

Bjórsoðinn sætur laukur

  • 2 tsk. ólífuolía
  • 2 tsk. smjör
  • 3 stórir laukar í þunnum sneiðum
  • 1 tsk. kúmenfræ
  • 2 msk. dökkur muscavado sykur eða dökkur púðursykur
  • 2 hvítlauksrif, marin
  • 1 flaska ljós bjór
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið olíu og smjör á pönnu og lauk.
  2. Bætið síðan kúmeni og salti út á pönnuna og steikið á meðalhita í um það bil 10 mínútur og hrært í við og við. 
  3. Dreifið sykrinum og hvítlauk  yfir og látið mallað áfram þar til laukurinn fer að karamellíserast. 
  4. Hellið þá bjórnum yfir og og látið mallað áfram í um það bil 15 mínútur eða þar til bjórinn er gufaður upp og laukurinn er dökkur á litinn.
  5.  Smakkið til með salti og pipar.

Chilisalsa

  • 2 vorlaukar, í þunnum sneiðum
  • 1 rautt chili, fínsaxað (fræin með ef þú vilt mikinn hita)
  • 2 msk. söxuð steinselja
  • 2 tsk. ólífuolía

Aðferð:

  1. Blandið öllu hráefninu saman í skál og hrærið vel saman.

Samsetning:

  1. Opnið brauðin og smyrjið þunnu lagi af smjöri inn í brauðin og grillið eða ristið, bara að innan, á þurri pönnu á háum hita, þau þurfa að fá svolítinn lit.
  2. Grillið eða steikið pylsurnar.
  3. Smyrjið síðan brauðið að innan með sterku sinnepi, leggið er pylsuna í brauðið ásamt bjórsoðna sæta lauknum og chilisalsanu.
  4. Berið fram og njótið með ísköldu drykk sem ykkur finnst bestu með pylsum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka