Subbupési uppáhaldshamborgarinn hans Huga

Hugi Rafn Stefánsson landsliðskokkur og kokkur á veitingastaðnum OTO, með …
Hugi Rafn Stefánsson landsliðskokkur og kokkur á veitingastaðnum OTO, með uppáhalds hamborgarann sinn. Ljósmynd/Anton Brink

Hugi Rafn Stefánsson matreiðslumaður á veitingastaðnum OTO sviptir hér hulunni af sínum uppáhaldshamborgara sem hann kallar Subbupésa, sem er nafn með rentu. 

Hugi er 24 ára gamall og er meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu sem gerði garðinn frægan á Ólympíuleikunum í matreiðslu í ár þegar það hlaut bronsverðlaun. Hugi veit fátt skemmtilegra en að grilla á sumrin og er iðinn við að grilla hamborgara og bera þá fram með girnilegu meðlæti sem kitlar bragðlaukana.

„Minn uppáhalds er grillaður hamborgari í kartöfluhamborgarabrauði frá Le Kock, með tvöfaldri ostablöndu af cheddar- og amerískum osti, heimagerðri beikonsultu, chipotle-majónesi, steiktum sveppum, pikkluðum rauðlauk og stökkum lauk,“ segir Hugi og bætir við að þessi borgari sé subbulega góður að njóta.

Hamborgarinn hans Huga er hinn girnilegasti með bræddri ostablöndu, beikonsultu, …
Hamborgarinn hans Huga er hinn girnilegasti með bræddri ostablöndu, beikonsultu, pikkluðum rauðlauk, steiktum sveppum og chipotle-sósu. Ljósmynd/Anton Brink

„Ég nota eingöngu hamborgarabrauðin frá Le Kock þegar ég geri hamborgara. Það eru bestu kartöflubrauðin sem þú kemst í og það er hægt að kaupa þau hjá þeim í bakaríinu Deigi,“ segir Hugi. „Síðan finnst mér ómissandi að vera með heimagerða beikonsultu og allar sósur geri ég helst sjálfur. Það er svo miklu betra að vera með heimatilbúnar sósur.“

Huga finnst langbest að borða hamborgarann með höndunum og bíta …
Huga finnst langbest að borða hamborgarann með höndunum og bíta í hann fremur en að skera hann með hnífapörum. Þannig nær hann bragðbombunni í gegn. Ljósmynd/Anton Brink

Subbupésinn hans Huga
Fyrir 2

  • 2 stk. 170 g hamborgarar að eigin vali
  • 2 kartöflubrauð frá Le Kock
  • 4 sneiðar cheddar-ostur
  • 4 sneiðar amerískur ostur
  • beikonsulta eftir smekk (sjá uppskrift)
  • chipotle-majónes eftir smekk (sjá uppskrift)
  • pikklaður rauðlaukur (sjá uppskrift)
  • stökkur laukur ef vill

Beikonsulta

  • 500 g beikon, skorið í litla bita
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 4 skalottlaukar, saxaðir
  • 2 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • ½ bolli púðursykur
  • ¼ bolli hlynsíróp
  • 1/3 bolli eplaedik
  • 1 tsk. chiliduft

Aðferð:

  1. Byrjið á því að taka til miðlungsstóran pott og setjið á hellu og hitið á miðlungshita.
  2. Setjið síðan beikonið í pottinn þegar hann hefur hitnað og steikið þar til það verður stökkt.
  3. Flytjið síðan beikonið yfir á pappírsklæddan disk.
  4. Lækkið hitann aðeins undir pottinum og bætið lauk og skalottlauk í pottinn og steikið, hrærið oft eða þar til laukurinn er karamellíseraður, um það bil 15 mínútur.
  5. Hrærið hvítlauk, púðursykri, hlynsírópi, ediki, chilidufti og soðnu beikoni saman við laukana.
  6. Látið blönduna sjóða og lækkið síðan hitann alveg niður.
  7. Eldið þar til vökvinn hefur minnkað og þykknað og laukurinn verður sultaður, tekur 7-10 mínútur. L
  8. Látið beikonsultuna kólna áður en hún er notuð.

Chipotle-sósa

  • 150 g majónes
  • 2 tsk. chipotle-mauk
  • 1 hvítlauksgeiri

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefni saman í blandara og maukið í u.þ.b. eina mínútu eða þar til sósan er slétt. Setjið í litla skál og kælið þar til fyrir notkun.

Pikklaður rauðlaukur

  • 4 rauðlaukar
  • 1 dl edik (matreiðsluedik 5%)
  • 2 dl sykur
  • 3 dl vatn

Aðferð:

  1. Setjið edik, vatn og sykur í pott og látið sjóða þar til sykurinn hefur bráðnað.
  2. Skerið rauðlaukinn í sneiðar og komið honum fyrir í passlegu íláti sem hægt er að loka og þolir hita.
  3. Hellið svo edikblöndunni yfir laukinn og setjið til hliðar.
  4. Leyfið lauknum að standa í að minnsta kosti 15 mínútur; því lengur sem hann fær að liggja í edikvökvanum, því sætari verður hann.

Steiktir sveppir

  • Flúðasveppir, magn eftir smekk
  • Salt eftir smekk
  • Ólífuolía eftir smekk og þörfum

Aðferð:

  1. Skerið sveppina í sneiðar og hitið pönnu þar til hún byrjar að ósa. S
  2. kellið þá olíu á pönnuna og bætið við sveppum ásamt salti eftir smekk.
  3. Steikið þar til þeir verða gullinbrúnir.

Hamborgararnir og samsetning:

  1. Byrjið á að gera beikonsultu, chipotle-sósu og pikklaðan rauðlauk.
  2. Næst steikið þið sveppina og loks hamborgarana.
  3. Steikið borgarana á vel heitu grilli eða vel heitri pönnu, 4-5 mínútur á hvorri hlið.
  4. Kryddið til með pipar og salti eftir smekk. Þegar þið snúið hamborgurunum við setjið þá ostsneiðarnar, tvær af hvorum osti, ofan á þá og látið bráðna.
  5. Setjið síðan hamborgarabrauðin, botninn og lokið, á hvolf á grillið og hitið aðeins.
  6. Þá setjið þið hamborgarana saman eins og þið viljið hafa þá.
  7. Gott að setja beikonsultuna á botninn og sósuna, síðan borgarann, loks pikklaða rauðlaukinn ásamt steiktum sveppum og stökkum lauk ef þið kjósið að hafa hann líka.
  8. Loks er bara að bera fram Subbupésann og njóta hvers bita!
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert