Hér kemur góð útgáfa af engifermajó fyrir engiferfólkið úr smiðju Hönnu Thordarson matgæðings með meiru sem heldur úti uppskriftavefnum Hanna.is. Majónesið er gott, einfalt að búa það til og hægt að bera það fram til að mynda með humarsalati, pasta, fiski eða grillkjöti. Þeir sem vilja hafa sterkt engiferbragð geta alveg aukið magnið af engiferinu enda gott að láta engiferið aðeins rífa í bragðlaukana.
Engifermajó að hætti Hönnu
- 90 – 120 g engifer, rifið fínt (1½ – 3 msk. engifersafi)
- 2 eggjarauður
- 1 tsk. dijonsinnep
- 2 tsk. hvítvínsedik
- 2 – 3 msk. safi úr engifer
- 3 dl góð olía
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að rífa engifer fínt niður og setjið í sigti eða grisju og kreistið safann í skál.
- Þeytið eggjarauðurnar ásamt sinnepi og hvítvínsediki. Athugið að mikilvægt er að þeyta eggjarauðurnar vel, þannig að þær verði loftkenndar áður en olíunni er hellt í.
- Hellið olíu saman við í rólegheitum í mjórri bunu á meðan eggjahræran er þeytt.
- Bætið engifersafanum við í lokin og þeytið saman við.
- Berið engifermajónesið fljótlega fram, þá er það „fluffy“ og fallegt.
- Engifermajóið geymist vel í lokuðu íláti í kæli í 2 – 3 daga en stundum þarf að fríska það upp með því að hræra aðeins í því.