Leiðin að hjartanu mínu er í gegnum mat

Kristín Amy Dyer sem er nýbökuð móðir og dolfallin áhugamanneskja …
Kristín Amy Dyer sem er nýbökuð móðir og dolfallin áhugamanneskja um mat ljóstrar upp matarvenjum sínum. mbl.is/Eyþór Árnason

Kristín Amy Dyer sem er nýbökuð móðir og dolfallin áhugamanneskja um mat sviptir hulunni af sínum matarvenjum en það er sennilega fátt sem hún spáir jafn mikið í og matur á venjulegum degi.

„Leiðin að hjartanu mínu er í gegnum mat. Það er bara svoleiðis,“ segir Kristín Amy en hún reynir eftir fremsta megni að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og telur hollt mataræði vera undirstaða þess. „Ef við nærum okkur vel, þá finnst mér það hafa keðjuverkandi áhrif á heilsuna heilt yfir. Allavega út frá sjálfri mér. Svefninn verður betri, orkustig eykst, melting batnar, verkir minnka og þar fram eftir götunum. Þess vegna kannski er ég svona rosalega upptekin af næringu en ég reyni þó alltaf að fylgja 80/20 reglunni. Þess vegna flytjum við líka inn súkkulaði, maður verður að leyfa sér aðeins.”

Sérhæfir sig í innflutningi og framleiðslu

Kristín Amy er stofnandi heildsölunnar Tropic sem sérhæfir sig í innflutningi og framleiðslu. „Þetta er meðal annars ofurfæði, súkkulaði og allskonar ljúfmeti sem er fáanlegt í völdum verslunum Hagkaup og Krónunnar. Nýjasta varan hjá Tropic er hágæða plöntuprótein sem var að koma á markað og eru viðtökurnar fara fram úr björtustu vonum,“ segir Kristín Amy og er virkilega ánægð hve vel hefur gengið.

Kristín Amy svar­ar hér nokk­rum spurn­ing­um um mat­ar­venj­ur sín­ar sem gef­ur les­end­um inn­sýn í hennar lífsstíl.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Það er mjög misjafnt en morgunmatur er klárlega uppáhaldsmáltíðin mín. Hér eru nokkrar útfærslur af morgunmat á mínu heimili:

  • Hrein grísk jógúrt blandað við Tropic vanilluprótein toppað með lífrænu granóla, kakónibbum, hempfræjum, bönunum og jarðarberjum.
  • Hafragrautur úr lífrænum tröllahöfrum með kakó, reishidufti, kanil og chiafræjum. Toppað með kókosflögum, frosnum bláberjum og möndlusmjöri.
  • Ristað súrdeigsbrauð með avókadó, smá sítrónu eða límónusafa og örlítið sjávarsalt.“

Þeytingur er vinsæll í millimál hjá mér

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Já, ég geri ekki annað en að borða að mér finnst. Eins og mamma sagði við mig í einni utanlandsferðinni sem við fórum í til Póllands: „Það eina sem þú hugsar um er matur. Við erum nýbúnar að borða og þá er farið að spá í næstu máltíð,“ segir Kristín Amy og hlær.

„Þeytingur er vinsæll í millimál hjá mér. Grunnurinn er iðulega banani, frosin ber, frosnir mangóbitar, frostþurrkað lífrænt acaíduft. Þú heyrðir það fyrst hér, í haust munum við kynna til leiks nýtt lífrænt acaíduft. Stundum skipti ég út ávöxtum fyrir grænkál, spínat eða avókadó og yfirleitt bæti ég við ofurfæði á borð við Turkey Tail, Lion’s Mane, macarót eða öflugt grænfæði á borð við spírulínu, hveitigras, bygggras og moringa. Ég reyni að halda þessu frekar fjölbreyttu dag frá degi en eitt er alveg víst, ég elska að koma þessu í kroppinn. Matcha latte er síðan mjög gott millimál en það finnst mér gefa góðan fókus og jafnari orku yfir daginn. Eftir kvöldmat á ég það til að fá mér túrmerik latte sem inniheldur líka ashwagandha, engifer, svartan pipar og kanil. Finnst það gera heilmikið fyrir svefninn hjá mér.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Mér finnst bara allar máltíðir vera ómissandi og eiginlega millimálin líka. Það koma stundum kaflar þar sem maður er á haus og gleymir kannski að borða en þegar blóðsykurinn hrynur þá getur maður stundum verið svo gott sem gagnslaus.“

Án efa staðurinn hans Gordon Ramsay

Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?

„Ég held það sé án efa Au Trianon staðurinn hans Gordon Ramsay í Waldorf Astoria, Versailles. Aldrei upplifað mig eins og jafn mikla prinsessu áður. 9 rétta seðill með vínpörun og ekkert smá rómantískt útsýni yfir 800 hektara garð og Versailles höllina. Eftir kvöldmatinn fórum við í garðinn bak við höllina þar sem var sinfónía og gosbrunna- og flugeldasýning. Daginn eftir fórum við á Phil Collins tónleika. Þetta planaði ég fyrir mig og mömmu mína. Sjáum hvort að framtíðarmaðurinn minn toppi þetta einn daginn,“ segir Kristín Amy og hlær.

Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?

„Ég elska bæði. Að kveikja á Frank Sinatra og elda eða baka er ákveðin hugleiðsla fyrir mér. Gerir svo mikið fyrir sálartetrið. Ætli ég segi samt ekki bara að baka og hvað þá þegar fyrsti desember er genginn í garð. Einmitt þá, á afmælisdegi dóttur minnar, leyfi ég mér að hlusta á jólalögin hans Frank Sinatra. Er eitthvað betra?“

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á Bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Veistu, ég er svo mikill „wine og dine“ unnandi að ég vil helst bara heimsækja þá alla. Áður en ég fer í utanlandsferðir þá er ég búin að grandskoða bestu kostina og bóka borð á nokkrum stöðum. Það er einn staður samt á Íslandi sem mig dauðlangar að prófa, það er ÓX. Ég vona að Þráinn lesi þetta.“

Uppáhaldsrétturinn þinn?

„Það var mjög góður linsubaunaréttur með kartöflumús sem sigraði hjartað mitt svolítið á dögunum. Minnir svolítið á stroganoff nema bara með linsubaunagrunn. Annars á ég mjög erfitt með að ákveða einn rétt, ég bara elska heiðarlegan heimilismat. Draumurinn er að verða jafn flink í eldhúsinu og Hildur Ómars matarbloggari og Ólöf hjá Grænkerum.“ 

Garðurinn við Klapparstíg

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Þegar stórt er spurt. Uppáhaldsstaðurinn minn er sennilega Garðurinn að Klapparstíg 37 í miðborginni en þegar ég fer eitthvað fínt út að borða þá elska ég Monkeys, Tapas Barinn og Tres Locos. Þetta eru bara svo miklir stemningsstaðir fyrir svona stemningskonu, sjáðu til. Plöntuúrvalið á Sumac er síðan alveg til fyrirmyndar.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Súrkál, grænar ólífur, lífræn epli, sætar kartöflur og þistilhjörtu. Mamma segir að það sé eins og ég hafi verið alin upp á öðru heimili. Þetta var aldrei í ísskápnum þegar ég ólst upp, nema jú kannski epli.“

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

„Bestu pítsurnar eru klárlega á Eldofninum í Grímsbæ og þar fæ ég mér þistilhjörtu, grænar ólífur, sveppi og döðlur. Það eru nokkrir starfsmenn þar sem þekkja mig og þegar þau eru að vinna þá segi ég: „Ég ætla fá eina Amy Spes.”

Hvað færð þú þér á pylsuna þín?

„Það er smá spaugsmál á meðal vina minna hve mikið óbeit ég hef á SS pylsum eða bara hreinlega pylsum yfir höfuð. Ef það bæri þannig að að ég myndi fá mér pylsu, þá væri það vegan pylsa með steiktum lauk og tómatsósu undir og síðan þunn lína af sinnepi ofan á.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?

„Eins mikið og ég elska bæði að þá myndi ég sennilega alltaf velja sætar kartöflur skornar í bita og bakaðar í ofni með ólífuolíu, salti og pipar,“ segir Kristín Amy með bros á vör.

Kristín Amy lifir ekki eftir neinum boðum og bönnum þegar …
Kristín Amy lifir ekki eftir neinum boðum og bönnum þegar kemur að mataræði. mbl.is/Eyþór Árnason

Lifi ekki eftir neinum boðum og bönnum

Kristín segist vera mjög opin fyrir að prófa alls konar og ekki lifa eftir neinum boðum og bönnum.

„Eins og sjá má legg ég mikla áherslu á plöntumiðað mataræði en lifi þó ekki eftir neinum boðum og bönnum. Við erum öll jafn misjöfn og við erum mörg og mikilvægast finnst mér að mynda jákvætt samband við mat og að vera ekki að stressa sig of mikið. Á dögunum gerði ég mikla tiltekt á mínum samfélagsmiðlum þar sem ég taldi upplýsinga óreiðuna um ýmis matvæli vera algjöra. Hvort sem þú fáir þér pasta, ís eða salat, að þá á manni alltaf skilið að líða vel. Munum bara 80/20 regluna og kannski að velja lífræn eða lítið unnin matvæli ef þess gefst kostur,“ segir Kristín Amy að lokum og er þegar farin að huga að næstu máltíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert