Bakaður hvítlaukur í pottalingi góður við kverkaskít

Bakaður hvítlaukur gerir margan mat miklu betri.
Bakaður hvítlaukur gerir margan mat miklu betri. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Þessi eldunaraðferð á hvítlauk er tær snilld en Hanna Thordarson, keramiker og ástríðukokkur, bakar hvítlaukinn í lokuðu íláti í ofni. Ílátið sem hún notar kallar hún pottaling en það er pottur sem hún hannaði og gerði sjálf. Aðferðina við eldunina þróaði hún því það eru ekki allir í fjölskyldu hennar sem líka við hvítlaukinn, finnst hann bæði vera of bragðsterkur og illa lyktandi. 

Slurkur af bökuðum hvítlauk gerir margan mat betri

„Þá er þessi leið kærkomin til að milda hann, með því að baka hann í ofni í lokuðu íláti og þá kemur pottalingurinn sterkur inn. Þegar hvítlaukurinn hefur bakast í ofninum verður hann bæði mjúkur og mildur. Hægt er að nota hann í ýmsa matargerð eða ofan á brauð. Slurkur af bökuðum hvítlauk gerir margan mat betri, möguleikarnir eru endalausir og frábært að eiga smá gums í kælinum,“ segir Hanna með bros á vör.

Hanna segist geta notað hvítlaukinn í fjölmarga rétti, meðal annars á pítsuna, í pastað, í hvítlauksolíuna, í ídýfuna svo fátt sé nefnt. Svo er hvítlaukurinn afar góður til að njóta þegar fólk finnur fyrir kvefi eða líður eins og það sé að fá flensu. „Ég gef mínu fólki iðulega hvítlauk þegar það er með kverkaskít og það svínvirkar.“

Þá er ráð að fá sér hvítlauk og baka hann með þessum hætti og bera hann fram með því sem hugurinn girnist.

Bakaður hvítlaukur

  • 1 ferskur hvítlaukur
  • Góð olía eða klípa af smjöri
  • Saltflögur
  • Nýmalaður pipar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C (með yfir- og undirhita).
  2. Snyrtið hvítlaukinn aðeins og skerið ofan af toppnum (u.þ.b. ¼ skorinn af) – sjá mynd fyrir neðan. 
  3. Setjið í pottaling eða annað eldfast ílát með loki.
  4. Hellið olíu yfir eða setjið klípu af smjöri, stráið síðan saltflögum yfir. 
  5. Leggið toppinn sem var skorinn af til hliðar.
  6. Setjið lok á pottinn/ílátið og setjið inn í ofninn. 
  7. Bakið í 40 – 70 mínútur, eldunartíminn er svolítið háður stærð hvítlauksins.
  8. Takið pottinn (eða ílátið) út og látið kólna.
  9. Hönnu finnst gott að hella smjörinu/olíunni, sem er í botninum á pottinum, yfir hvítlaukinn.
  10. Þegar hvítlaukurinn er orðinn kaldur megið þið nota subbulegri aðferðina og kreista hann með höndunum eða þá snyrtilegri og taka hvítlauksgeirana úr með skeið.
  11. Hægt að hræra gumsinu saman þannig að úr verði mauk.
  12. Notið hvítlaukinn í það sem hugurinn girnist.
Sniðugur þessi pottalingur sem Hanna hannaði og gerði. Fullkominn til …
Sniðugur þessi pottalingur sem Hanna hannaði og gerði. Fullkominn til að baka hvítlauk í ofni. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert