Hvítlauks- og smjörsteiktir portobello sveppir að hætti Sjafnar

Hvítlauks- og smjörsteiktir portobello sveppir sem bráðna í munni, svo …
Hvítlauks- og smjörsteiktir portobello sveppir sem bráðna í munni, svo gott. Samsett mynd/Sjöfn

Mínir uppáhaldssveppir og í raun þeir sem ég matreiði helst eru portobello sveppir. Þeir eru einstaklega bragðgóðir og líka svo fallegir fyrir augað. Þeir eru góðir sem meðlæti en ég matreiði líka stundum fyllta portobello sveppi. Jafnframt hef ég líka notað þá í staðinn fyrir hamborgarabrauð og útbúið lúxussteikarborgara framreiddan í steiktum portobello sveppi.

Á dögunum var ég með grillaðar lambalundir sem ég framreiddi á salatbeði sem ég lagði á náttúrusteinn. Í meðlæti bauð ég meðal annars upp á steikta portobello sveppi og skreytti þá með ætisblómum. Hreint sælgæti að njóta og mikið augnakonfekt. Enda kláruðust þeir á augabragði. Það tekur örskamma stund að steikja portobello sveppi og bera þá fallega fram.

Gaman er að skreyta réttinn með ætisblómum og ferskri steinselju.
Gaman er að skreyta réttinn með ætisblómum og ferskri steinselju. Ljósmynd/Sjöfn

Hvítlauks- og smjörsteiktir portobello sveppir

  • 3 stk. portobello sveppir
  • 2-3 litlir hvítlaukar, fást í körfunum
  • Smjör eftir smekk
  • Svartur pipar eftir smekk
  • Örlítið salt eftir smekk
  • Fersk steinselja til skrauts ef vill
  • Ætisblóm til skrauts ef vill

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sneiða portobello sveppina í fallegar sneiðar.
  2. Takið til góða pönnu og hitið yfir meðalhita og bræðið smjör á, gott að vera með mikið smjör.
  3. Þegar smjörið er farið að bulla, setjið sveppina á pönnuna og byrjið að steikja.
  4. Snúið sneiðunum við eftir um það bil 2-3 mínútur.
  5. Skerið hvítlaukana og setjið í hvítlaukspressu og merjið niður og stráið yfir sveppina á pönnunni.
  6. Kryddið sveppina með svörtum pipar og örlitlu salti.
  7. Þegar þeir eru orðnir fallegir á litinni og steiktir fyrir ykkar smekk, raðið þeim þá fallega á disk eða viðarbretti og skreytið með ætisblómum og ferskri steinselji ef vill.
  8. Ef þið eigið svart salt er upplagt að strá aðeins yfir þá, gefur gott bragð og áferð.
  9. Njótið með því sem ykkur langar í.   
Portobello sveppirnir eru einstaklega bragðgóðir og fallegir.
Portobello sveppirnir eru einstaklega bragðgóðir og fallegir. Ljósmynd/Sjöfn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert