Krónan bregst við kalli í uppsveitum Árnessýslu

Krónan ætlar að svara kalli úr uppsveitum Árnessýslu, meðal annars …
Krónan ætlar að svara kalli úr uppsveitum Árnessýslu, meðal annars á Flúðum, vegna hás vöruverðs í verslunum þar með heimsendingarþjónustu. mbl.is/Sigurður Bogi

Krónan ætlar að svara kalli úr uppsveitum Árnessýslu vegna hás vöruverðs í verslunum þar með heimsendingarþjónustu. Frá og með septemberbyrjun verður hægt að setja inn pantanir í snjallverslun keðjunnar og fá vörur sendar heim á Flúðum, í Reykholti og Laugarási í Bláskógabyggð. Eyrarbakki, Stokkseyri og Tjarnarbyggð í Árborg bætast svo við undir lok september í heimsendingarþjónustu þessari, sem gerð verður frá Selfossi.

Mögulega hægt að fá grillkjöt og fleira gott í sumarbústaðinn

„Það er aldrei að vita hvort að við útvíkkum þessa þjónustu enn frekar ef móttökur á Suðurlandi reynast góðar. Mögulega verði hægt að fá vörurnar sendar beint í sumarbústaðinn, grillkjöt og fleira gott,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Óánægja hefur lengi verið á Flúðum með verðlagningu þá sem þar er í verslun Samkaupa. Guðrún segir að lengi hafi verið óskað eftir því að Krónan opni lágvöruverðsverslun í uppsveitum, en aðstæður séu metnar sem svo að slíkt sé ekki raunhæft. Möguleiki á pöntunum á netinu og heimsending á vörum sé hins vegar kostur í stöðunni og reynslan þar sé góð. Þannig sendi Krónan vörur frá verslun sinni á Akureyri til viðskiptavina í þéttbýlisstöðum við Eyjafjörð og Húsavík. Sama sé gert á Austfjörðum en þar er Krónubúð á Reyðarfirði. Þetta sé módelið sem nú verði keyrt eftir á Suðurlandi.

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að það sé aldrei að …
Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að það sé aldrei að vita nema þau muni útvíkka þessa þjónustu enn frekar ef móttökur á Suðurlandi reynast góðar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert