Skinkuhorn með sinnepi og lauk í nestisboxið

Skinkuhornin hennar Andreu Gunnars eru góð hugmynd að nesti.
Skinkuhornin hennar Andreu Gunnars eru góð hugmynd að nesti. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg

Nú eru skólarnir að fara á fullt og hefðbundin rútína að hefjast á flestum heimilum eftir sumarfrí. Þá er gott að fá góðar nestishugmyndir, hvort sem það er fyrir börnin til að taka með í skólann eða fullorðna fólkið til að taka með í vinnuna. Næstu vikurnar er ætlunin að deila með lesendum Matarvefsins girnilegum uppskriftum að nesti. Andrea Gunnarsdóttir matarbloggari með meiru sem heldur úti uppskriftasíðunni Andrea Gunnars ætlar að byrja á því að opna uppskriftasafnið sitt fyrir lesendum og mun reglulega deila með lesendum góðum uppskriftum að nesti.

Heimilisfræði var mitt uppáhaldsfag

Andrea ástríðukokkur og býr í Laugardalnum ásamt sambýlismanni mínum. „Ég er stjórnmálafræðingur að mennt en hef alla tíð haft óbrennandi áhuga á eldamennsku, alveg síðan ég var barn og var heimilisfræði mitt uppáhaldsfag í grunnskóla. Það stóð aldrei til að byrja með matarblogg en eftir mikla hvatningu frá vinum og ættingjum ákvað ég að slá til og byrja að blogga, enda finnst mér alveg ótrúlega gaman að elda góðan mat, búa til uppskriftir og taka huggulegar matarmyndir og miðla til annarra,“ segir Andrea með bros á vör.

Mamma bjó þau alltaf til

Fyrsta nestisuppskriftin sem Andrea deilir með lesendum er að skinkuhornum með sinnepi og lauk. „Þessi skinkuhorn eru mjög vinsæl í minni fjölskyldu, mamma bjó þau alltaf til þegar við fórum í sumarbústað og útilegur og ég hef lagt í vana minn að gera það líka,“ segir Andrea og bætir við að þau séu einmitt tilvalin til að taka með útilegur, lautarferðina og sumarbústaðinn líkt og taka þau með í nesti í skólann eða vinnuna.

Skinkuhorn með sætu sinnepi og lauk

Brauðdeig

  • 900 g hveiti
  • 60 g sykur
  • ½ tsk. salt
  • 100 g smjör, brætt
  • ½ l mjólk
  • 1 pk. þurrger 

Aðferð:

  1. Hitið mjólkina í potti á vægum hita.
  2. Bætið smjörinu út í og látið það bráðna saman við mjólkina.
  3. Bætið þurrgerinu og sykri í pottinn, takið hann af hitanum og látið standa í nokkrar mínútur.
  4. Blandið hveiti og salti saman í skál og bætið mjólkurblöndunni saman við.
  5. Hnoðið í deig og látið hefast undir viskastykki í 50 mínútur.
  6. Hnoðið þá deigið aftur og látið standa í 30 mínútur til viðbótar.

Fylling

  • 400 g rifinn ostur
  • 3 pk. silkiskorin skinka
  • 1-2 dl sætt sinnep, gott að nota franskt sinnep
  • 1 laukur, skorinn smátt
  • 1 egg, til að pensla með
  • Sesamfræ

Aðferð:

  1. Blandið saman rifnum osti, sinnepi og lauk.
  2. Skiptið deiginu í sirkað 5 hluta og fletjið út í hringi.
  3. Skerið hvern hring í 8 sneiðar með pítsaskera.
  4. Setjið silkiskorna skinku og ostablöndu á hverja sneið og rúllið upp.
  5. Raðið á bökunarplötur sem klæddar hafa verið með bökunarpappír.
  6. Penslið hornin með upphrærðu eggi og stráið sesamfræjum yfir.
  7. Bakið við 200°C hita í 10-12 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert