Þríeykið á leið út á Norðurlandamótið í bakstri

Þau skipa landslið íslenskra bakara fyrir Norðurlandamótið í ár Finnur …
Þau skipa landslið íslenskra bakara fyrir Norðurlandamótið í ár Finnur Prigge, Sunneva Kristjánsdóttir og Matthildur Ósk Guðbjörnsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Nú stendur undirbúningur fyrir Norðurlandamótið í bakstri, Nordic Cup, sem hæst en íslenska liðið er skipað þremur ungum og hæfileikaríkum bökurum sem hafa gert garðinn hér heima. Mótið fer fram í Þýskalandi, nánar tiltekið í Berlín dagana 29. og 30. ágúst næstkomandi. Ástæðan fyrir staðsetningunni er sú Þýskaland hefur mjög góða aðstöðu fyrir mót að þessu tagi auk þess sem þá eru allir keppendur jafnir og enginn á heimavelli.

Liðið skipað ungum og hæfileikaríkum bökurum

Liðið eins og áður hefur komið fram er skipað ungum og hæfileikaríkum bökurum, en þetta er liða keppni og skipar hvert lið þrjár einstaklinga. Íslenska liðið er skipað þeim Finn Prigge, Matthildi Ósk Guðbjörnsdóttur og Sunnevu Kristjánsdóttur.

Finn­ur varð Íslands­meist­ari ungra bak­ara, aðeins 18 ára gam­all, sem er stór­kost­leg­ur ár­ang­ur. Einnig gerðu hann og Matthías sem einnig hefur verið í íslenska bakaralandsliðinu, sér lítið fyr­ir og hlutu fjórða sæti í heims­meist­ara­keppni ungra bak­ara í Berlín árið 2022. Finnur hlaut viður­kenn­ingu fyr­ir framúrsk­ar­andi ár­ang­ur í keppni í bak­araiðn á Evr­ópu­móti iðn-, verk- og tækni­greina, Euroskills, sem hald­in var í Gdansk í Póllandi í sept­em­ber síðastliðnum. Finn­ur keppti jafnframt á heims­meist­ara­móti bak­ara sem var haldið október á síðasta ári í München. Hann hefur því mikla reynslu að því að keppa í bakstri og býr vel að þeirri reynslu og þekkingu. Finnur stefnir á konditor nám í Danmörku í náinni framtíð.

Finnur Prigge bakari.
Finnur Prigge bakari. mbl.is/Árni Sæberg

Matthildur útskrifaðist sem bakari og kláraði sveinsprófið í lok maí á þessu ári með glæsibrag. Matthildur var á samningi hjá Gulla Arnari Bakarí í Hafnarfirði hefur notið þess að töfra fram kræsingar þar. Núna eftir útskrift er hún orðinn yfirbakari brauðdeildar hjá Gulla og er á leið í meistaranám bakstursiðn í Menntaskólanum í Kópavogi í haust.

Matthildur Ósk Guðbjörnsdóttir bakari.
Matthildur Ósk Guðbjörnsdóttir bakari. mbl.is/Árni Sæberg

Sunneva útskrifaðist sem bakarasveinn í maí á þessu ári frá Menntaskólanum í Kópavogi og var á samningi hjá Sandholt bakarí allan námsferilinn. Eftir sumarið er hún í leit að nýjum og skemmtilegum tækifærum og stefnir á að fara út í skóla í janúar.

Sunneva Kristjánsdóttir bakari.
Sunneva Kristjánsdóttir bakari. mbl.is/Árni Sæberg

Hafa æft að krafti síðustu daga

Þetta eru frábært teymi sem er á leið út og þeirra bíður ærið verkefni en á síðasta ári var Ísland í öðru sæti á Norðurlandamótinu sem er besti árangur Íslands hingað til. „Við erum mjög spennt og bjartsýn fyrir þátttöku okkar í þessari keppni og undirbúningurinn gengur mjög vel. Við stefnum að sjálfsögðu að því að ná langt,“ segir Finnur.

Finnur segir keppnina vera þaulskipulagða og öll liðin verði að vinna eftir ákveðnu þema. „Þemað í keppninni í ár er náttúra og við reyna við að tengja vörurnar, bakkelsið og skrautstykkið við þemað eins og við getum,“ segir Finnur.

„Þetta er þó nokkur slatti sem við eigum að framleiða á átta og hálfri klukkustund en við fáum eina og hálfa klukkustund  fyrir undirbúning fyrri daginn og sjö klukkustundir seinni daginn. Við eigum að framleiða 17 mismunandi vörutegundir sem verða í heildina í kringum  230 vöruleiðir svo er að sjálfsögðu skrautstykkið sem á að vera 100x100 cm á breidd og 100 – 140 cm að stærð,“ segir Matthildur með bros á vör.

Undirbúningur hjá liðinu stendur sem hæst þessa dagana.
Undirbúningur hjá liðinu stendur sem hæst þessa dagana. mbl.is/Árni Sæberg

Liðsheildin mikilvæg

Þríeykið er samheldið og hefur æft að krafti síðustu daga. Þau eru meðvituð um hversu miklu máli skiptir að standa saman og vinna sem liðsheild.

„Þar sem þetta er liðakeppni er mjög mikilvægt að vinna vel í hóp. Síðan er náttúrulega aðalatriðið að hafa gaman að ferlinu, æfingaferlið fyrir þessa keppni er ekki langt eða um það bil mánuður af stífum æfingum og þá skiptir máli að vera skipulögð. Einnig er nauðsynlegt að vera skapandi og að vera ekki hræddur við að prufa eitthvað nýtt,“ segir Sunneva að lokum.

Það verður spennandi að fylgjast með þessum glæsilegu fulltrúum bakarastéttarinnar í komandi keppni og Matarvefur mbl.is óskar liðinu gæfu og góðs gengis í Berlín.

Allt er þaulhæft og tímamæling á öllu.
Allt er þaulhæft og tímamæling á öllu. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert