Undursamlega gott kjúklingasalat

Þetta litríka og ljúffenga kjúklingasalat sló í gegn á mínu …
Þetta litríka og ljúffenga kjúklingasalat sló í gegn á mínu heimili á dögunum. Ljósmynd/Sjöfn

Matarmikil og bragðgóð kjúklingasalöt njóta mikilla vinsælda á mínum heimili. Ég hef gert alls konar útgáfur af kjúklingasalati og hef mjög gaman að blanda saman ólíku hráefni, eins og grænmeti, ávöxtum svo fátt sé nefnt. Ég gerði þetta undursamlega góða kjúklingasalat síðustu helgi og það hvarf hratt úr skálinni. Að þessu sinni blandaði ég saman salati, kjúkling, pasta og harðsoðnum eggjum ásamt öðru góðgæti. Þetta passaði mjög vel saman og með salatinu bauð ég upp á salatdressingu sem á einstaklega vel með pasta og salati. Í henni er lífrænt vanillujógúrt og svo líka mjög gott að nota grískt jógúrt. Ég setti reyndar syndsamlega góða mini chili-pipar sem mér áskotnaðist í Suður Frakklandi út í salatið og mikið var hann góður í salatinu. Hann sést á myndinni og leyfi honum því að vera með í uppskriftinni. Það er hægt að nota íslenska eldpipar í staðinn og velja þá gula og rauðan og skera smátt.

Kjúklingasalat með eggjum og pasta

  • 800 g kjúklingabringur/ eða kjúklingalundir
  • 250 g skrúfupasta
  • 1 haus rautt blaðsalat frá Sól
  •  1 pk. blandað salat frá Vaxa
  • 3-4  litlir rauðlaukar
  • 3 harðsoðin egg
  • 30 – 40 g muldar kasjúhnetur
  • Ferskar sprettur frá Vaxa ef vill
  • 1 krukka salatostur
  • Ætisblóm ef vill
  • 1 krukka salatostur
  • Ferskt kóríander frá Vaxa ef vill
  • Rauður og gulur mini chilipipar frá Frakklandi (ekki til hér á landi, fékk í Suður Frakklandi)
  • Ólífuolía
  • Krydd lífsins  ef til vill eða annað krydd sem passar vel með kjúkling

Aðferð:

  1. Skerið kjúklinginn niður í strimla og steikið upp úr olíu á meðalheitri pönnu og kryddið  til með kryddum að eigin vali.
  2. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn, takið hann þá til hliðar með salatið er útbúið.
  3. Má líka steikja bringurnar í heilu lagi og skera þegar búið er að steikja þær.
  4. Sjóðið pastaskrúfurnar samkvæmt leiðbeiningum á pakka og skolið eftir suðu með köldu vatni og látið kólna.
  5. Skerið annað hráefni í salatið niður og setjið í fallega skál, blandið síðan öllu saman í skálina, líka kjúklingnum og pastaskrúfunum.
  6. Gaman að raða þessu fallega í skálina og hafa eggin ásamt ætisblómum og sprettum efst.
  7. Berið salatið með salatdressingu að ykkar smekk. Ég notaði dressingu með lífrænu vanillujógúrti með þessu salati.

Salatdressing

  • 250 g lífrænt vanillujógúrt eða hreint grískt jógúrt
  • 2-3 msk. hvítvínsedik
  • 1 tsk. sítrónusafi úr ferskri sítrónu
  • 1 msk. fersk steinselja, smátt skorin
  • 2-3 hvítlauksrif marin, má sleppa ef vill
  • Hvítur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja jógúrt í skál og hrærið vel.
  2. Merjið hvítlauksrifin og setjið síðan allt hráefnið saman við jógúrtina og pískið vel saman Geymið í kæli fram að notkun.
  3. Skreytið með ferskri steinselju ef vill.
Gaman að leika sér með hráefnið í kjúklingasalatið og bera …
Gaman að leika sér með hráefnið í kjúklingasalatið og bera það fallega fram. Ljósmynd/Sjöfn
Jógúrtsósa með hvítvínsediki passar vel með þessu salati.
Jógúrtsósa með hvítvínsediki passar vel með þessu salati. Ljósmynd/Sjöfn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka