Haustlegt bananabrauð með döðlum

Girnilegt bananabrauð með döðlum sem gleður á fallegum haustkvöldum.
Girnilegt bananabrauð með döðlum sem gleður á fallegum haustkvöldum. Ljósmynd/Þórdís ´Ólöf Sigurjónsdóttir

Þetta bananabrauð er uppáhalds hjá fjölskyldunni hennar Þórdísar Ólafar Sigurjónsdóttur hjá Grænkerum  en yngstu fjölskyldumeðlimunum finnst gaman að taka þátt í bakstrinum með móður sinni. Í haustbyrjun er upplagt að baka bananabrauð og ekki skemmir fyrir að hægt er að nýta banana sem ekki ganga út í baksturinn áður en þeir verða skemmdir.

„Mér finnst mikilvægt að halda hvítum sykri í lágmarki og bananabrauð er frábær byrjunarreitur fyrir af-sykurvæðingu. Það er nefnilega svo mikil sæta í banönum og algjör óþarfi að setja fleiri hundruð grömm af sykri og púðursykri til viðbótar. Í staðinn legg ég til að nota döðlur en þær gefa ekki aðeins sætu heldur hafa ýmis jákvæð heilsufarsleg áhrif, svo sem á bein, meltingu og á jafnvel við barnsburð,“ segir Þórdís.

Kjúklingabaunasafi galdrahráefni

Galdurinn við uppskriftina segir Þórdís vera tvennt, annars vegar kjúklingabaunasafann (e. aquafaba) en hann fæst með því að sigta safann frá kjúklingabaunum í dós. „Kjúklingabaunasafi er algjört galdrahráefni í vegan bakstri og getur komið í stað eggja. Magnaðasta dæmið um notkun þess hráefnis er að með því að þeyta kjúklingabaunasafa með sykri má gera vegan marens,“ segir Þórdís. Hins vegar er hitt atriðið að blanda sítrónusafa við plöntumjólk og leyfa því að blandast saman en sýran hjálpar til við lyftingu og gerir brauðið mýkra.

Fátt er betra en ylvolgt, nýbakað bananabrauð.
Fátt er betra en ylvolgt, nýbakað bananabrauð. Ljósmynd/Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir

Haustlegt bananabrauð

  • 1 dl kjúklingabaunasafi, safinn sigtaður frá kjúklingabaunum í dós
  • 2 dl mjúkar döðlur
  • 2/3 dl brauðlaus olía, t.d. avókadóolía
  • 3 stk. vel þroskaðir bananar
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1 dl ósæt plöntumjólk
  • safi úr hálfri sítrónu
  • 3 dl hveiti
  • 1 dl haframjöl
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. kanill, mæli með ceylon kanil
  • 1/2 tsk. salt

Aðferð:

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 170° C blástur.
  2. Þeytið kjúklingabaunasafann í 1-2 mínútur. Bætið stöppuðum döðlum saman við ásamt olíunni og þeytið örlítið lengur (ég notaði matvinnsluvél í að þeyta og mauka).
  3. Bætið nú þremur þroskuðum banönum (stöppuðum) saman við ásamt vanilludropum og hrærið.
  4. Í annarri skál er plöntumjólkinni hrært saman við sítrónusafann og látið standa þar til mjólkin hefur þykknað.
  5. Blandið nú þurrefnunum saman í stórri skál. Bætið vökvanum úr hinum tveimur skálunum saman við og hrærið varlega með sleikju (ekki hræra of lengi því þá getur brauðið orðið seigt).
  6. Smyrjið form með olíu eða klæðið með smjörpappír. Ef þið notið olíu mæli ég með að strá haframjöli yfir til að tryggja að brauðið festist ekki við.
  7. Setjið deigið í formið og skreytið að vild. Ég notaði banana sem var skorinn langsum en eins er fallegt að strá grófu haframjöli yfir.
  8. Bakið í 40-50 mínútur eða þar til brauðið er bakað í gegn.
  9. Berið fram volgt með því sem hugurinn girnist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert