Haustsalatið sem er að gera allt vitlaust

Girnilegt haustsalat sem er að slá í gegn þessa dagana.
Girnilegt haustsalat sem er að slá í gegn þessa dagana. Ljósmynd/Jana Steingrímsdóttir

Þetta frábæra haustsalat er að gera allt vitlaust þessa dagana og kemur úr smiðju Jönu Steingrímsdóttur heilsumarkþjálfa sem heldur úti sínum eigin uppskriftavef hér ásamt þessari Instagram-síðu þar sem hún deilir með fylgjendum sínum girnilegum uppskriftum. Nú er uppskerutími og íslenska blómkálið fer á kostum í verslunum og það er einmitt íslenskt blómkál í þessu salati ásamt nýju fersku salati og sprettum sem kitlar bragðlaukana. Salatið er matarmikið og skemmtileg samsetning af hráefnunum sem trylla bragðskynið. Salatið er líka gott daginn eftir og nýtist vel.

Íslenska blómkálið passar ákaflega vel í þetta salat.
Íslenska blómkálið passar ákaflega vel í þetta salat. Ljósmynd/Jana Steingrímsdóttir

Haustsalat að hætti Jönu

Hráefnið í salatið sem þarf að baka í ofni

  • ½-1 íslenskur blómkálshaus, skorin i lítil blóm
  • ½-1 sæt kartafla, skorin i litla bita
  • 1 krukka soðnar kjúklingabaunir (vatninu hellt af og baunir skolaðar)
  • Smá ólífuolía
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 2-3 msk. grænmetiskryddblanda að eigin vali

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 200°C.
  2. Blandið öllu hráefninu saman í ofnskúffu, hellið ólífuolíu yfir og kryddið grænmetið eftir smekk og blandið vel saman.
  3. Setjið ofnskúffuna inn í ofn og bakið í um það bil 25 mínútur eða þar til grænmetið er orðið vel gullið.
  4. Setjið síðan það sem eftir er af hráefninu sem fer í salatið í skál á meðan blómkálið og sæta kartaflan bakast inni í ofni. Sjá hér fyrir neðan.

Haustsalat

  • 1-2 handfylli af blönduðu salati að eigin vali
  • 1 epli, skorið í litla bita
  • 4 msk. pekanhnetur / eða aðrar hnetur sem þið elskið
  • 4 msk. salatostur
  • 2 msk. sólþurrkaðir tómatar, smátt saxaðir
  • Handfylli af sprettum að eigin vali
  • 15 g ferskt basil, saxað gróft
  • 15 g fersk steinselja, söxuð gróft

Aðferð:

  1. Öllu er blandað saman í skál, ásamt bakaða grænmetinu þegar það er tilbúið.


Dressing fyrir blómkáls- og sætkartöflusalat

  • 1/3 bolli góð ólífuolía
  • 1 límóna, safinn
  • 1 msk. hlynsíróp eða hunang
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 3 msk. hempfræ

Aðferð:

  1. Hrærið öllu hráefninu vel saman og útbúið dressinguna.
  2. Hellið síðan yfir salatið.
  3. Blandið öllu vel saman.
  4. Berið fram á fallegan hátt og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert