Ljúffeng smjördeigsbaka með ítölsku ívafi

Girnileg smjördeigsbaka með tómötum, ferskum mozzarellaosti og basilpestói.
Girnileg smjördeigsbaka með tómötum, ferskum mozzarellaosti og basilpestói. Ljósmynd/Valla Gröndal

Hér er á ferðinni ljúffeng smjördeigsbaka með tómötum, ferskum mozzarella og basilpestó sem bráðnar í munni. Heiðurinn af uppskriftinni á Valgerður Gréta Gröndal, betur þekkt undir gælunafninu Valla, en hún heldur úti sínum eigin uppskriftavef hér. Þessa böku er ótrúlega einfalt að útbúa og hún er fullkomin sem léttur hádegisverður eða forréttur þegar góða gesti bera að garði. Það tekur enga stund að útbúa hana og er gullfalleg á borði. Valla segir að innblásturinn fyrir bökuna hafi hún fengið frá ítalska sígilda forréttinum caprese salati þar sem ferskum mozzarella, tómatsneiðum og ferskri basilíku er raðað saman og mynda þannig ítölsku fánalitina.

Fersk basilíka er ávallt góð með mozzarellaosti og tómötum.
Fersk basilíka er ávallt góð með mozzarellaosti og tómötum. Ljósmynd/Valla Gröndal

Smjördeigsbaka með tómötum, ferskum mozzarella & basilpestó

  • 1 rúlla smjördeig (275 g)
  • 1 egg
  • 100 g basilpestó
  • 5 tómatar
  • 2 ferskar mozzarellakúlur
  • Feykir ostur
  • 3 msk. furuhnetur, ristaðar
  • Sjávarsalt í flögum
  • Fersk basilíka

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 200°C blástur.
  2. Skerið tómatana í sneiðar og leggið á eldhúsbréf.
  3. Stráið salti yfir sneiðarnar og leggið annað eldhúsbréf yfir.
  4. Gott er að setja trébretti eða eitthvað með smá þyngd ofan á. Þetta er gert til að þerra umfram vökva úr tómötunum. Látið tómatana vera svona í um það bil 15 mínútur.
  5. Gerið það sama við mozzarellaostinn. Skerið hann í sneiðar og leggið á eldhúsbréf, sleppið því þó að strá salti yfir. Setjið annað bréf yfir og þerrið ostinn vel.
  6. Rúllið smjördeiginu út á bökunarplötu.
  7. Setjið furuhnetur á þurra pönnu og ristið þar til þær eru orðnar vel gylltar.
  8. Brjótið eggið í skál og sláið vel saman með gaffli. Penslið 1 cm breiðan kant af egginu á útflatt deigið.
  9. Smyrjið pestóinu yfir deigið og raspið vel af Feyki osti yfir pestóið.
  10. Skerið svo nokkrar sneiðar af ostinum og setjið til hliðar.
  11. Raðið tómötunum og mozzarellasneiðunum eftir smekk, Valla var með ca. 2 sneiðar af tómötum á móti einni mozzarella sneið.
  12. Bakið í ofninum í um það bil 30 mínútur eða þar til osturinn og kantarnir eru orðnir fallega gylltir.
  13. Takið bökuna út og raðið sneiðum af Feyki ofan á, einnig er gott að raspa ostinn yfir að auki.
  14. Raðið ferskum basilíkublöðum yfir og stráið furuhnetum og sjávarsaltflögum yfir.
  15. Berið strax fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert