Ómissandi upplifun að prófa grænu sósuna

Veitingarsaðurinn Relais de l’Entrecote í París er frægur fyrir grænu …
Veitingarsaðurinn Relais de l’Entrecote í París er frægur fyrir grænu leyndardómsfullu sósuna. Samsett mynd

París, sem oft er talað um að sé rómantískasta borg heims og það er engum blöðum um það að flétta að það er engin borg eða land sem er meira heimótt en Parísborg og Frakkland. París er undurfögur borg og lystisemdir hennar er óteljandi í víðu samhengi og það má líka með sanni segja að matarástin blómstri í París. Frönsk matargerð er ein sú besta í heimi enda er Frakkland einstök matarkista. Úrvalið af veitingastöðum er mikið í París og það er í raun erfitt að velja á milli hvert á að fara og kallar stundum á valkvíða. Í borginni eru síðan faldir staðir, gullmolar, sem eiga sér sérstök leyndarmál og leyniuppskriftir sem hafa varðveist og gengið í erfðir sem gaman er að heimsækja. Það er til að mynda staðir sem bjóða upp á rétti á matseðli sem hafa verið óbreyttir í áranna rás og njóta alltaf jafn mikillar hylli.

Staðirnir eiga sér langa sögu

Ég hef stundum fengið spurninguna, hvert ég myndi hugsanlega fara í hádegisverð í París til að gera eitthvað skemmtilegt og öðruvísi, jafnvel sögulegt, þá svara ég gjarnan, skreppa á Relais de l’Entrecote. Ég gæti auðvitað talið upp marga staði sem mér finnst gaman að heimsækja eins og Café de flore, Le bon Georges, Chez Georges, Les Deux Magots svo fátt eitt sé nefnt. Margir spyrja afhverju, það er vegna þeirrar áhugaverðu og eftirminnilegu matarupplifunnar að borða á staðnum. Fyrir hvern þann sem er að heimsækja Parísarborg þá er þetta jafn ómissandi viðkomustaður eins og að skoða mörg helstu kennileiti Parísarborgar. Ég myndi aldrei flokka Relais de l’Entrecote sem beinlínis fínan veitingastað en algjörlega þess virði að prófa vegna þess að staðirnir eiga sér langa sögu, maturinn er bragðgóður og þjónustan fín og skemmtileg að mörgu leyti.

Þær sem þjóna til borðs eru allar uppdressaðar eins og …
Þær sem þjóna til borðs eru allar uppdressaðar eins og franskar þjónustustúlkur voru klæddar hér á árum áður í huggulegum einkennisfatnaði. Samsett mynd

Þegar á staðinn er komið þá má búast við röð viðskiptavina vegna vinsælda en ekki láta biðröðina trufla þig; hún er alveg þess virði. Röðin gengur almennt fljótt fyrir sig og áður en þú veist af þá tekur við þér ein af þaulreyndum og glaðlyndu þjónustustúlkum sem eru kvikar í snúningum og vísar þér til borðs en þær eru allar uppdressaðar eins og franskar þjónustustúlkur voru klæddar hér á árum áður í huggulegum einkennisfatnaði.

Þrír staðir í París

Það er ekki beint matseðill á Relais de l’Entrecote, aðeins einn aðalréttur er í boði á stöðunum þremur í Parísarborg, nautasteik, franskar kartöflur og dökkgræna sósan. Fyrir vikið gengur biðröðin utandyra hraðar fyrir sig. Það eina sem viðskiptavinurinn þarf síðan að að gera þegar sest er við borðið, er að tilgreina þjónustustúlkunni hvernig þú vilt að steikin þín sé framreidd þegar hún kemur til taka pöntunina. Sjálf kýs ég að hafa steikina almennt „medium rare“ og þannig fékk ég nautasteikina sem var svo meyr að steikin hreinlega bráðnaði þegar upp í munninn var komið ásamt grænu sósunni. 

Þetta er klassísk máltíð á þessum dásamlega stað, steikin borin …
Þetta er klassísk máltíð á þessum dásamlega stað, steikin borin fram með frönskum kartöflum og grænu sósunni frægu. mbl.is/Sjöfn

Staðirnir eru þrír í París eins og áður sagði og sá elsti er staðsettur í 6. hverfi sem kallast Saint-Germain. Borðapantanir eru ekki í boði en engu að síður eru staðirnir þétt setnir frá hádegi til kvölds og viðskiptavinir standa þolinmóðir í röðum til að fá að gæða sér á matnum á þessum fjölsóttu veitingastöðum Parísarborgar. Vinsældir staðanna eru ótrúlegar og skýrast sennilega fyrst og fremst af skjótri og einfaldri þjónustu enda einungis einn réttur í boði. Það sést auðvitað þegar maður mætir á staðina og upplifir stemninguna og vinsældir þessara staða og ekki skemmir prísinn á réttunum fyrir sem eru sanngjarnt verðlagðir miðað við margt sem maður þekkir.  Margir koma aftur og aftur á Relais de l’Entrecote þegar þeir heimsækja borgina enda sækja svo sem ferðamenn staðina líka sbr. heimamenn og aðra franska ferðalanga. Það er óhætt  að fullyrða að bragðgóð steikin er eitthvað sem endurspeglar franska matarmenningu. Óhætt er að segja að safarík steikin sem bráðnar í munni og hinar grönnu heimatilbúnu og tvísteiktu girnilegu frönsku kartöflurnar ásamt einni af  leyndardómsfyllstu sósum sem þekkist  er eitthvað sem þú vilt ekki missa af. Fyrir þá sem eru svangir þá er yfirleitt boðið upp á ábót þegar hungrið sverfur að eitthvað sem er nú sjaldan í boði nema á drekkhlöðnum hlaðborðum.

Leyndardómsfulla sósan

Þessi einfalda og bragðgóða steik hefur verið framreidd óbreytt í marga áratugi ásamt grænu sósunni og frönskunum og eru staðirnir þekktir um víða veröld enda mikið aðdráttarafl í Parísarborg. Staðirnir hafa verið nefnir stundum “Græna sósan” með skírskotun til sósunnar sem er framreidd með aðalréttinum en á ekkert skylt við nafn staðarins. Uppskriftin af dökkgrænu og leyndardómsfullu sósunni sem er afar ljúffeng er eitt best varðveitta leyndarmál veitingastaða í Parísarborg.  Samkvæmt því sem greinarhöfundur kemst næst um innihaldsefni og hlutföll sósunnar þá hefur því aldrei verið ljóstrað upp eða gert opinbert og þykir enn ráðgáta. Jafnframt hefur því verið fleygt fram að það sé einkaleyfi á sósunni. Margir hafa reynt að leika hana eftir og einnig margir spekúlantar velt vöngum yfir innihaldinu og hlutföllum.

Það er þó ekki bara sósan, meyrt nautakjötið og frönsku kartöflurnar sem margir elska, heldur eru það bragðgóðir og spennandi eftirréttir sem þú þarft líka að hafa pláss fyrir og eru sannarlega ekki af verri endanum.

Staðurinn er íhaldssamur hefur ekki breyst í áranna rás.
Staðurinn er íhaldssamur hefur ekki breyst í áranna rás. mbl.is/Sjöfn
Fjöldi fólks leggur leið sína á veitingastaðinn á hverjum degi.
Fjöldi fólks leggur leið sína á veitingastaðinn á hverjum degi. Ljósmynd/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert