Heilsudrykkirnir hennar Unnar

Unnur Pálmarsdóttir fær innblásturinn sinn fyrir nýjar uppskriftir að heilsudrykkjum …
Unnur Pálmarsdóttir fær innblásturinn sinn fyrir nýjar uppskriftir að heilsudrykkjum þegar hún skiptir um umhverfi og fer í sólina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú þegar haustið er að bresta á og hefðbundin rútína er að komast á, á flestum heimilum finnst Unni Pálmarsdóttur mannauðsráðgjafa vert að huga enn betur að heilsunni, næringu og svefni. Meðal þess sem Unnur gerir á þessum árstíma er að prófa sig áfram í heilsudrykkjum samhliða reglubundinni hreyfingu og líkamsrækt.

Unnur starfar einnig sem hóptímakennari og er eigandi Fusion og hugsar því alla daga um heilbrigðan lífsstíl og hvernig gera megi betur. Hún veit að mataræði skiptir þar miklu máli og að til að ná árangri verði að huga að því sem borða og drukkið er.

„Ég er alltaf að prófa mig áfram í heilsudrykkjunum, hvort sem það eru detox-drykkir, þeytingar eða hollir safar. Við fjölskyldan fórum í dásamlegt sumarfrí til Kanarí og þar eru ávextirnir ferskir og góðir. Ég fékk mér ávallt nýkreistan appelsínusafa á morgnana og mangóávöxtinn sem er svo ferskur á Kanarí. Upp frá því spruttu þrjár nýjar og einfaldar uppskriftir að heilsudrykkjum sem mig langar að deila með ykkur,“ segir Unnur.

Fær innblástur að nýjum uppskriftum

Unnur segist fá innblástur að nýjum uppskriftum þegar hún skiptir um umhverfi. „Það er hvetjandi að fara í annað umhverfi og kynnast annarri menningu og þjóð. Loftslagið á Kanarí er sérstaklega gott fyrir okkur og heilnæmt. Ég stundaði líkams- og heilsurækt í sólinni nánast alla daga og vonast til þess að Íslendingar taki vel við sér og hefji haustið á vítamínsprautu á fallegu eyjunni Kanarí. Við höfum verið á Maspalomas-svæðinu sem nær til San Agustín og Playa del Inglés, Ensku strandarinnar. Það er 17 km löng strandlengja með frægu Dunas de Maspalomas eða sandöldunum sem er á lista UNESCO yfir friðuð svæði,“ segir Unnur og bætir við að það sé einstaklega falleg strandlengja.

Eitt af því sem Unnur gerir líka er að fara með Íslendinga í heilsueflandi ferðir. „Það er því gaman að segja frá því að ég býð upp á heilsueflandi ferð til Kanarí í haust, dagana 2.-9. október, sem heitir Heilsurækt huga, líkama og sálar. Það er yndislegt að stunda hreyfingu í fallega umhverfinu á Kanaríeyjunni sem er þekkt fyrir mjög mikla veðursæld og yndislegt loftslag allt árið um kring. Ástæðan fyrir því að ég vel Gran Canaria er sú að ég hef ávallt komið endurnærð til baka þaðan. Ég byrjaði að stunda hugleiðslu og vinna að því að minnka streitu í daglegu lífi og það er boðskapurinn sem ég kem áleiðis í þessum ferðum,“ segir Unnur með bros á vör. Hægt er að sjá nánari upplýsingar um ferðina á vef Aventura – ferðaskrifstofu.

Næringarríkir og hollir safar

En eins og Unnur nefnir skiptir næringin líka miklu máli og þessa dagana eru verslanir stútfullar af nýju fersku grænmeti sem upplagt er að nýta til að búa sér til næringarríka og holla safa sem gleðja líkama og sál. „Það grænmeti og ávextir sem mér finnst best að nota til að búa til góðan heilsusafa eru gulrætur, sellerí, tómatar, rófur, gúrkur, grænkál, spínat, epli, ber, engifer og túrmerik.“

Unnur deilir hér þremur heilsudrykkjum með lesendum sem er kærkomið að njóta til að hefja haustrútínuna. Þetta eru drykkirnir mangó tvist, grænn detox frá Unni og berjahollusta Unnar. „Mangó tvist-heilsudrykkurinn er frábær þegar mann langar í eitthvað sætt og seiðandi á kvöldin. Drykkurinn er fallegur og bragðast svo vel. Frábært að toppa með ferskum jarðarberjum eða jafnvel kókos. Græni detox-drykkurinn er ferskur og næringarríkur með engifer og túrmerik. Loks er það berjahollustan en það er mjúkur og góður hollustudrykkur þar sem ég blanda saman jarðarberjum, bláberjum og hindberjum. Berin mega bæði vera fersk eða frosin. Einnig nota ég próteinduft til að gera drykkinn enn betri að mínu mati,“ segir Unnur.

Hér eru á ferðinni þrír dúndurgóðir heilsudrykkur, Mangó Tvist, Grænn …
Hér eru á ferðinni þrír dúndurgóðir heilsudrykkur, Mangó Tvist, Grænn Detox að hætti Unnar og Berjahollustan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hver uppskrift hér að neðan er gerð á sama hátt og best er að byrja á þessum skrefum:

  1. Þvoið ávextina og grænmetið vel áður en þið blandið drykkinn.
  2. Skerið ávexti og grænmeti í 1-2 litla bita. Fjarlægja skal allt hýði.
  3. Setjið allt hráefnið í safapressu eða í Nutribullet.
  4. Passið vel að setja ekki of mikið hráefni í blandarann svo að það verði síður erfitt að opna hylkið á blandaranum þegar drykkurinn er tilbúinn.
  5. Berið fram drykkinn í fallegu glasi eða íláti – því þá bragðast drykkurinn betur.

Heilsudrykkirnir hennar Unnar

Mangó tvist

  • 1-2 dl mangó, ferskt eða frosið
  • 4-5 gulrætur
  • 1 banani
  • 200 g jarðarber, fersk eða frosin
  • 2-3 dl vatn
  • Klakar að vild

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið saman í blandara og blandið þar til drykkurinn er orðinn mjúkur. Hellið drykknum í fallegt glas.

Grænn detox frá Unni

  • 1-2 græn epli, skorin í tvennt og í litla bita
  • 1-2 stilkar sellerí, skerið öll blöðin af
  • ½ agúrka
  • Grænkál að vild, ferskt eða frosið
  • ½ sítróna afhýdd og kreistið safann í drykkinn
  • ½ stk. ferskt engifer (valfrjálst)
  • ½ tsk. túrmerik
  • Kvistur af ferskri myntu (valfrjálst)
  • Klakar að vild

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið í blandara og blandið vel. Hellið síðan drykknum í fallegt glas.

Berjahollusta Unnar

  • 1 dl bláber
  • 1 dl jarðarber
  • 1 dl hindber
  • 1 cm engifer
  • ½ dl hreint vanillu- eða jarðarberjaprótein (má vera meira prótein að vild)
  • 2-3 dl möndlumjólk eða vatn

Aðferð:

  1. Setjið hráefnið í blandara, þeytið saman og hellið í fallegt glas.
Grænn detox frá Unni.
Grænn detox frá Unni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Berjahollusta Unnar.
Berjahollusta Unnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert