Syndsamlega góð rifsberjabaka

Rifsberjabakan er fullkomin fyrir helgarbaksturinn enda er tími berjauppskerunnar þessa …
Rifsberjabakan er fullkomin fyrir helgarbaksturinn enda er tími berjauppskerunnar þessa dagana. Ljósmynd/Árni Þorvarðarson

Þessa dagana er árstíð berjanna. Rifsber eru alltaf sígild á haustin og hvað er betra en að gera eitthvað nýtt og útbúa rifsberjaböku. Rifsberjabaka gleður bragðlaukana með sínum sætu og súru tónum og færir okkur í leiðinni aftur inn í sumarið, sama hvaða árstíð er. Þegar bakan er borin fram með volgum ís, þeyttum rjóma eða smá vanillusósu, verður það hinn fullkomni eftirréttur fyrir alla í fjölskyldunni. Árni Þorvarðarson bak­ari og fag­stjóri við Hót­el- og mat­væla­skól­ann í Kópa­vogi hefur mikið dálæti af bökum og þessa dagana leikur hann sér í eldhúsinu í bökubakstri. Hann býður því upp á þessa gleði fyrir helgarbaksturinn.

Árni Þorvarðarson bakari hefur mikið dálæti á bökum og haustin …
Árni Þorvarðarson bakari hefur mikið dálæti á bökum og haustin er hans tími fyrir bökubakstur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Rifsber eru meira en bara ber – þau eru leið til að kanna nýja og spennandi heima í eldamennsku. Með þessari uppskrift að rifsberjaböku færðu rétt sem er sannkallaður hátíðarklassíker, fullur af ljúffengum tónum og ríkri hefð sem rifsberin eru. Hver veit nema þetta verði fastur liður á borðstofuborðinu þínu,“ segir Árni og sviptir hér hulunni af uppskriftinni af sinni uppáhaldsrifsberjaböku.

Þessi baka er góð leið til að njóta þess besta sem rifsber hafa upp á að bjóða. Hér er á ferðinni leið til að ljúka góðum máltíðum með einhverju óvæntu sem mun án efa vekja hrifningu hjá matargestum.

Rifsberjabakan hans Árna tekur sig vel út í góða veðrinu.
Rifsberjabakan hans Árna tekur sig vel út í góða veðrinu. Ljósmynd/Árni Þorvarðarson

Rifsberjabaka

Botn

  • 100 g smjör
  • 100 g sykur
  • 2 stk. egg
  • 240 g hveiti

Aðferð:

  1. Blandið saman smjöri, sykri og eggjum í hrærivél og vinnið rólega saman í um 3 mínútur.
  2. Bætið hveitinu saman við og blandið rólega saman. Klárið síðan að hnoða deigið með höndunum á borðinu.
  3. Setjið deigið í plastfilmu og kælið í um 30 mínútur.
  4. Rúllið svo deigið út og leggið í um 22 cm bökuform.

Rifsberjafylling

  • 200 g mjólk
  • 2 msk. vanilludropar
  • 54 g sykur
  • 2 stk. eggjarauður
  • 25 g maíssterkja
  • 250 g maukuð rifsber
  • 25 g smjör

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefni saman í pott og hitið upp að 80°C, eða þar til kremið þykknar.
  2. Takið pottinn af hellunni og bætið smjörinu varlega saman við.

Fyrir bakstur

  1. Skerið niður hvítt súkkulaði og dreifið yfir fyllinguna.

Bakstur

  1. Forhitið ofninn í 180°C.
  2. Bakið í 25-35 mínútur eða þar til yfirborðið er gullið og fyllingin búbblar. Látið kólna áður en bakan er borin fram.

Eftir bakstur

  1. Bræðið restina af hvíta súkkulaðinu og dreifið yfir bökuna til að fá fullkomna loka áferð. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert