Auður töfraði fram vikumatseðilinn á augabragði

Auður Ögn Árnadóttir matgæðingur með meiru á heiðurinn af matseðli …
Auður Ögn Árnadóttir matgæðingur með meiru á heiðurinn af matseðli vikunnar að þessu sinni. Svo flettir hún líka ofan af nýjungunum hjá 17 Sortum. Samsett mynd

Auður Ögn Árnadóttir einn eigenda hjá 17 Sortum og matgæðingur á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni sem er hinn girnilegasti. Auður hefur mikla ástríðu fyrir því að vera í eldhúsinu að töfra fram kræsingar sem gleðja matarhjartað en segir þó að stundum geti verið erfitt að gera öllum til geðs þegar 6 eru saman í heimili. Matarsmekkur þeirra sé oft ólíkur en sem betur fer séu þó til nokkrir réttir sem allir elska og dá og þá nái hún að slá í gegn.

Skapandi og hugmyndaríkar saman

Auður er ekki bara að galdra fram kræsingar heima í eldhúsinu heldur er hún líka að þróa og prófa nýjar kræsingar hjá 17 Sortum sem hún og Sylvía Haukdal eiga og reka saman. Saman eru þær ótrúlega skapandi og hugmyndaríkar þegar kemur að bakstri og kökuskreytingum. Þær vita fátt skemmtilegra en að gleðja afmælisbörn og finna upp frumlegar og fallegar kræsingar fyrir ýmis konar tilefni sem vert er að fagna og halda upp á með fallegum kræsingum sem gleðja augu og munn.

Gullfallegar fígúrur sem eiga eftir að sóma sér vel á …
Gullfallegar fígúrur sem eiga eftir að sóma sér vel á fallegum tertum. Samsett mynd

3D fígúrur og marenstertur nýjasta viðbótin

„Við hjá 17 Sortum höfum nýlega hafið sölu á 3D fígúrum í verslunin Hagkaup í Smáralind þar sem fólk getur komið við, án þess að panta fyrirfram, og gripið með sér sykurmassafígúru til að skreyta kökurnar sínar. Úrvalið er misjafnt frá degi til dags en við erum með nokkrar gerðir í boði,“ segir Auður og er glöð að geta boðið upp á þessa viðbót. Meðal þeirra fígúra sem hægt er að fá er barnslegur gíraffi, fíflsungi og Uni corn hestur. Þetta eru ekki einu nýjungarnar sem hægt er að fá hjá 17 Sortum, nú eru líka komnar nýjar marenstertur. „Þær eru fágaðar og stílhreinar og allt öðruvísi í útlit en klassískar marenstertur við erum flest vön að sjá. Ég vona svo sannarlega að þessar hitti í mark, við erum afar ánægðar með útkomuna, bæði útlit, bragð og áferð,“ segir Auður að lokum með bros á vör.

Marensterturnar sem eru að líta dagsins ljós hjá 17 Sortum …
Marensterturnar sem eru að líta dagsins ljós hjá 17 Sortum eru fágaðar og fallega skreyttar á stílhreinan hátt. Samsett mynd
Krúttlegar og barnslegar.
Krúttlegar og barnslegar. Samsett mynd

Auður töfraði síðan fram þennan girnilega vikumatseðil á augabragði og er búin að setja sig í stellingar fyrir matargerðina út vikuna.

Mánudagur – Taco-súpa með heimagerðu nachos

„Það er haust í kortunum og það finnst mér kalla á súpu. Svona mexíkósúpa með hakki er gífurlega vinsæl á heimilinu og ég er spennt fyrir að prófa þetta heimagerða nachos þar sem það er í hollari kantinum.“

Þriðjudagur – Plokkfiskur og rúgbrauð

„Mér finnst við því miður allt of löt við að hafa fisk – ég vil kenna því um að heimilisfólkið mitt hefur mjög misjafnan smekk á fiski og erfitt að finna eitthvað sem öllum líkar. Einn vill ekki vatnafiska, annar þolir ekki fisk í ofni og svo sá þriðji alls ekki steiktan fisk. En hið ótrúlega er að allir borða plokkfisk svo hann verður fyrir valinu sem fullkominn þriðjudagsmatur og ekki er verra ef mamma er nýbúin að baka rúgbrauð og til í færa okkur.“

Miðvikudagur – Girnilegur kjúklingur

„Í miðri viku er tilvalið að vera með kjúkling – hann rennur vel ofan í heimilisfólkið, eiginlega alveg sama í hvaða formi sem er. Mér fannst þessi alveg sérstaklega girnilegur og ennþá betra að hægt sé að henda öllu saman í eitt form og setja inn í ofn til að gleyma. Auðvelt og þægilegt.“

Fimmtudagur – Sumar-taco sem engan svíkur

„Á fimmtudögum er fólk oft farið að telja niður í helgina og þessar rækjur stytta biðina. Við erum 6 í heimili og það eru allir sjúkir í rækjutaco - þar sem hver og einn setur saman sitt eigið taco er auðvelt að gera öllum til hæfis hvað varðar innihaldið.“

Föstudagur – Bianca með kartöflum og timian og eftirréttapítsa

Eins og á svo mörgum íslenskum heimilum er föstudags pítsan orðin mjög sterk hefð hjá okkur. Maðurinn minn er búinn að vera með ítalskan eldsofn í garðinum í nokkur ár og nokkurn veginn búinn að fullkomna pítsurnar sínar. Paulino´s pítsa eins og við köllum þær, bara klikka ekki. Við höfum verið dugleg að prófa mismunandi álegg og útfærslur en undanfarið höfum við verið að prófa okkur áfram með hvítar pítsur og því fannst mér þessi hljóma mjög spennandi  þó svo að ég myndi sennilega skipta vegan ostunum út fyrir hefðbundna. Við höfum líka aðeins verið að prófa eftirrétta-pítsur og það er mjög auðvelt að enda á einni slíkri þegar búið er að baka hinar.“

Laugardagur – Lambaskankar og meðlæti, skyrkaka í eftirrétt

„Mér finnst gaman að hægelda eitthvað lengi og ljúflega um helgar þegar meiri tími gefst í eldamennskuna heldur en í miðri viku. Þá fyllir matarlyktin húsið allan daginn og kyndir undir tilhlökkun og bragðlaukana. Þá er líka meira lagt í matinn en aðra daga og mér finnst ofsalega gaman að vera með eftirrétt líka eða forrétt. Verð samt að viðurkenna að eftirréttur verður oftar fyrir valinu. Mér finnst þessi ostakaka ótrúlega girnileg og svo er afgangurinn, ef einhver verður, líka tilvalinn með sunnudagskaffinu.“

Sunnudagur – Egg Benedict með bestu hollandaise-sósunni

„Ég elska að fá alla fjölskylduna í mat en börn, tengdabörn og barnabörn telja orðið 15 manns svo það getur verið fjör hjá okkur. Við erum öll mjög hrifin af Eggs Benedict og ósjaldan sem ég skelli í slíka veislu fyrir þau og ber fram með tómatsalati og jafnvel aspas. Þessi uppskrift af Hollandaise sósu er eitthvað sem ég þarf að prófa næst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert