Gísli getur ekki beðið eftir að taka móti gestum á Slippnum

Gísli Matthías Auðunsson matreiðslumeistari og eigandi Slippsins á milli Frosta …
Gísli Matthías Auðunsson matreiðslumeistari og eigandi Slippsins á milli Frosta Gíslasonar sem er verkefnastjóri og einn af frumkvöðlum matarhátíðarinnar MATEY og Berglindar Sigmarsdóttur sem er formaður Ferðamálanefndar Vestmannaeyja. Ljósmynd/Karl Petersson

Nú styttist óðum í matarhátíðina MATEY sem haldin verður með pomp og prakt í Vestmannaeyjum 5. til 7. september næstkomandi. Eins og fram hefur komið á Matarvef mbl.is eru ein­göngu öfl­ug­ir kven­leiðtog­ar í mat­reiðslu sem verða í for­ystu­hlut­verki á hátíðinni að þessu sinni. Þetta er í þriðja skiptið sem mat­ar­hátíðin MAT­EY er hald­in en síðustu hátíðir slógu í gegn og færri komust að en vildu þegar koma að því að bóka borð á veit­ingastaðina þar gesta­kokk­arn­ir sýndu list­ir sín­ar.

Þrír veitingastaðir taka þátt í hátíðinni í ár og meðal þeirra eri Slippurinn. Gísli Matthías Auðunsson, matreiðslumeistari er eigandi Slippsins og einnig veitingastaðarins Næs auk þess að vera í meðeigandi veitingastaðnum SKÁL í Reykjavík. Slippurinn hefur notið mikilla vinsælda og frægur fyrir að bjóða upp á árstíðabundna matseðla með hráefni sem náttúra vor býður upp á.

Vinnum með síbreytilega árstíð

„Ég rek Slippinn með fjölskyldu minn og við höfum staðið fyrir því að bjóða upp á mat héðan úr Eyjum. Við vinnum vel með síbreytilegri árstíð þar sem við tínum, nýtum og framreiðum mat úr staðbundnu hráefni með áherslu á ýmsar gerðir af fisk, villtum jurtum og þara. Við erum stolt að bjóða upp á matargerð sem sýnir brögð eyjanna,“ segir Gísli sem er orðinn mjög spenntur fyrir komandi dögum.

Nú er þetta þriðja skiptið sem hátíðin er haldin, hefur hún breyst mikið frá því hún var fyrst haldinn fyrir tveimur árum?

„Ég er rosalega spenntur fyrir matarhátíðinni en eins og fram hefur komið erum við að fá þrjá kvenkyns kokka að heimsækja okkur og þær fá að nýta hráefnið héðan. Það er alltaf gaman að fá meistarakokka til okkar, þeir gefa okkur mikinn innblástur og við vonandi þeim. Hátíðin hefur þróast vel síðustu ár og fólk verður spenntara og spenntara fyrir hátíðinni. Rosie Maguire kokkur verður hjá okkur á Slippnum en hún er  yfir eldhúsinu á Higher Ground, sem er einn af betri veitingastöðum í Bretlandi. Þar leggja þeir áherslu, líkt og við, að vinna vel með framleiðendum á svæðinu. Staðurinn ytra er alltaf fullsetinn, sem gefur oft góð fyrirheit.“

Get lofað að hann er stórgóður

Er búið að ákveða matseðilinn?

„Já, hann er svona 90% tilbúinn, en kokkarnir eru að koma í dag og þá fær Rosie að prufa allt hráefnið, villtu jurtirnar og fleira, svo það er enn tími til að breyta. En ég get lofað að hann er stórgóður,“ segir Gísli og brosir breitt.

Er sérstakt hráefni sem verður í forgrunni í ár?

„Það er erfitt að velja úr, en þorskurinn okkar stendur ávallt fyrir sínu, svo er einnig skötuselur, karfi og fleira sem er allt fengið frá Ísfélagi Vestmannaeyja, Leó Seafood og Vinnslustöðinni.“

Hér má sjá einn réttinn sem framreiddur var á matarhátíðinni …
Hér má sjá einn réttinn sem framreiddur var á matarhátíðinni MATEY í fyrra. Ljósmynd/Karl Petersson

Eyjan á top 50 lista hjá NY Times

Hvaða væntingar hefur þú til hátíðarinnar?

„Það var gaman að sjá að margir af stærstu fjölmiðlum út í heimi skrifuðu um hátíðina í fyrra, sögðu meðal annars að þetta væri ómissandi viðburður tengdum mat á Íslandi. Eyjan okkar var einnig á top 50 lista hjá NY Times yfir mest spennandi áfangastaði 2024.“

Skiptir þig miklu máli að matarhátíð að þessu tagi sé haldin í Vestmannaeyjum?

„Já, það finnst mér og að hún sé haldin hér. Þetta er í raun samstarfsverkefni milli sjávarútvegsins og ferðaþjónustuaðila. Allir eru að leggja í púkk til að sýna fram á hvað við höfum fram að færa.“

Hvernig er þátttakana, munu margir leggja leið sína til Eyja að njóta?

„Þátttakan er góð þó við værum til í að fá fleiri til okkar, erfitt er að fá borð á flestum stöðunum á laugardeginum en nóg laust ennþá á fimmtudaginn og föstudag. Við hvetjum alla til að kíkja á okkur og njóta þess sem Vestmannaeyjar hafa upp á að bjóða þegar kemur að mat og matarupplifun,“ segir Gísli og getur vart beðið eftir að taka á móti gestum. Hann hvetur alla matgæðinga og mataráhugamenn að koma og upplifa matarstemninguna. Fyrir áhugasama er hægt að bóka borð á Matey.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert