Dýrindis steikar-taco sem bragð er af

Girnilegt steikar-taco sem bragð er af.
Girnilegt steikar-taco sem bragð er af. Ljósmynd/Hildur Rut Ingimarsdóttir

Hér er á ferðinni dýrindis steikar-taco sem bragð er af. Nauta mínútusteik er fullkomin til að nýta í rétt sem þennan og það tekur stutta stund að grilla mínútusteikina. Heiðurinn af þessari uppskrift á Hildur Rut Ingimarsdóttir matarbloggari. Uppskriftina gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gerum daginn girnilegan. Hildur deildi myndbandi með fylgjendum sínum á Instagram þar sem hún sýnir hversu auðvelt það er að útbúa þetta girnilega steikar-taco sem vert er að kíkja á.

Steikar-taco

  • 500 g nauta mínútusteik
  •  2 msk. Caj P grillolía
  •  1 tsk. cayenne pipar
  •  Salt og pipar eftir smekk
  •  1 stk. stór laukur
  •  1 stk. rauðlaukur
  •  2 msk. smjör
  •  Litlar tortillur
  •  Ólífuolía
  •  Rifinn havarti ostur
  •  Salat að eigin vali
  •  Tómatar
  •  Ferskt kóríander

Sósa

  •  180 g sýrður rjómi
  •  ½ stk. sjávarsalt
  •  ¼ tsk. hvítlauksduft
  •  ½ tsk. laukduft
  •  ¼ tsk. pipar
  •  1 msk. smátt skorinn graslaukur
  •  1 msk. skorið kóríander

Aðferð:

  1. Blandið Caj P grillolíu, cayenne pipar, salti og pipar saman við mínútusteikina.
  2. Grillið steikina á vel heitu grillinu í 1-2 mínútur hvora hlið. Passið að grilla ekki of lengi því þá verður kjötið ekki eins gott og getur orðið seigt.
  3. Blandið saman í sósuna. Smakkið hana til og bragðbætið eftir smekk.
  4. Skerið lauk og rauðlauk í strimla. Steikið upp úr smjöri þar til laukurinn er mjúkur og vel steiktur.
  5. Dreifið tortillunum á bökunarplötu þakta bökunarpappír og penslið ólífuolíu á þær. Því næst dreifið rifnum havarti osti yfir og bakið inn í ofni við 180° hita þar til osturinn er bráðnaður.
  6. Skerið tómata smátt og salatið strimla.
  7. Rífið havarti ostinn.
  8. Dreifið, salatinu, sósunni, lauknum, tómötunum, kjötinu, tómötunum og smá fersku kóríander á tortillurnar eftir smekk og njótið vel. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert