Guðdómlegir haustréttir Sollu og Hildar sem fanga bragðlaukana

Ómótstæðilega girnilegur brokkolíniréttur með ostasósu úr smiðju mæðgnana.
Ómótstæðilega girnilegur brokkolíniréttur með ostasósu úr smiðju mæðgnana. Ljósmynd/Hildur Ársælsdóttir

Sól­veig Ei­ríks­dótt­ir alla jafna kölluð Solla Ei­ríks og dótt­ir henn­ar Hildur Ársæls­dótt­ir eru komnar í haustgírinn og er byrjaðar að njóta uppskerunnar í matargerðina og baksturinn. Þær eru líka byrjaðar að undirbúa næstu námskeið sem er framhald á því sem þær buðu upp á síðastliðinn vetur og sló rækilega í gegn. Haustið er svo sannarlega þeirra tími og gaman að sjá hvernig mæðgurnar blómstra saman í eldhúsinu og í garðinum þessa dagana.

Mæðgurnar Sólveig Eiríksdóttir, alla jafna kölluð Solla Eiríks, og dóttir …
Mæðgurnar Sólveig Eiríksdóttir, alla jafna kölluð Solla Eiríks, og dóttir hennar Hildur Ársælsdóttir. Ljósmynd/Sjöfn

Ekkert jafnast á við nýupptekið grænmeti

„Haustið er minn uppáhalds tími. Þá svigna hillurnar í búðunum af íslensku grænmeti. Mér finnst ekkert jafnast á við nýupptekið grænmeti, bragðið er alveg himneskt og það hreinlega bráðnar upp í manni. Það þarf varla krydd, kannski bara smá salt, svo bragðmikið er það. Og í algjöru uppáhaldi er grænmetið úr garðinum mínum. Ég veit ekkert betra en að fara út í garð, ná mér í grænmeti og skella því beint á pönnuna, ofninn eða bara njóta þess að borða það hrátt,“ segir Solla brosandi.

Rifsberjakakan er fullkomin í eftirrétt eða með kaffinu í góðum …
Rifsberjakakan er fullkomin í eftirrétt eða með kaffinu í góðum félagsskap. Ljósmynd/Hildur Ársælsdóttir

„Hér eru 2 nýjar uppskriftir sem við Hildur dóttir mín vorum að setja saman með grænmeti og berjum úr garðinum. Þessa dagana erum við mæðgurnar að undirbúa Meira Grænt námskeiðin okkar þar sem við kennum einfaldar leiðir til að elda og borða meira grænt. Hér á landi hefðum við flest gott af að borða meira af grænmeti og okkur finnst svo gaman að veita innblástur til þess í gegnum bragðlaukana, enda getur grænmeti verið svo dásamlega gott. Hvert námskeið er ein kvöldstund og það er alltaf svo góð stemning hjá okkur, svo við hlökkum heldur betur til að fara aftur af stað. Nánari upplýsingar um skráningu á námskeiðin má sjá á Instagramsíðu þeirra hér og á Facebook hér.

Svo fallegt á disk.
Svo fallegt á disk. Ljósmynd/Hildur Ársælsdóttir

Fyrir áhugasaman þá er innifalið rafrænt uppskriftahefti frá mæðgunum, sýnikennsla og góður matur. Þetta er eins og að mæta í matarboð og fá góða fræðslu um matinn um leið og verið er að njóta hans. Næstu námskeið hjá mæðgunum verða núna í september og október eða 23. -24. og 30. september og síðan er eitt þann 1. október og byrja námskeiðin ávallt klukkan 17:30 og standa til klukkan 21:30.

Brokkolí með ostasósu og rifsberjakaka

Réttirnir sem mæðgurnar gerðu sérstaklega fyrir lesendur Matarvefsins eru annars vegar brokkolí og fleira úr garðinum hennar Sollu ásamt ostasósu. En þessi réttur er fullkominn sem forréttur eða meðlæti með aðalrétt. Síðan er það þessi dásamlega rifsberjakaka sem er bæði góð sem eftirréttur eða með kaffinu í góðum félagsskap.

Rifberin í garðinum hjá Sollu Eiríks.
Rifberin í garðinum hjá Sollu Eiríks. Ljósmynd/Hildur Ársælsdóttir

Brokkolí og fleira úr garðinum með ostasósu og rifsberjakaka

Brokkolí og fleira úr garðinum með ostasósu

Fyrir 4

  • 1 stór eða 2 minni brokkolíhausar
  • 1 lítill blómkálshaus
  • nokkrar gulrætur
  • nokkur blöð af hvítkáli eða grænkáli
  • olía til að steikja upp úr
  • smá sjávarsaltflögur

Aðferð:

  1. Skerið brokkolíið í langa og mjóa bita sem innihalda bæði svolítið af blóminu og svolítið af stilkinum, svipað og brokkolíní.
  2. Skerið blómkálið í passlega munnbita, skerið gulræturnar í langa mjóa bita og hvítkálið eða grænkálið í strimla.
  3. Hitið olíu á pönnu, hafið pönnuna vel heita þegar þið setjið grænmetið á, setjið ekki of mikið í einu, steikið í um 1-2 mínútur á hvorri hlið og saltið með smá sjávarsalti.


Ostasósa

  • 250 g rjómaostur eða vegan rjómaostur
  • 100 ml jurtamjólk að eigin vali
  • 150 g cheddar ostur eða vegan cheddar
  • 2 msk. dijon sinnep
  • 1-2 tsk. sítrónusafi
  • börkur af ½ sítrónu
  • smakkað til með sjávarsaltflögum og chiliflögum

Aðferð:

  1. Setjið allt í lítinn pott við meðal hita, hrærið í þar til þetta verður silkimjúkt og kekkjalaust.
  2. Þegar rétturinn er borinn fram, setjið þá væna skeið af ostasósu á diskinn, dreifið aðeins úr henni og setjið grænmetið ofan á.

Rifsberjakaka

  • 175 g spelt
  • 1 ½ tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. matarsódi
  • ½ tsk. möluð kardimomma
  • ½ tsk. sjávarsalt
  • 200 g jurtajógúrt, t.d. kókosjógúrt eða sojajógúrt
  • 50 g ólífuolía
  • 150 g hrásykur
  • 50 ml haframjólk
  • safi og börkur af 1 sítrónu
  • 70 g pistasíuhnetur, smátt saxaðar
  • 150 g rifsber

Ofan á:

  • Auka pistasíuhnetur og rifsber eftir smekk

Aðferð:

  1. Blandið saman spelti, lyftidufti, matarsóda, kardimommu og sjávarsalti í skál.
  2. Blandið jógúrt, ólífuolíu, hrásykri, haframjólk, sítrónu + hýði og pistasíuhnetum í aðra skál og hrærið saman.
  3. Blandið síðan þurrefnunum saman við án þess að hræra of mikið.
  4. Setjið bökunarpappír í hringlótt form, hellið deiginu út í og blandið rifsberjunum saman við deigið.
  5. Bakið við 180°C í 40 mínútur í miðjum ofni.
  6. Gott er að setja álpappír yfir kökuna eftir um það bil 20 mínútur svo hún brenni ekki, og taka hann af þegar um 5 mínútur eru eftir.
  7. Stingið tannstöngli í kökuna til að sjá hvort hún sé bökuð í gegn.
  8. Skreytið með meira af pistasíuhnetum og rifsberjum og berið fram með þeyttum jurtarjóma.
Grænmetið blómstrar í garðinum hjá Sollu.
Grænmetið blómstrar í garðinum hjá Sollu. Ljósmynd/Hildur Ársælsdóttir
Brakandi, ferskt og nýupptekið grænmeti sem gleður bæði augu og …
Brakandi, ferskt og nýupptekið grænmeti sem gleður bæði augu og munn. Ljósmynd/Hildur Ársælsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert