Renata Zalles mun bjóða upp á matarupplifun á Einsa Kalda

Renata Zalles er gestakokkurinn sem verður á Einsa Kalda og …
Renata Zalles er gestakokkurinn sem verður á Einsa Kalda og kemur frá Bólivíu. Hún er mætt til Eyja og farin að undirbúa sig fyrir matargerðina. Ljósmynd/Frosti Gíslason

Matarhátíðin MATEY er handan við hornið sem haldin verður í Vestmannaeyjum dagana 5. til 7. september næstkomandi. Eins og fram hefur komið á Matarvef mbl.is verða konur í for­ystu­hlut­verki á hátíðinni að þessu sinni. Þetta er í þriðja skiptið sem mat­ar­hátíðin MAT­EY og færri komust að en vildu í fyrra þegar koma að því að bóka borð á veit­ingastaðina þar sem gesta­kokk­arn­ir sýndu list­ir sín­ar.

Þrír veitingastaðir taka þátt í hátíðinni í ár, Slippurinn, GOTT og Einsi Kaldi. Einar Björn Árnason matreiðslumeistari er eigandi veitingarstaðarins Einsa Kalda. Hann hefur búið í Vestmannaeyjum allt sitt líf og er giftur Bryndísi Einarsdóttir og eiga þau saman þrjú börn.

Strangheiðarlegur veitingastaður

Einar, eða Einsi eins og hann er alla jafnan kallaður, rekur veitingastaðinn Einsa Kalda ásamt öflugri veisluþjónustu sem er starfrækt er í Höllinni. Á veturna hefur Einsi og hans fólk jafnframt séð flest öllum börnum Vestmannaeyjabæjar fyrir hollum og góðum mat. Ástríða hans fyrir að matargerð hefur blómstrað út í Eyjum og það þekkja allir Einsa Kalda.

Þegar Einsi er spurður út veitingastaðinn og áherslurnar sem eru forgrunni svara hann því til að þetta sé strangheiðalegur veitingastaður sem að leggur mikið upp úr því matargestum staðarins líði vel og njóti þess að heimsækja hann. „Við vinnum nánast allt sjálf frá grunni úr því besta hráefni sem völ er á að hverju sinni. Ég legg mikið upp úr fiskréttum, góðu kjöti og fallega uppsettum og bragðgóðum réttum. Ásamt því leggjum við áherslu á góð vín á sanngjörnu verði og ekki skemmir fyrir að eiga yndislega þjóna sem að eru alltaf til í að leggja mikið á sig fyrir vörumerkið,“ segir Einsi og bætir við að hann hafi verið heppinn með starfsfólk bæði í eldhúsi og í salnum sem skiptir sköpun fyrir gæði þjónustunnar í heild sinni.

Mikið metnaður er í því að bera réttina fallega fram.
Mikið metnaður er í því að bera réttina fallega fram. Ljósmynd/Aðsend

Mikil forréttindi að fá framúrskarandi matreiðslumenn í heimsókn

Nú er þetta þriðja skiptið sem matarhátíðin MATEY er haldin, hefur hún breyst mikið frá því hún var fyrst haldinn fyrir tveimur árum?

„MATEY leggst mjög vel í mig í ár líkt og hin árin sem að hátíðin hefur verið haldin. Hátíðin hefur ekki breyst mikið sem slík á þessum þremur árum sem að við höfum haldið hana, en við erum orðin reynslunni ríkari um það hvernig við getum gert svona helgi að upplifun fyrir gestakokkana okkar. Bæði þannig að þeim líði vel með okkur og að það sé afþreying og gleði fyrir þá allan tímann sem að þeir eru hér hjá okkur. Það eru mikil forréttindi fyrir okkur að fá svona framúrskarandi og flotta matreiðslumenn í heimsókn,“ segir Einsi.

„Þetta er líka gefandi fyrir okkur og við fáum nýjar og ferskar hugmyndir í matargerðina. Síðan er það þessi upplifun að sjá hvernig aðrir reynslumiklir og efnilegir matreiðslumenn líta á hlutina og nýta hráefnið. Við spjöllum mikið saman um matreiðsluaðferðir, hráefnið sem völ er á að hverju sinni og öllu því sem tengist að bjóða upp á matarupplifun sem snertir hvern streng þess sem nýtur.“

Renata Zalles verður veitingastaðnum Einsa Kalda og mun leika listir …
Renata Zalles verður veitingastaðnum Einsa Kalda og mun leika listir sínar með Einar Birni Árnasyni á matarhátíðinni MATEY sem haldin verður í Vestmannaeyjum. Samsett mynd

Hugsjónamaðurinn bak við STUFFED

Gestakokkurinn sem mun leika listir sínar í eldhúsinu hjá Einsa heitir Renata Zalles og kemur frá Bólivíu. „Hún er til að mynda hugsjónamaðurinn á bak við veitingastaðinn STUFFED í Kaupmannahöfn í Danmörku sem stendur til að opna í október næstkomandi og beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu. Hún hefur unnið á mörgum frábærum veitingastöðum og má þar nefna Gustu, Gaa og Lola. Hún er því hokin reynslu og hefur mikla ástríðu fyrir faginu sínu sem kokkur.“

Hér má sjá Einar Björn Árnason að leika listir sínar …
Hér má sjá Einar Björn Árnason að leika listir sínar í eldhúsinu með gestakokknum, Francesco Triscornia, á síðustu matarhátíð sem haldin var árið 2023. Ljósmynd/Karl Petersson

Er búið að ákveða matseðilinn?

„Já, matseðillinn er mjög spennandi og Renata mun koma með einstaka blöndu af alþjóðlegum brögðum og búa til rétti sem bera virðingu fyrir menningunni sem hún er svo ástríðufullur fulltrúi fyrir.“

Er sérstakt hráefni sem verður í forgrunni í ár?

„Fiskurinn okkar er aðalhráefnið í ár eins og hin árin. Í ár leggjum við áherslu á bacalao, þorsk ceviche og steinbít. Það verður frábært að sjá Renötu koma með sín brögð og áherslur í okkar hráefni, sem að við erum að nota allt árið um hring.“

Hvaða væntingar hefur þú til hátíðarinnar?

„Ég geri miklar væntingar til hennar. Þetta er krefjandi verkefni en jafnframt mjög skemmtilegt og vonandi mæta sem flestir á alla veitingastaði bæjarins og njóta þess sem boðið verður upp á.“

Skiptir þig miklu máli að matarhátíð að þessu tagi sé haldin í Vestmannaeyjum?

„Mér finnst hátíðin sérstaklega skemmtileg fyrir matarmenningu eyjanna. Þetta gerir mikið fyrir okkur og ég sem uppalinn eyjapeyi þá er ég nokkuð stoltur af þessari hátíð okkar. Þátttakan er mjög góð, ég vona svo sannarlega að flestir áhugamenn um góðan mat komi og njóti með okkur. Mig langar líka að fá að þakka öllum sem að hafa komið að þessari hátíð MATEY á einn eða annan hátt. Það verður gaman að sjá ykkur sem flest hress og kát um helgina,“ segir Einsi að lokum með bros á vör.

Augnakonfekt að njóta.
Augnakonfekt að njóta. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert