Öllu því besta tjaldað til hjá Berglindi og Sigurði

Hjónin Berglind Sigmarsdóttir og Sigurður Gíslason eigendur veitingastaðarins GOTT hlakka …
Hjónin Berglind Sigmarsdóttir og Sigurður Gíslason eigendur veitingastaðarins GOTT hlakka til að taka á móti gestum á MATEY ásamt gestakokknum þeirra Adriana Solis Cavida. Ljósmynd/ Sólveig Adolfsdóttir

Mat­ar­hátíðin MAT­EY hefst með pomp og prakt í Vest­manna­eyj­um á morgun, fimmtudaginn 5. september og stendur til 7. sept­em­ber.

Eins og fram hef­ur komið á Mat­ar­vef mbl.is eru ein­göngu öfl­ug­ir kven­leiðtog­ar í mat­reiðslu sem verða í for­ystu­hlut­verki á hátíðinni að þessu sinni sem er fyrir margar sakir sérstakt. 

Boðið verður upp á metnaðarfulla matseðla og nýjungar sem aldrei hafa sést þar sem sjávarfang verður í forgrunni. En gestakokkarnir munu leika listir sínar í eldhúsinu og koma með nýjar strauma og stefnur úr sínum menningarheimi.

Þrír veit­ingastaðir taka þátt í hátíðinni í ár, Slippurinn, Einsi Kaldi og GOTT. Hjónin Berglind Sigmarsdóttir og Sigurður Gíslason eiga og reka veitingastaðinn GOTT og eru Eyjafólk í húð og hár.

Eftir að hafa búið í fjöldamörg ár á höfuðborgarsvæðinu og erlendis og rekið þar veitingastaði við góðan orðstír snéru þau heim til Eyja fyrir áratug síðan og opnuðu þar veitingastaðinn GOTT.

Hugmyndafræðin á bak við staðinn átti að mörgu leiti rekja til metsölubókar þeirra Heilsuréttir fjölskyldunnar þar sem áherslan var á góðan og næringarríkan mat þar sem mikið var lagt upp úr gæðum og hreinleika matarins.

Fallega saga staðarins

GOTT fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir og má segja að saga staðarins hafi verið með eindæmum falleg. Staðurinn var upphaflega lítill og nettur en hefur vaxið fiskur um hrygg og fyrir nokkrum árum síðan var byggt við húsnæðið.

Að sögn Sigurðar hefur það gefið þeim möguleika að taka inn stærri hópa og þjónusta bæði heimamenn og aðkomufólk betur.

„Heimamenn hafa verið ótrúlega traustur og góður kúnnahópur hjá okkur og fyrir það erum við ótrúlega þakklát. Það eru forréttindi að fá að vera í Eyjum og það eru ótrúlegir töfrar fólgnir í smæðinni og nándinni sem er í samfélaginu,” segir Sigurður en orðstír staðarins nær langt út fyrir landsteinana og hafa þau fundið fyrir því að fólk komi langt að til þess að koma á staðinn sem á sér þéttan aðdáendahóp.

Nú er þetta þriðja skiptið sem hátíðin er haldin, hefur hún breyst mikið frá því hún var fyrst haldinn fyrir tveimur árum?

„MATEY var upphaflega búin til svo við gætum lengt ferðamannatímabilið hér í Eyjum með því að nýta góða veitingastaði og okkar einstaka hráefni en útkoman hefur farið fram úr væntingum okkar allra,” segir Berglind en þetta er í þriðja skipti sem hátíðin er haldin.

„Við höfum fengið frábært matreiðslufólk til okkar hvaðanæva úr heiminum og það má með sanni segja að MATEY sé veisla fyrir bragðlaukana þar sem úrvals hráefni er í forgrunni og stemningin er mikil.”

Veitingastaðurinn GOTT fagnar 10 ára um þessar mundir og á …
Veitingastaðurinn GOTT fagnar 10 ára um þessar mundir og á sér fallega sögu. Hlýleikinn er í fyrirrúmi þegar inn er komið. Ljósmynd/Berglind Sigmarsdóttir

Hátíðin í ár fyrir margt sérstök

Hvaða væntingar hafið þið til hátíðarinnar?

„Hátíðin í ár er fyrir margt sérstök en þó ekki síst þar sem allir gestakokkarnir eru konur. Matseðlarnir eru gríðarlega metnaðarfullir og spennandi og við hvetjum fólk til að missa ekki af þessari einstöku bragðupplifun sem í boði verður,” segir Berglind en hátíðin hefst á fimmtudaginn.

Skiptir ykkur miklu máli að matarhátíð að þessu tagi sé haldin í Vestmannaeyjum?

„Ekki spurning,” segir Berglind og bætir því við að hún sé mikilvæg fyrir alla aðila. Veitingamenn, ferðaþjónustuaðila og ferðamen sem komi gagngert á hátíðina og ekki síst fyrir Eyjamenn sjálfa sem hafi verið duglegir að mæta og upplifa eitthvað nýtt á sínum heimavelli.

„Það hefur myndast frábær stemning í kringum hátíðina og fólk er að labba á milli staða, fá sér drykk eða tvo og hitta vini og kunningja. Þetta hefur verið virkilega vel heppnað og allir sem koma að hátíðinni eiga mikið hrós skilið.”

Hvernig er þátttakana í hátíðinni, koma margir til Eyja til njóta?

„Þátttakan hefur farið fram úr björtustu vonum og er sífellt að aukast. Bæði hafa heimamenn verið duglegir að sækja hátíðina sem og mikill fjöldi fólks af meginlandinu. Margir nýta tækifærið og gista, ná tveimur og jafnvel þremur kvöldum þannig og fara þannig á nokkra staði,” segir Sigurður en hátíðin hefur þótt einstaklega vel heppnuð og metnaðarfull.

Byltingarkennt nálgun á mexíkóskri matreiðslu

Adriana Solis Cavida verður gestakokkurinn í ár á GOTT á MATEY. „Við erum ákaflega spennt að fá til okkar hina mögnuðu Adriönu á GOTT á MATEY sjávarréttahátíðina í Eyjum. Matarþekking Adriönu sem kemur frá Mexíkóborg, á sér djúpar rætur í ríkum hefðum heimalands hennar.

Frá unga aldri fór hún á líflega matarmarkaði San Felipe Ixtacuixtla, þar sem götu-matarfyrirtæki ömmu hennar kveikti ástríðu hennar á mat leiddi til þess að hún fór að vinna á nokkrum af þekktustu veitingastöðum heims.

Aðeins 19 ára gömul gekk Adriana til liðs við eldhúsið á Pujol, sem er í 13. sæti yfir 50 bestu veitingastaði heims, áður en hún bætti kunnáttu sína enn frekar ásamt matreiðslugoðsögnum eins og Ferran Adria á El Bulli og Eduardo Garcia á veitingastaðnum Lalo!.

Þessi reynsla hefur mótað byltingarkennda nálgun hennar á mexíkóskri matreiðslu, sem hún býður upp á á veitingastað hennar í London, Cavita, sem hefur fengið lof gagnrýnenda. Á MATEY sjávarréttahátíðinni í Eyjum mun Adriana koma með sína einstöku blöndu af ekta mexíkóskum brögðum og nýstárlegri tækni, þar sem hún mun búa til ógleymanlega rétti hjá okkur á GOTT.

Þetta er einstakt tækifæri til að upplifa matreiðslutöfra matreiðslumanns sem sameinar hefðir Mexíkó og nýsköpunar, með sérvöldu hráefni úr Vestmannaeyjum.

Adriana Solis Cavida verður gestakokkurinn í ár á GOTT á …
Adriana Solis Cavida verður gestakokkurinn í ár á GOTT á MATEY. Ljósmynd/Aðsend

Hafa ekki átt orð yfir hráefnið sem er í boði

Er búið að ákveða matseðilinn?

„Það er búin að fara mikil vinna í matseðlana þar sem gestakokkarnir fá að sýna hvað í þeim býr. Það er alltaf ótrúlega skemmtilegt að sjá hvaða nálgun og áherslur kokkarnir koma með og hvernig það blandast við íslensku hráefnin. Áherslan hefur verið á sjávarmetið úr Eyjum og þeir gestakokkar sem hafa komið á hátíðina hafa ekki átt orð yfir hráefni sem hefur verið í boði enda er öllu því besta tjaldað til.

Sumt hráefnið er ekki almennt í boði og okkar upplifun hefur verið sú að gestakokkarnir séu ótrúlega spenntir fyrir hátíðinni og að fá að vera í Vestmannaeyjum í nokkra daga og upplifa eitthvað allt öðruvísi en þeir eru vanir. Adriana tekur okkar ferska sjávarfang og setur það í mexíkóskan búning, sem er einstaklega spennandi,” segir Berglind.

Hér má sjá matseðilinn sem í boðið verður á MATEY:
Hér má sjá matseðilinn sem í boðið verður á MATEY:

Er sérstakt hráefni sem verður í forgrunni í ár?

„Sem fyrr er áherslan á sjávarfangið og er hátíðin styrkt af sjávarútvegsfyrirtækjunum hér í Eyjum sem sjá gestakokkunum fyrir hráefni,” segir Sigurður. „Það kennir því ýmissa grasa og oft er hráefni í boði sem alla jafna er ómögulegt að fá.”

Hjónin eru óðaönn að undirbúa staðinn fyrir hátíðina og metnaðurinn er í fyrirrúmi í öllu því sem gert er til að tryggja að matargestir muni eiga góðar minningar um matarupplifunina út í Eyjum.

„Við hvetjum fólk til að gera sér ferð til Eyja um helgina og smakka á herlegheitunum. Það taka flestir veitingastaðir bæjarins þátt með einum eða örðum hætti og við lofum veislu fyrir bragðlaukana og rífandi stemningu,” segir þau hjón að lokum.

Fyrir áhugasama þá má sjá matseðilinn sem í boðið verður hér.

Adriana Solis Cavida er mætt til landsins og yfir sig …
Adriana Solis Cavida er mætt til landsins og yfir sig hrifin af því sem íslensk náttúru hefur upp á að bjóða. Ljósmynd/Frosti Gíslason
Boðið er upp á fjölbreyttan matseðil og svo er líka …
Boðið er upp á fjölbreyttan matseðil og svo er líka hægt að fá öl sem er bruggað út í Eyjum. Ljósmynd/Berglind Sigmarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert